Gleðilega hvítasunnu
Fyrir 30 árum á Hvítasunnudegi fermdist ég.
Ég var frekar nett, 169 cm há ef ég teygði mig og fermingarpilsið mitt var 40 cm í mittið.
í dag er ég 173 cm há og aðeins fleiri cm í mittið ;)
í dag er ég hamingjusamari en ég hef nokkurn tíma verið áður í lífinu að örfáum einstökum atburðum undanskildum.
Þegar rauðhausinn minn kom í heiminn að morgni 10. febrúar 1982. Nú er hann myndarlegur fjölskyldufaðir og áhugamaður um póker, veiðar og eldamennsku.
Þegar yndisfagra stúlkan mín opnaði augun og leit á mig snemma dags 18. ágúst 1988. Nú er hún farin að búa, er að fara að taka svarta beltið í taek wondo og hefur þriðja árið í læknisfræði í haust.
Þegar smágerði unginn minn var lagður í fangið á mér að morgni 25. júní 1992. Hann er ekki sérlega smágerður lengur :) Nú er hann á leið til Þýskalands með 2 skólasystkinum í námsferð á vegum skólans síns og hefur fimmta árið í gítarnámi við Gítarskóla Íslands í haust og fer á annað ár í Borgarholtsskóla á málabraut.
Þegar ég fékk inngöngu í Sálfræði í Háskóla Íslands í maí 1994 og flutti til Reykjavíkur frá Akureyri með þrjú börn, 2ja ára, 6 ára og 12 ára. Nú er ég með BA próf í sálfræði og kennsluréttindi og hef kennt heimilsfræði í Rimaskóla í 10 ár.
Þegar kennsluefni eftir mig var gefið út hjá Námsgagnastofnun í ágúst 2006.
Sú ólýsanlega stund að líta ömmustrákinn fyrsta skipti augum í fangi föðurs síns (rauðhaussins) klst. gamlan þann 3. ágúst 2007.
Þegar ég fékk Fjöreggið, verðlaun matvæla og næringafræðafélags Íslands 16. október 2007 fyrir að vera duglegur heimilisfræðinörd.
Þetta voru allt einstakir atburðir sem einstök sæla og gleði fylgdi.
Í dag eru allir dagar einstakir, friðsælir, hamingjuríkir og svo ótrúlegir að ég brosi hringinn og er alltaf jafn hamingjusöm, glöð og ánægð.
Á mínu daglega hamingjuskýi vappaði ég um í þögninni í morgun og úrbeinaði svínabóg, skar niður lambainnralæri og lagði svo ásamt sveppum í þrjá ólíka kryddlegi.
Það er nefnilega grillveisla með góðum vinum í kvöld á þessu heimilinu.
Svo á að spila Kana og hlægja hátt!
En nú þarf ég að búa til tvöfaldan skammt af skyrtertu með jarðaberjahlaupi og sítrónukeim!
Þetta er yndislegt líf :)