föstudagur, 24. desember 2010

Gleðileg jól

Þau koma, enn eitt árið.
Þetta er ein skemmtilegasta aðventa sem ég hef átt.

Það hefur verið bilað að gera vinnulega séð en heima hefur allt verið yndislegt.

Það er gott að búa með Gudda ;)

Í gær voru fjöldaframleiddar sósur, graflaxsósa, sítrónusósa með reyklaxamúsinni, rauða sósan með rækjukokkteilnum, hvítlaukssósa Argentínu, Chimi Churri sósa Argentínu og búinn til ís og bakaðar hvítar kökur með súkkulaði, döðlubrauð og marengs.

Mörgæsin var mætt um þrjú og vann hörðum höndum til 9 um kvöldið en þá var allt loksins tilbúið og klárt, síðasti pakkinn innpakkaður og allt matarstúss afgreitt.

Það var óvenju vel mætt þessa Þorláksmessu, strípalingurinn og himnalengjan hennar komu, homminn og verkalýðsfrömuðurinn (fara aldrei þessu vant ekki í sveitina), tengdafólkið allt saman og frænkan, frumburðurinn og hans hópur og svo kom doktorinn með kýlarann sem verður hér með okkur um jólin.

Hann er víst ekki vanur svona JÓLUM, enda kannski ekki skrýtið. Við dóttir mín breytumst báðar í jólaálfa í nóvember og erum svo þannig fram að þrettándanum þegar jólin eru kvödd nánast með tár á hvarmi.

Nú er það dúllerí við jólamyndir og huggulegheit þangað til tími kemur til að elda þennan sérræktaða lambahrygg, gera risotto, baka kartöflur, græja grænmeti, kokkteilinn og líma svo möndlumiðann undir skálarnar.
Þá mega jólin koma ;)

Gleðileg óskúruð jól!

mánudagur, 20. desember 2010

Hver stal tímanum?!

Helgin gjörsamlega hvarf svona rétt eins og síðustu helgar og vikur hafa gert!

Ég fékk 3 elderly vahú ladies í mat á föstudagskvöldið til langt gengin í fimm um nóttina. Það var svo mikið hlegið eftir saltifisk og parmaskinkuát að Guddi sagði morguninn eftir að hann hefði átt von á að einhver dæi úr hlátri!
Sumir voru amk. með slæma strengi!
Æðislegt kvöld!
Ljósmyndarinn, framhaldsskólakennarinn og háskólaneminn brilleruðu!

Á laugardaginn skoðaði ég nýja heimili jólakattar ömmustráks sem "á heima hérna aleinn"!, hann er kominn með sérherbergi og voða stoltur af því!
Hann kom svo með mér heim og hitti mörgæsina og Gudda, við skruppum að hitta Írenu, Andreu og Garðar og jóluðumst aðeins þar.
Heima bökuðum við 3 smákökusortir og rauluðum með Leppalúða sem er náttúrulega uppáhald barnabarnsins og Grýlu (við erum jólakötturinn og Grýla til skiptis).

Um morguninn var amman mikið spenntari en barnið yfir því hvort eitthvað hefði komið í skóinn en þetta barn er svo stóískt yfir skónum að annað hefur ekki sést. Spurning hvort það væri ekki meiri spenningur hjá pilti ef Grýla, Leppalúði eða kattarófétið settu í skóinn í stað sveinanna.

Þegar litli maðurinn var snúinn heim á leið tóku við snúningar í allar áttir að gera og græja, bæði fyrir jólamatinn sem ég sé um (amma klikkaða sko, eins og barnabarnið segir) fyrir námsflokkana og jólin, kaffihúsaferð með hommanum og svo heim að pakka inn fyrir mörgæsina.

Renndi svo vestur í bæ að sækja jólapakka frá kisu einni í vesturbænum og skellti svo í 2 ostakökur eftir að ég bjargaði ÖRFÁUM maple sýróps og pekan hnetu hafrakökum nánast úr gininu á Gudda.
Þær voru bakaðar seint í gærkvöldi og áttu eftir að fara í boxið. Guddi stakk bara af með alla skálina inn til sín og það voru ÖRFÁAR eftir þegar ég uppgötvaði hvað var í gangi!

Öss, hann er fljótari að éta þær en ég að baka þær og er ég samt helv. snögg! Mig grunar að hornin séu líka öll horfin úr kistunni, hann hitar heilu matardiskana í einu og gleypir svo heil eins og rúsínur úr lófa sér!

