sunnudagur, 31. maí 2009

Gleðilega hvítasunnu

Fyrir 30 árum á Hvítasunnudegi fermdist ég.
Ég var frekar nett, 169 cm há ef ég teygði mig og fermingarpilsið mitt var 40 cm í mittið.
í dag er ég 173 cm há og aðeins fleiri cm í mittið ;)
í dag er ég hamingjusamari en ég hef nokkurn tíma verið áður í lífinu að örfáum einstökum atburðum undanskildum.

Þegar rauðhausinn minn kom í heiminn að morgni 10. febrúar 1982. Nú er hann myndarlegur fjölskyldufaðir og áhugamaður um póker, veiðar og eldamennsku.

Þegar yndisfagra stúlkan mín opnaði augun og leit á mig snemma dags 18. ágúst 1988. Nú er hún farin að búa, er að fara að taka svarta beltið í taek wondo og hefur þriðja árið í læknisfræði í haust.

Þegar smágerði unginn minn var lagður í fangið á mér að morgni 25. júní 1992. Hann er ekki sérlega smágerður lengur :) Nú er hann á leið til Þýskalands með 2 skólasystkinum í námsferð á vegum skólans síns og hefur fimmta árið í gítarnámi við Gítarskóla Íslands í haust og fer á annað ár í Borgarholtsskóla á málabraut.

Þegar ég fékk inngöngu í Sálfræði í Háskóla Íslands í maí 1994 og flutti til Reykjavíkur frá Akureyri með þrjú börn, 2ja ára, 6 ára og 12 ára. Nú er ég með BA próf í sálfræði og kennsluréttindi og hef kennt heimilsfræði í Rimaskóla í 10 ár.

Þegar kennsluefni eftir mig var gefið út hjá Námsgagnastofnun í ágúst 2006.

Sú ólýsanlega stund að líta ömmustrákinn fyrsta skipti augum í fangi föðurs síns (rauðhaussins) klst. gamlan þann 3. ágúst 2007.

Þegar ég fékk Fjöreggið, verðlaun matvæla og næringafræðafélags Íslands 16. október 2007 fyrir að vera duglegur heimilisfræðinörd.

Þetta voru allt einstakir atburðir sem einstök sæla og gleði fylgdi.

Í dag eru allir dagar einstakir, friðsælir, hamingjuríkir og svo ótrúlegir að ég brosi hringinn og er alltaf jafn hamingjusöm, glöð og ánægð.

Á mínu daglega hamingjuskýi vappaði ég um í þögninni í morgun og úrbeinaði svínabóg, skar niður lambainnralæri og lagði svo ásamt sveppum í þrjá ólíka kryddlegi.
Það er nefnilega grillveisla með góðum vinum í kvöld á þessu heimilinu.
Svo á að spila Kana og hlægja hátt!
En nú þarf ég að búa til tvöfaldan skammt af skyrtertu með jarðaberjahlaupi og sítrónukeim!
Þetta er yndislegt líf :)

laugardagur, 30. maí 2009

Hahahhahahahahhahahah!

Mér hefur hingað til ekki þótt sérlega gaman að fara með Gudda mínum að versla föt en í dag skemmti ég mér konunglega og hló allan tímann!
Hann og bifvélavirkinn fóru saman inn í alla mátunarklefa, gerðu grín að hverjum öðrum, kommentuðu á hvorn annan og hlógu grimmt á hvors annars kostnað!
Ég og aðrir sem biðu eftir klefunum hlógu jafnmikið. Þeir voru óborganlegir.
Við komum heim ansi mörgum þiðsundköllum fátækari með ansi marga poka!
Vá hvað þeir eru flottir! og það þótt þeir hafi prófað ýmislegt sem orsakaði fáránlegt látbragð og leikræna tilburði mér og öðrum til skemmtunar :)

Nýtt rúm með þingeysku ívafi!

