fimmtudagur, 24. janúar 2008

2 tönnslur !

Ömmustrákur er kominn frá Kanarí með tvær snjóhvítar tönnslur í neðri góm.
Hann er svo sætur að ég þarf hreinlega að stilla mig um að narta í hann!

Hann er sko mesta krútt í heimi og alltaf jafn kátur og sáttur við lífið og tilveruna :)

miðvikudagur, 23. janúar 2008

Til hamingju með afmælið!



Strípó á afmæli í dag!!!
Þversumman af aldrei hennar getur aldrei orðið hærri en hún er í dag nema verða tveggja stafa tala :)

Hversu gömul er hún þá??


Ég er orðlaus af undrun yfir þessari furðulegu stærðfræðigáfu sem skyndilega lét á sér kræla.


TIL HAMINGJU STRÍPÓ!!


Og sko, hann Keli er kysstur kvölds og morgna núna svo þetta er allt að koma.
Svona lítur hann út í dag!

þriðjudagur, 22. janúar 2008

Köttur og fugladans

Í gærkvöldi eldaði ég franska lauksúpu með beikoni og kartöflum.
Strípó, froskurinn, homminn og verkalýðsfrömuðurinn komu að borða.
Eftir matinn spiluðum við nýja partíspilið.
Hláturinn lengir lífið og með reglulegum spilasamkomum verðum við öll eldgömul.

Það vakti gífurlegan hlátur þegar strípó átti að teikna "að hengja bakara fyrir smið" og teiknaði kött með sprautu!
Sonur hennar ætlar að spila í liði með annarri familíu næst! "sáuði köttinn"!!!

Verkalýðsfrömuðurin brilleraði svo þegar hann átti að humma fugladansinn með Ómari Ragnarsyni.
Viðstaddir góluðu úr hlátri.

Þetta verður endurtekið við fyrsta tækifæri!

mánudagur, 21. janúar 2008

Herra borgarstjórar......

þið komið orðið og farið svo hratt að gamall heimilisfræðinörd á fullt í fangi með að halda því hverjir þið eruð, hverja stundina, í sínum alsheimerveika kolli.
Enda skiptir það ekki svo miklu máli þótt ég muni það ekki, það kemur jú alltaf nýr á morgun!

Það er aldeilis vit í íslenskri höfuðborgarpólitík og eftir höfðinu dansa jú limirnir!

Assgotass vitleysa!

Sleppum kosningunum bara næst. Þær virðast ekki vera annað en sýningar og -uppistandsþurft, óákveðinna. samskiptafatlaðra einstaklinga og gefum alla sjóðina og tilstandið til góðs málefnis!

sunnudagur, 20. janúar 2008

MMmmmmm *sleikjútum*

Við fórum í mat til Gunna frænda og Siggu Snjólaugar í gærkvöldi.
Grillaðir humarhalar í forrétt voru sjúklega góðir og bleikjurétturinn var svo góður að vaknaði í morgun og langaði í hann í morgunmat.

Þegar ég fæ uppskriftina ætla ég að setja hana hérna inn því þetta var gjörsamlega geggjað gott.

Svo var hlustað á tónlist, eða durgurinn og Gunni hlustuðu meðan við Sigga Snjólaug spjölluðum.
það var mikið gaman og ég hlakka til næsta boðs en þá ætlar Gunni að elda sitt víðfræga snitsel sem er víst engu líkt.

Í dag er legið í leti. Baðherbergið er enn óþrifið og pappírarnir í hrúgu og Nissaninn er niðri í bæ en ég er sko enn að lesa tvíburana svo það er allt annað á hold.

Farin aftur undir sæng að lesa ;)

laugardagur, 19. janúar 2008

úbartsviðtal og fleiri skemmtileg rangmæli

Elsti sonur minn sagði alltaf slétt (stétt)og simmet (sinnep) þegar hann var lítill
Doktorsneminn skoðaði myndir af þrettándabrennu Þórs á Akureyri þegar hún var þriggja ára og spurði upprifin um fígúru á einni myndinni "Er þetta Sveppalúður?".
Sá yngsti bað um snuss muss í stað swiss miss og svona frameftir götunum og hann kallaði útvarp, úbart.

Ég er einmitt að fara í úbartsviðtal fyrir barnatímann á rás 1 á eftir.

Reyni að passa mig á rangmælunum samt :)

Annars er ég að lesa. Ligg inni undir teppi á meðan snjónum kyngir niður úti og les Tvíburana eftir Tessa de Loo.
Þetta er heillandi bók. Ég er á blaðsíðu 219 og nýt hverrar síðu, hvers orðs.

Í gærkvöldi komu litla sys og börnin hennar í mat. Við spiluðum nýja partý spilið eftir matinn og það var svakalega gaman.
Börnin hennar kalla mig alltaf "frænku" og ég verð að segja að mér finnst ekkert smá notalegt að heyra "frænka, má ég eða frænka veistu hvað". Þetta er skemmtilegur titill og þau eru uppáhalds frænkan mín og frændur :)

Ég þarf að ganga frá pappírum í möppu og loka þannig árinu 2007 og þrífa baðherbergið en ég held ég lesi samt dálítið lengur.
Það er bara of notalegt til að gera nokkuð annað.

fimmtudagur, 17. janúar 2008

Undarlegur tími

Ég er undarlega djúpt hugsandi.
Um lífið og tilveruna.
Ég hef töluverðar áhyggjur af ýmsu í tilveru minni og mig langar mest til að sofa, vinna og sofa.
Stundum er bölvanlegt að hugsa.

