fimmtudagur, 24. desember 2009

Aðfangadagsmorgunn :)

Klukkan er hálfsex og ég er vöknuð!
Í fyrrdag sátu vinir hér og við spjölluðum við kertaljós og kökur.
Einum fannst ég hlyti að vera stressuð fyrst ég svæfi svona lítið.
En yngsti gesturinn mótmælti. "Hún er ekkert stressuð, hún er bara svo spennt"!
Og það er alveg rétt. Ég verð barn í mér þegar kemur að jólunum og börn vakna yfirleitt extra snemma í desember. Um leið og ég fæ einhverja meðvitund er ég sprottin upp eins og stálfjöður því það ERU AÐ KOMA JÓL!!!
Hahahhahahhahaha!
Í gær, á Þorláksmessu var yndislegt.
Ég plokkað og litað nágrannakonu mína og fékk mér svo kaffibolla með henni.
Döðlubrauðin fóru svo í ofninn og fyrstu vinirnir mættu í kaffi, Jónsi með kærustuna. Þau voru leyst út með paté og lauksultu.
Næst elduðum við skötu!
Minn biti var algjört lostæti, Matsveinaneminn svitnaði og táraðist yfir sínum og þegar við athuguðum málið var hans svona margfalt sterkari en mín en báðar voru sjúklega góðar!
Næst verður tekinn hnoðmörinn á þetta!
Elsti sonurinn kom og við spiluðum dröguvist. Ég vann 4 spil á móti hverju einu sem hann vann. Mikil æfing sem barn við að spila þetta við hana systur mína hefur átt sinn þátt í því!
Homminn og verkalýðsfrömuðurinn komu við á leið í sveitina, afhentu pakka og tóku með sér pakka (gleymdu næstum báðum atriðum).

Svo kom kvöld!
Við settum á bakka döðlubrauð og smér, baguettesneiðar, heimagrafinn lax, heimagerða graflaxsósu (snilldarsósa matsveinanemans), reyklaxamús og piparrótarsósu, heimagert kjúklingalifrarpaté (aftir snilldarframlag nemans), heimagerða rauðlaukssultu, kiwisultu og chilisultu (tengdadóttirin og sonurinn) og hrúgaða bakka af 9 smákökusortum hvorri annarri betri :9
Tengdaforeldrar sonarins mættu, Jón Þó, Ásta og elsti sonurinn með frú og ömmustrák sem elskar lagið um Leppalúða með Baggalút og biður um það um leið og hann er kominn inn úr dyrunum.
Strípalingurinn og himnalengjan hennar komu líka og við áttum yndislegt kvöld hlaðið hlátursköstum og heitu súkkulaði!
Ég elska Þorláksmessu!
Og í kvöld eru JÓLIN!
Gleðileg jól!

föstudagur, 18. desember 2009

Meira jóla!

Ég fékk hugmynd fyrir doktorinn minn. Smá viðbót í jólapakkann sem fer vel í maga.
Setti það sem ég þarf á innkaupalistann fyrir morgundaginn.
Ég held hún verði frekar sátt!

Og meira um þetta yndi sem ég elska í ræmur!
Bíllinn minn er bónaður og póleraður í ræmur!
Hann gerði þetta í vikunni meðan ég var í vinnunni!

Ég held við höfum verið smíðuð fyrir hvort annað og það sem er svo magnað er að þetta "ekki jólabarn" er farinn að missa sig í jólapælingum og ætlar að fara í verslunarleiðangur í næstu viku og versla smá viðbótargjafir fyrir unglinginn og ömmustrákinn svona prívat frá sér og ég má ekkert að því koma eða vita!

Svo þykist hann ekki fíla jól! Je ræt!

Jóla jóla ........ bjór!

Ég get ekki sofið!
Sofnaði hálf tólf, vaknaði um þrjú og sit hér við tölvuna, flakka um á netinu og sötra jólabjór frá Viking og fæ mér stöku bita af jólasíld með rósapipar frá Ora. Namm!

Ástin mín sefur.

Í dag bættist nýtt tæki í fjölskylduna. Frystikista.
Electrolux, 210lítra, leysir nú frystiskápinn, Whirlpool draslið af hólmi. Skápurinn entist í 4 ár og svo dó í honum heilinn!
Ég veit að þessi kista á eftir að lifa í hundrað ár.

HRingdi heim í dag úr vinnunni til að taka stöðuna.
"já, kistan er komin og passaði inn, ég veit ekki hvernig gengur að koma hurðunum upp aftur og það er allt í rúst! En, þú bara slakar á og ég klára þetta"
Ég mætti heim, frekar mikið ægilega uppgefin eins og fylgir þessum síðustu vinnudögum fyrir jól, og það var nánast allt í orden.
"Hva? var ekki allt í rúst?" spurði ég og dáðist að framkvæmdunum. "jú, það er það, ég er alveg að verða búinn, sestu nú og fáðu þér kaffi".
Þessi elska. Hann sá fyrir sér að þetta yrði meira mál í frágangi en það reyndist vera og sá mig líka fyrir sér fá kast og tuða um aðkeypta iðnaðarmenn og svo framvegis í ljósi ótrúar minnar á karlkynið sem tilkomið er vegna fyrri reynslu af getulausum karlmönnum!
Þetta var allt í orden!
Kistan gengur, kompan er þrifin allan hringinn, allt á réttum stöðum og skipulagið í botni, frystirinn á ísskápnum meira að segja afþýddur og klár fyrir sörur, villimousse, graflax, laxamús og svo framvegis!
Og það ótrúlega!
Ég kom ekki nálægt þessu fyrir utan að raða nokkrum hlutum í hillur sem MÉR VORU RÉTTIR!!
Er nokkur furða að ég elski þennan mann!
Já og bjórinn er fínn, jólajósin loga, allt er með ró og spekt og mér líður svoooooo vel!

þriðjudagur, 8. desember 2009

GOOOOOOOOOOOOOOD MOOOOOOORNING!

Jahá!
Nú er maður loksins orðinn elliær!
Vöknuð og eldhress klukkan hálfsex!
Búin að fá endalausar snilldarhugmyndir að jólagjöfum í morgun/nótt.....sem mig vantaði ekki því ég er búin að ákveða jólagjafirnar í ár........ og á ekki pening til að kaupa aðra umferð á línuna!
Ég hlakka rosalega til í dag.
Einn af mínum uppáhaldshöfundum les upp úr nýjustu bókinni sinni í dag, Vilborg Davíðsdóttir úr "Auði".
Svo ætla ég að skreppa í smá leiðangur að versla verðlaun fyrir duglegasta nemandann minn en hún er búin að fá yfir hundrað jákvæðar athugasemdir í vetur fyrir góða ástundun og hegðun!
Ég ætla líka að grípa jólagjöf handa doktornum mínum í leiðinni :)
Og kaupa einn hlut í viðbót sem tengist jólunum örlítið!
Ég elska jólin!!!!