Ég er stoltur eigandi stærsta rúms sem ég (á það reyndar ekki ein) hef átt um tíðina.
Rúmið var keypt í gegnum er.is.
Systir mín fylgdist með fyrir mig og hringdi inn númer sem ég hafði samband við. Ég geystist á staðinn ásamt bifvélavirkjanum og eftir að hafa við bifvélavirkinni höfðum flatmagað í rúminu stutta stund spurði ég seljandann hvort hann væri að norðan.
"Já" var svarið. Þá spurði ég hvort hann væri kannski þingeyingur. Það var einhver sérstök áhersla í röddinni sem passaði eingöngu við þingeyjarsýslu.
Þá fékk ég spurningu á móti "varst þú ekki í Bárðardal"!
Heimurinn er smár á Íslandi. Þetta var þá mætur Bárðdælingur sem mundi eftir mér enda reyndist þessi aðili mér einstaklega vel á þeim tíma sem ég bjó í Bárðardal (í gamla daga sko). Hann reyndist mér aftur vel í þetta skiptið!
Rúmið fyllir núna nánast út í herbergið og það fylgir því einstaklega góð tilfinning að leggjast í rúm með svona skemmtilegan bakgrunn.
Sérkennilegur fiðringur líka því þessi tiltekni Bárðdælingur var og er sá sætasti af öllum Bárðdælingum fyrr og síðar, bæði á sál og líkama!
Úlallalla :) Ég reyndi að setja inn mynd af dýrgripnum en rúmið er of stórt til að passa á bloggið!!!



Síðustu viku voru gleðidagar í unglingadeildinni og í sálu minni eins og alla daga nú orðið. Þessi hamingja sem ríkir í lífi mínu tekur engan endi en bara vex og vex.
Smurningsilmur og blíðu brúnu augun sem ég horfi í alla morgna þegar ég vakna eiga sinn þátt í því.
Það er yndislegt að vera svona hamingjusamur. Tilfinning sem ég hef ekki upplifað í þessu magni síðan ég var ung og óreynd og trúði virkilega á hið góða í heiminum. Trú sem ég týndi í alltof mörg ár en hefur nú snúið til baka af ótrúlegum krafti!
Lífið er æðislegt og nú er þriggja daga frí með grillveislu í góðra vina félagsskap, spilamennska og svo endar fríið með heimsókn frá ömmu minni sem er mesti snillingur í heimi og gala dinner henni til handa.
Hún er áttræður unglingur sem kann að lifa lífinu!
Ég hlakka ferlega til!

mánudagur, 18. maí 2009

Veðursældin ótrúleg

Þriðji dagurinn sem sólin sleikir gluggann eldsnemma!
Eurovision kvöldið var alveg frábært. Ég fæ sæta unglingsdömu lánaða reglulega og hún gisti hjá mér á laugardagskvöldið og tók virkan þátt í dómarastörfum á heimilinu svo við vorum 4 sem fylgdumst með keppninni.
Mest allan tímann, Guddi minn hafði ekki alveg úthald í að fylgjast með allan tímann. Tölvan hans varð nefnilega svo einmana að hann varð aðeins að sinna henni og missti því af Rúmenska laginu og því Breska.
Lögin sem voru stigahæst á heimilinu voru:
Eistland, Ísland, Finnland, Svíþjóð, Grikkland, Malta, Tyrkland og Portúgal.
Þegar Ísland fékk mörg stig og toppbaráttan í algleymi öskruðum við lánsbarnið svo hátt að bifvélavirkinn kvartaði. Við öskruðum enn hærra og hann kvartaði ekkert í restina þegar Jóhanna tók annað sætið!
Ótrúlega gaman.
Það lá töluverð hestalykt yfir vötnum því lánsbarnið og ég eyddum deginum í hesthúsinu hjá vegagerðarmanninum og framhaldsskólakennaranum. Lánsbarnið fór á hestbak og var alveg ótrúlega flott á hestbaki þrátt fyrir að hafa bara einu sinni farið á hestbak áður og það á leikskólaaldri. Þá datt hún af baki og þetta var fyrsta ferðin hennar síðan þá.
Nú er hún hooked!
Já og Guddi hringdi inn stig fyrir Þýskaland. Það hefði verið alveg sama hvað þjóðverjarnir hefðu gert á sviðinu því hann er einstaklega hliðhollur öllu þýsku þessa dagana enda á leið í námsferð til Dusseldorf á vegum Borgarholtsskóla fyrir frábæra frammistöðu í Þýsku í vetur!
Já og annað, alveg gjörsamlega brjálæðislega geggjað og frábært!
Hann fékk 8 og 9 í stærðfræði!
Stærðfræðihæfileikar hans og doktorsnemans eru algjörlega arfur frá föður þeirra.
Ég get ekki pantað pizzu ofan í 20 barna bekkinn minn og pantað réttan fjölda, tel alltaf vitlaust og sama á við með ís. Keypti ísbox með 6 ísum í um daginn, tók fjögur box úr SEM VORU UMFRAM og mætti með 14 stk!
Ég get ekki lagt saman 2 og 2, ég ruglast einhverstaðar á leiðinni, það er alveg bókað.
Þegar ég tel hóp þrisvar fæ ég þrjár mismunandi tölur.
En ég kann að elda og ég reddaði þessu með ísinn!