Nú er það einn kaldur á kantinum fyrir svefninn og svo er sprettdagur á morgun.

Á hinn daginn er hinsvegar jólahlaðborðsferð með hjúkkunum tveim tilvonandi og tilheyrandi skálerí!

Doktorsneminn sagði að það væri heldur betra að ég væri við skál þegar við skreyttum jólatréð um kvöldið því þá væri ég svo ligleglad!
Well, það verður gaman að sjá það!
Skál félagar ;)

Það eru að koma jól!
HÓHÓHÓ!

fimmtudagur, 16. desember 2010

Álfadagar

Við erum í álfaleik í vinnunni minni.
Ég á alveg magnaðan álf sem hefur staðið sig alveg frábærlega.
Fallegar kveðjur, klingjandi flöskur með skemmtilegu innihaldi berast mér daglega!

"mamma, heldur álfurinn þinn að þú sért alki" spurði Guddi minn í gær þegar ég kom heim með enn eina fljótandi gjöfina ;)

Hann skilur ekki að álfurinn minn gerir sér grein fyrir því að fagrar konur sem vinna mikið eiga skilið að slaka á með líkjörsglas eða kokkteil, nú eða hvítvínsglas í lok erfiðs dags.
Borða konfekt úr jólaskál, bera á sig andlits serum dropa par excellence og horfa á róandi ljós úr jólahúsi.

Yndislegt!

Hlakka til að koma í vinnuna í dag og sjá hvað bíður mín ;)

sunnudagur, 12. desember 2010

Allir baggalútarnir!

Ömmubarnið mitt, Jón Þór jólaköttur, gisti á föstudagskvöldið og fór með mér í jólasveinaleit í Kringluna og á Korputorg á laugardaginn.
Ég var Grýla. Ófreskjurnar eru miklum mun vinsælli hjá honum en jólasveinarnir sjálfir.
Hann hefur til dæmis engan áhuga á að vera Stúfur eða Hurðaskellir. Bara jólakötturinn, Grýla eða Leppalúði.

Hann hefur líka ekki mest hefðbundna smekk barna á jólalögum.
Leppalúði með Baggalút er algjörlega í toppsætinu hjá honum.
Þeir voru í Kringlunni í gær að árita plöturnar sínar.
"AMMA, Allir baggalútarnir eru þarna"! Drengurinn var alsæll að sjá þá en hann lætur ekki bara duga að hlusta á jólaplötuna þeirra daginn út og daginn inn heldur vill hann horfa á myndböndin þeirra út í eitt líka.

Ég verð að segja að ég er sérlega ánægð með hrifningu drengsins á jólaskrímslunum, áti þeirra á óþekkum krökkum og tónlistarsmekkinn hans.

Gæti barnið verið meira í stíl við kvekendið hana ömmu sína!

Don´t think so!

Æði!

Jólasveinn ársins 2010 hefur ekki fundist ennþá þrátt fyrir sérstakan leitarleiðangur.
Ég talaði við fulltrúa jólasveina heimilisins og útskýrði þessa skelfingu fyrir þeim, að í ár fengju þeir kannski engan félaga. Þeim leist ekki vel á svo ég ætla að reyna betur.



Frétti af jólabúð í Mosó sem gæti átt þann eina sanna ;)

föstudagur, 10. desember 2010

Bloggþörf aftur!

Ég hef fundið fyrir vaxandi bloggþörf síðustu daga.
Lét undan henni hálfrangeygð, uppvöknuð, um miðja nótt.
Það er "ÞESSI" árstími!
Elska aðventuna :)
Það er búið að vera brjálað að gera í ótrúlega skemmtilegum verkefnum. Baka með konum og körlum, elda Tapasrétti, ítalska rétti og kenna skemmtilegu fólki úr Námsflokkunum að elda og baka.
Nú ætla ég að byrja að baka sjálf: hvítar engiferkökur, rússa, sörur, horn, hafrakökur með pekan hnetum, trufflur, hnetugott, bombur, búa til lifrarmousse, rauðlaukssultu, grafa lax og græja sósu. Alveg spurning að grafa lamb í lakkríssósu og innbaka nokkrar ólífur í leiðinni.

Oggggggg pakka inn jólagjöfum og fara með ömmustráknum að finna jólasvein ársins 2010!