þriðjudagur, 15. janúar 2008

Frábæra fólkið mitt :)

Unglingurinn minn hringdi í mig um helgina að heiman þar sem ég var stödd hjá mojito meisturunum í Costa del Yrsufelli og tilkynnti að hann ætlaði að kaupa sér nýjan magnara.
Ég sagði að við skyldum ræða þetta um helgina.
Við ræddum málin frá ýmsum hliðum.
Ræddum meðal annars um vexti á innlánsreikningum og hvernig hægt er að safna sér fyrir nýjum græjum á einu ári án þess að eyða til þess krónu.
Honum fannst þetta vaxtadæmi það sniðugt að hann hefur frestað þessum innkaupum um ár og ætlar í staðinn að leggja grimmmt inn á sérreikninginn sinn og láta svo vexti ársins borga bæði gítar og magnara.
Hann kynntist nefnilega vaxtagróðanum beint í æð um áramótin þegar innistæðan á sérreikningnum hans óx um nokkra tugi þúsunda!

Doktorsneminn minn náði öllum prófunum og fylgidoktorinn öllum nema einu en var eins stutt frá því og hægt er að vera með 4.5.
Ég veit hún rúllar þessu upp í ágúst.
Þær ræddu við sína menn hjá LÍN og þrátt fyrir þessa snurðu fær fylgidoktorinn 75% námslán svo þær eru í góðum málum þessir dugnaðarforkar.
Sófus hefðarköttur er fluttur að heiman eftir 9 ár en hann flutti sig um bæjarfélag til doktorsnemanna og plumar sig þar fínt!

Yngri stjúpdóttir mín ætlar svo í læknisfræðina næsta sumar svo það verður nóg af doktorum í familíen.

Stóri og tengdadóttirin eru á Kanarí ásamt ömmustrák og lentu í ælupest öll þrjú en eru orðin hress og hafa það vonandi sem allra best í ylnum (amk. ekki snjór og ískuldi eins og hér heima).

Eldri stjúpdóttirin er 25 ára í dag, kúlan hennar er orðin eins og sætur fótbolti og fer stækkandi enda verður fröken Ólafía örugglega kröftug kella þegar hún mætir á svæðið :)

TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ STEFFÝ KRÚTTUBUMBA!

miðvikudagur, 9. janúar 2008

Þagnarbindindi!

Allt er nú til!
Hálsbólgan lagðist á raddböndin, ég er stokkbólgin og helaum, með bjúg á raddböndunum og á samkvæmt læknisráði að STEINÞEGJA næstu fjóra daga svo ég missi ekki röddina til frambúðar!!

Afi vinar míns sagði einu sinni við mig að það væri hlutverk konunnar að halda kjafti og vera sæt. Þannig væru konur fullkomnar!
Ég er sem sagt hin fullkomna kona og ég hef grun um að karldurgurinn sé ekkert eins leiður yfir þessu og hann þykist vera!

Annars er það helst merkilegt í fréttum að Strípalingurinn er hætt að kyssa froska og er yfir sig ástfangin af honum Kela sem breyttist víst í prins við fyrsta koss!


Þetta er Keli áður en Strípó kysstann!

föstudagur, 4. janúar 2008

Skrýtnir skór :)

Í jólafríinu kom homminn í heimsókn ásamt verkalýðsfrömuðinum.
Frömuðurinn fór snemma heim en homminn fór undir morgunn.
Þegar hann mætti var hann í þessum líka fínu blankskóm, stærð 45 og hálft, glansandi með langri mjórri tá.

Daginn eftir rek ég augun í umrædda blankskó í forstofunni og hringdi um hæl í hommann.
"hvernig má það vera að þú ert þar, en skórnir þínir eru hér?"

Homminn kom af fjöllum, rölti fram í forstofu og svo kom skýringin "Það er bara einn skór hjá þér, ég hef farið heim í einum mínum og einum af durginum"

Ég rúllaði um í hláturskasti!

Karldurgurinn notar nebblega 42 EXTRA breiða svo homminn hefur verið eins og L þegar hann fór heim, annar fóturinn á þverveginn og hinn á langveginn!

Flottur!

Nýtt ár

Gleðilegt 2008.

Jólin voru yndisleg þrátt fyrir kvef, hálsbólgu og magaveiki sem enn er að hrjá mig.

Við fengum fullt af góðum gestum og jólaboðið á annan í jólum heppnaðist mjög vel þótt mér tækist með kvefdofinn heilann að brenna baunajafninginn.
Gestirnir (börnin okkar, tengdabörn, barnabörn og tengdamamma) svældu honum í sig og héldu því fram að þau finndu næstum ekkert brunabragð :)
Þetta er í fyrsta skipti í minni búskapartíð sem annað eins og þvílíkt klúður í eldamennsku hefur átt sér stað!

Áramótunum eyddum við eins og vaninn er hjá framhaldsskólakennaranum og vegagerðarmanninum.
Þegar ég mætti fyrst með humarsúpuna mína fyrir sjö árum voru Daníel og Karen (börnin á heimilinu) ekkert mikið spennt. Fengust til að smakka súpuna en hún fékk ekki háa dóma hjá þeim.
Það hefur heldur betur breyst á þessum sjö árum.
Núna stóðu þau systkinin yfir pottinum og smökkuðu non stopping þangað til súpan var borin fram og borðuðu þá bæði tvöfaldan skammt.

Ég er á því að við eigum að bjóða börnunum allt sem á borðum er, fá þau til að prófa og smakka því þannig þroskast bragðlaukarnir best og með tímanum hverfur öll matvendni.

Áramótakalkúnninn stóð undir væntingum að venju og nú hef ég heilt ár til að hlakka til næstu áramóta.

Lifið heil og passið ykkur á flensunni!