sunnudagur, 28. júní 2009

Lærislaus sunnudagur og gífurleg ást!

Það er sunnudagur og ég tók klst í rope yoga bekknum í morgun. Hjólaði svo í sund og úfff, það er mun erfiðara að hjóla en að labba.
Ég synti 800 metra og hjólaði svo heim.
Eldrauð í framan og svitinn lak niður andlitið!
"hvað, það er ekkert mál að hjóla" hvein í Gudda. Sæi hann í anda hjóla þessa vegalengd með stórt hlass á vagni á eftir hjólinu og segja svo "ekkert mál að hjóla"¨.

Ást mín á Gudda er að fara með mig. Ég er að deyja úr löngun í læri!
Elska létteldað lambalæri beint úr ofninum sem safinn spýtist úr!
EN nei, GUddi minn elskar Lasagnað mitt jafn mikið og ég elska lærið svo ég bjó til 2faldan skammt af lasagna (báða risastóra) og frysti annað.
Það er sem sagt lærislaus sunnudagur með lasagna og hvítlauksbrauði!
Og ég er að drekkja sorgum mínum yfir lærisskortinum með bjór!
5. bjórnum á þessu ári (var að klára þann fjórða)!
Bjór er góður en læri ekki síðra!
Lifið heil og eldið LÆRI við fyrsta tækifæri!
Jömm!
Skál!

fimmtudagur, 25. júní 2009

Hann á afmæli í dag....

Hann Guddi minn er sautján ára í dag!
Hann fékk uppáhaldsmorgunmatinn sinn áður en hann fór í vinnuna. Amrískar pönnsur, eggjahræru, beikon, bakaðar baunir og ferskan appelsínusafa.
Í kvöld koma svo systkini hans og mágkonur í kaffi ásamt guðsyninum sem er krúnurakaður töffari ;)
Mér tókst í fyrsta skipti síðan í Bárðardal að baka hina fullkomnu marengstertu!!! Kornfleksmarengsinn með súkkulaðikreminu sem Guddi elskar meira en allt annað. Heila skúffu útgáfu, tvöfalda!
Svo er uppáhaldssmurbrauðsterta fjölskyldumeðlima, plain með baunasalati, gúrku, tómötum og eggjum!
Æðislegur dagur og það rignir og rignir.... þoka, súld og kuldi!
En ég hefi fregnað af því að hitabylgja sé væntanleg í Júlí.
Ætla samt ekki að fjárfesta í sólarvörn 20 fyrr en hún er skollin á!
Til hamingju með daginn elsku fallegi drengurinn minn. Það er leitun að jafn yndislegri manneskju og þér :)
Sól í sinni þótt rigni úti ;)

miðvikudagur, 24. júní 2009

Sólarkreppa

Ég veit vel að það er kreppa.

En sólin er farin að taka óþarflega mikinn þátt í henni.

Hlutfall sólardaga hefur lækkað í svipuðu hlutfalli og kaupmáttur heimilanna og það einmitt sumarið sem vér Íslendingar höfum hvað mesta þörf fyrir sólina til að létta okkur lund.

Lúxus sumarfrísins hjá mér eru hjólreiðatúrar, gönguferðir og frítt í sund sem starfsmaður Reykjavíkurborgar. Það er bara svo kalt að gigtin drepur mig ef ég fer út þessa dagana og nýji sólarstóllinn minn sem er stærsta fjárfesting sumarsins liggur ískaldur og ónotaður úti á lóð.

Ég fer með vettlinga og húfu á hjólið!

4 ískaldir dagar í röð og það eru mestar líkur á að amk. næstu 4 verði jafn kaldir.

Möguleiki á smá glætu á morgun og það gæti glitt í sólina augnablik í dag. En það er bara möguleiki, engin vissa!

Max 13 stiga hiti alla daga en það eru sko 19 stig að lágmarki á Akureyrir dag eftir dag!

Ég enda með því að fara á puttanum norður til ömmu þegar Guddi minn fer til Þýskalands!

Það er of dýrt að keyra norður á þessum síðustu og verstu!