laugardagur, 16. maí 2009

júróvísjón!




































Ég á mér langa sögu sem mikill júróvisjón fan.
Allt frá þeim tíma þegar júró var sýnt löngu eftir að keppnin var haldin í ríkissjónvarpi sem "lokaði" á fimmtudögum og var svarthvítt!


Ég dansaði og hoppaði og dáðist þvílíkt að flytjendum og tónlistinni!


Það var erfitt að fá mig til að sofna svo hátt uppi var ég eftir að hafa horft á júróið í betri stofunni hennar ömmu.


Framan af árum, meðan börnin mín voru börn, gáfum við hverju lagi atkvæði og spennan á heimilinu var mikil.


Síðustu árin hefur þeim sið að fylgjast með og gefa atkvæði ekki verið verið viðhaldið en nú sit ég og útbý atkvæðalista fyrir mig, gudda og bifvélavirkjann.


það er nefnilega áberandi hvað gamlir siðir sem ég elska eru að rísa upp í tilverunni hjá mér og öll tilveran að gírast niður um leið.
Mér finnst það harla gott mál :)

Og lögin sem mér finnst best eru lag Eistanna, ofboðslega fallegt lag og fallegur flytjandi, Svíþjóð með poppóperulagið og svo Jóhanna með sína mögnuðu rödd. Ég vona að þessum lögum gangi vel og ég veðja á að Is it true verði í topp 5!

föstudagur, 15. maí 2009

HJÁLP!!!

Friðsæld já já einmitt!
Póstaði síðasta bloggi og um leið og ég horfði ánægjulega á afraksturinn flaug randafluga inn um gluggann til mín!
Friðurinn úti!
Farin, þotin, horfin!
Ég er skíthrædd við randaflugur!!

Bloggþörf og fuglasöngur árla dags :)

Ég þurfti að skoða bloggið mitt til að leita að uppskrift um daginn og viti menn. Vaknaði ekki bloggþörfin aftur.
Ég hló nefnilega af og til, flissaði á stundum og brosti út í annað af og til við lesturinn.
Ég er nefnilega töluverður sjálfsdýrkandi :9

Sólin skín í dag og ég heyri fuglasöng, sérstaklega þegar ég sit á salerninu í ró og friði með opinn gluggann. Stundum heyri ég reyndar í nágrönnunum rétt við gluggann, spjalla við vini og vandamenn en oftar er það fuglasöngurinn.
Það er eitthvað sérdeils friðsældarlegt við að heyra fuglasöng við þessi morgunverk og fá svona bernskufíling beint í æð.
Þegar ég var lítil stelpa á Hofsós var þessi dodoooooooooo dodoooooooo fuglasöngur nefnilega alltaf til staðar frá því snemma á vorin og ég elska allt sem tengist Hofsós, besta bæ á Íslandi :)
Það er ekki slæmt að fá þessa sælu bernskuminningu svona beint í æð eldsnemma á morgnana en mikið þætti mér gaman að vita hvaða fugl það er sem syngur svona fallega DoDoooooooo DoDooooooo hér í Grafarvoginum :)