fimmtudagur, 21. ágúst 2008

Köngulærnar mínar

Ég sef með varann á mér á næturnar. Mér varð nefnilega á í hreinlætisæðinu, sem helltist yfir mig viku fyrir vinnu, að strádrepa köngulær í hrönnum við gluggaþvott.

Ég veit þær ætla að hefna sín. Það er bara spurning hvenær.

Vefirnir hlaðast upp utan á öllum gluggum og ég sé að hernaðaráætlun helvítis spideranna er að vefja húsið inn í vef og éta svo innihaldið........

MIG og í leiðinni saklausa nágranna mína, köttinn, framhaldsskólanemann, bifvélavirkjann og um það bil hálft tonn af hrossaflugum sem halda til hér ásamt öðrum heimilismeðlimum í friði og spekt.

Það er hættulegt að koma í heimsókn þessa dagana nema hafa flugbeittan hníf í vasanum til að skera sig lausan í neyðartilfelli!
Viltu kaffi væna/væni? ;)


þriðjudagur, 19. ágúst 2008

Voru þeir fullir??

Í heita pottinum á Costa del Yrsufelli áttu sér stað, fyrr í sumar, umræður um bræðurnar frægu, Gísla, Eirík og Helga. "Þeir byggðu hús og gleymdu að setja glugga og reyndu svo að bera sólarljósið inn með húfunum sínum". "Voru þeir fullir?" spurði yngsti unglingurinn í Yrsufellinu um hæl.

Hann hélt að þetta væru aðrir Gíslingar og sér nærri í tíma og rúmi en blessaðir Bakkabræður :)