Það er líka eiginlega of dýrt að þrífa! Brúsinn af Cilit Bang kostar yfir þúsund kall !

Hreingerningar eru mér dýrt hobbí í sólarleysinu!

Sól óskast snarlega!


p.s. ég kíkti á veður.is just about now og þessi mögulegi sólardagur á morgun, fimmtudag 25. júní, 17 ára afmælisdag Gudda míns ER NÚNA ORÐINN ALSKÝJAÐUR RIGNINGARDAGUR!
Had to be to good to be true!

Fargan!

sunnudagur, 14. júní 2009

Sól og haglél!

Jájá!
vaknaði við sólina á glugganum og flýtti mér á fætur.
Ætlaði út í sólbað!
Þá kom rigning og svo haglél!
Sólbaðið bíður betri tíma!
Framhaldsskólakennarinn og vegagerðarmaðurinn komu í sushi og skyrtertu í gærkvöldi og við spiluðum kana fram eftir nóttu.
Ég fékk rosalega góð spil hvað eftir annað en féll trekk í trekk vegna algjörs getuleysis bifvélavirkjans og vegagerðarmannsins.
Framhaldsskólakennarinn vann vegna frammistöðuskorts karlpeningsins og ég endaði réttu megin við mínusinn en bara rétt svo ;)
Hefni harma minna næst!
Frábært kvöld og ég ætla að eiga frábæran dag þrátt fyrir regn og haglél!

laugardagur, 13. júní 2009

Heimilisfræðinördinn á tíu ára starfsafmæli!

Í gær var síðasti vinnudagurinn fyrir sumarfrí.

Ég hef nú starfað í 10 ár við skólann minn og fékk afhentan RISAstóran blómvönd með ræðuhöldum og tilheyrandi.

Ég byrjaði að kenna heimilisfræði fyrir algjöra tilviljun. Hef alltaf haft mikinn áhuga á matargerð og kennarastarfið hafði líka alltaf heillað mig.

Ég átti eftir rúman mánuð af uppsagnarfresti mínum sem deildarstjóri hjá Félagsþjónustunni og sá auglýst eftir heimilisfræðikennara í Rimaskóla.

"þetta er örugglega rosa skemmtilegt" hugsaði ég með mér og hringdi.

Þeir réðu mig óséða í gegnum síma og ég hef verið þarna síðan.

OG! það hefur verið eins skemmtilegt og ég hélt í upphafi. Nemendur í heimilisfræði í skólanum MÍNUM eru nefnilega alveg ótrúlegir snillingar, hver á sinn hátt.

Ég byrjaði sem leiðbeinandi en í dag er ég með full kennararéttindi og síðasta vetur var ég með SEX kennaranema sem allir eru að læra að verða heimilisfræðinördar ;)


Mér finnst það ætti að gera svona "hall of fame" flís í gólfið á heimilisfræðistofunni þegar ég verð borin þaðan út á börum á hundraðasta árinu!

"hér kenndi heimilisfræðinördinn fram á síðasta dag"


Það má líka hengja upp mynd af mér úfinni í slettóttum fötum með trésleif í hendi því andi minn verður í þessari kennslustofu eins lengi og hún stendur!

úúúúúúúíííííííí og sleifarnar hristast í næstefstu skúffunni til hægri!

mánudagur, 1. júní 2009

Klæjar í nefið!

í síðustu viku fékk ég svaðalegt kvef. Í einn sólarhring og svo var það farið.
En nefið, ó nefið mitt!
Það er flagnað, bólgið og aumt eftir látlausar snýtingar og nú klæjar mig svo í nefið að ef mark er takandi á þeirri kellingabók að kláði í nefi þýði að maður eigi eftir að reiðast illa þá verð ég ofboðslega mikið reið í dag!
Veit bara ekki við hvern ég ætti að verða svona reið því þrátt fyrir bólgið nef er ég í mega góðu skapi, sólin skín og ég borðaði óviðjafnanlega góða skyrtertu í morgunmat með Gudda mínum ;)