mánudagur, 19. maí 2008

London ;)

Ég er að fara til London eftir örfáa tíma. Ragna rúsína ætlar að keyra mig út á völl þar sem ég hitti þrjá nemendur úr 10. bekk í Hvaleyrarskóla sem sigruðu kokkakeppni Grunnskóla Íslands í apríl og kennara þeirra.
Seinni partinn í dag borðum við ostrur í Harrods *jömmí* og á morgun verður borðað á Fifteen, veitingastað Jamie Oliver.
Þegar ég ætlaði að pakka niður, alveg á síðasta snúningi, kom í ljós að engar ferðatöskur finnast á heimilinu.
Handfarangurstaskan reddar þessu og ég kaupi svo bara tösku úti ;)
Lifði heil og njótið lífsins, það þýðir ekkert að sitja og gráta horfin tækifæri á elliheimilinu!

fimmtudagur, 15. maí 2008

Sumarið er KOMIÐ!

Ég sver það. Allt að verða fallega grænt og ég orðin fallega rauð ;)
Í gær var nefnilega Costa Del Yrsufell dagur.
Það var eins og það væri komið hásumar og deja vu tilfinningin var ótrúleg. Við sátum úti á palli og grilluðum okkur og feitar býflugur suðuðu í kring.
Prentarinn myndaði býflugur, við lágum eins og klessur, strípalingurinn og kanarískvísan, prentsmiðjan og ég.
Mikið verður geggjað þegar stóri pallurinn verður kominn upp og potturinn í gang.
Þá flytjum við Strípó lögheimilið okkar í Costa Del Yrsufell og tökum bikiníið með ásamt 10 kg lime, hrásykur og sódavatn.
;)
Gleðilegt sumar gott fólk ;)

föstudagur, 9. maí 2008

Víkingar og samræmdu prófs lok :)

Stærðfræði prófið var síðasta prófið af 6 samræmdum og var í gær.
Guddi litli var nokkuð sáttur, það voru nokkur almenn dæmi sem hann skildi lítið í en afgangurinn var víst ekki svo flókinn. Nú er bara að bíða og sjá hvernig pilti tókst til. Hann tók ensku prófið í fyrra og tók svo öll hin núna nema samfélagsfræðina.
Strax eftir prófið var brunað af staða með krakkana í óvissuferð.
Rútan mætti svo með hópinn klukkan sex á Argentínu þar sem þau nutu frábærs kvöldverðar að hætti yfirmatreiðslumeistarans en þá hafði þeim verið skipti í 7 víkingalið með mislitum buffum.
Eftir Argentínu var farið í Heiðmörk.
Þar var hlaupið, sungið, dansað, hlegið, smíðað, egg borin um í skeiðum, kraftarnir reyndir og að lokum keppt í ógeðsdrykkju.
Guddi heldur því fram að ég hafi ætlað að drepa einhvern með ógeðsdrykknum sem ég blandaði en hann var svo hræðilegur að bara tveir keppendur komu honum niður en hinir tveir köstuðu upp.
Guddi sagðist örugglega muna æla í rútunni en hann var fyrst að svæla óþverranum í sig.
Ekki dugði það hóp hans, Terroristunum, til sigurs því bleikur sykur hirti þann titil frekar auðveldlega.
Eitt af því sem víkingahóparnir áttu að gera var að semja á 15 mínútum lag með bakgrunnshljóðum um liðið sitt. Þessir krakkar úr Borgaskóla eru ekkert smá frjó og lifandi. Liðin fjögur gjörsamlega brilleruðu og kom hvert tónlistaratriðið af öðru betur út.
Það er ekkert smá skemmtilegt að fá að vera með svona skemmtilegum krökkum!
Nú eru þau í river rafting í rigningu og seint í kvöld koma þau svo heim eftir paint ball leik, líklega með töluvert af blautum fötum í farteskinu.
En öll sæl og glöð því þetta eru bara þannig börn ;)

fimmtudagur, 8. maí 2008

það verður FJÖR!

Uppáhalds frænkan mín hún Halla babe er í heimsókn á landinu frá Toronto þar sem hún býr ásamt sonum sínum þremur. Þau verða hér fram á sunnudag.
Í gærkvöldi fórum við ásamt einni annarri á Hornið og það var ótrúlega gaman. Rifja upp gamlar minningar (mörg prakkarastrik) og finna hvað við erum alltaf einstaklega nánar um leið og við hittumst.
Í fjölskyldunni minni er nefnilega fullt af góðu fólki en fáir sem ég næ að smella svona við eins og hana Höllu.
Við erum búnar að plana humarát, hvítvín og ýmislegt sprell á laugardagskvöldið og ég hlakka mikið mikið til! Vitandi hversu miklir grallaraspóar við erum báðar efast ég ekki um að það verður kvöld sem verður lengi munað.
Strípalingurinn ætlar að vera guide um næturlífið því það er varla hægt að segja að ég rati um miðbæinn lengur, hvað þá viti hvaða staðir eru skemmtilegir.
Svo varúð á laugardaginn, Nördinn og frænkubeibíið undir leiðsögn Strípó munu mála bæinn rauðann!
Eða, mætið á svæðið og sjáið fjörið óbeislað ;)

þriðjudagur, 6. maí 2008

Hvað verður um dagana eiginlega?

Ég sver að í gær var mars!
Það er einhver sem rænir dögum og heilu vikunum!
Það góða við þetta er samt að þá verður alltaf styttra og styttra þangað til sumarfríið byrjar!
12. júní byrja ég í 2ja mánaða löngu sumarfríi og ég er ekki búin að plana NEITT!
Það er samt ekki mjög líklegt að ég geri ekkert í sumar, ég á eftir að troða mér í einhverja vitleysuna.
Til dæmis núna, í tímaskortinum og brjálæðinu datt mér í hug að skrá mig á þriggja vikna ljósmyndanámskeið! Rétt eins og ég hafi endalausan tíma til að drepa.
Er líka á leið til London með hóp og að fara að skrifa og elda fyrir grillþátt fyrir Húsfreyjuna og þarf því að finna mér tíma til að kaupa mér nýtt grill. Hitt fauk til fjandans í óveðri vetrarins ásamt skjólveggjum, útihúsgögnum og öllu sem Kára tókst að slíta af húsinu!

Got to run!
Lifið og lifið og lifið ....... Á SPRETTI! ;)