mánudagur, 16. nóvember 2009

Þjóðarsport suður ítalskra karlmanna!

Við Stefanía röltum af stað á laugardeginum að skoða Brindisi. Rétt hjá hótelinu er stórt og fallegt torg með gosbrunnum og þar klófesti fyrsti ítalinn okkur. Dvergvaxinn tónlistarmaður sem sagði okkur allt um sjálfan sig án þess við værum neitt að biðja hann um það. Hann næstum límdist fastur við okkur en af því hann þurfti heim til að borða pasta, horfa á sjónvarpið og þjást fyrir listina þá gátum við haldið göngunni áfram....... um stund!

Næst sáum við þessa svaka flottu löggur og óvitarnir við ákváðum að smella af þeim mynd. Well, ekki beint það gáfulegasta. Þessir "carabinieri" tóku okkur umsvifalaust í þriðju gráðu yfirheyrslu! Hvaðan vorum við, hvað vorum við að gera hérna, áttum við börn, komum við til að búa til börn, eiginmenn osfrv. Ég mundi setningu frá Ítölsku tíma "Io sono sposata" (ég er GIFT) en Stefanía slapp ekki! ÞEgar þeir vissu að hún væri á lausu heimtaði annar símanúmerið og þá fyrst fórum við að svitna. Það er nefnilega eitthvað bilerí á öllu símadæmi hér og við getum bara notað símana endrum og sinnum eða ekki neitt. Sama hvað er slegið inn. Carabinierinn sló númerið inn og prófaði strax að hringja. Það virkaði ekki. Hann náði næst í löggusímann og þegar hann virkaði ekki heldur skipaði hann Stefaníu að hringja í sig! Þegar við vorum orðnar úrkula vonar um að enda ekki á því að verða handteknar vegna rangra símaupplýsinga komu einhverjir kallar sem þurftu á þeim að halda. Fjúkk!

Það sem er hinsvegar öllu verra mál er að ef þeim tekst að komast í gegn og hringja til Íslands þá hringja þeir í dóttur Stefaníu því hún ruglaði saman sínu númeri og dóttur sinnar!

Næsta umsátur átti sér svo stað niðri við höfnina meðan við biðum eftir vatnastrætó! Kolsvartur rastafari með eldrauð augu heimtaði að við tækjum hann að sér, færum með hann til íslands og svo yrðum við vinir forever. Við gætum opnað hjörtu vor, lokað augunum og treyst honum og svo allir lifað sáttir að eilífu!

Hann sagðist nefnilega sjá það vel að við værum góðar manneskjur sem gætum vel tekið hann með okkur HEIM til Íslands sem hann hafði bókstaflega ekki hugmynd um hvað eða hvar var!

Stefanía bauð honum facebook adressuna sína en það fyrirbæri hafði hann aldrei heyrt af. Við hentum okkur um borð í vatnabussinn og laumuðumst svo framhjá honum því við sáum fyrir okkur að við losnuðum aldrei við hann ef hann fengi færi á okkur aftur.

Nú þorum við Stefanía ekki út úr húsi nema með Jóa með okkur sem Bodyguard!

Paola, gestgjafinn okkar, sagði okkur reyndar að við skildum alveg vera klárar í slaginn því það væri þjóðarsport hérna að reyna við allar erlendar konur!

Amen!

Vínkynningarsagan næst en það var ákaflega ítölsk og svolítið fyndin upplifun!

Arrividerci!

3 ummæli:

Auður sagði...

Hahaha, þeir virðast líka heldur betur góðir í þessu sporti sínu! :D Þú varst ekkert að ruglast á ÞÍNU númeri og dóttur þinnar, er það? ;)

Heimilisfræðinördinn sagði...

Nei sko sjáðu til. Ég KANN ítölsku! Io sono sposata!

Auður sagði...

Damn! Eða var hann kannski ekki nógu sætur? ;)