laugardagur, 19. janúar 2008

úbartsviðtal og fleiri skemmtileg rangmæli

Elsti sonur minn sagði alltaf slétt (stétt)og simmet (sinnep) þegar hann var lítill
Doktorsneminn skoðaði myndir af þrettándabrennu Þórs á Akureyri þegar hún var þriggja ára og spurði upprifin um fígúru á einni myndinni "Er þetta Sveppalúður?".
Sá yngsti bað um snuss muss í stað swiss miss og svona frameftir götunum og hann kallaði útvarp, úbart.

Ég er einmitt að fara í úbartsviðtal fyrir barnatímann á rás 1 á eftir.

Reyni að passa mig á rangmælunum samt :)

Annars er ég að lesa. Ligg inni undir teppi á meðan snjónum kyngir niður úti og les Tvíburana eftir Tessa de Loo.
Þetta er heillandi bók. Ég er á blaðsíðu 219 og nýt hverrar síðu, hvers orðs.

Í gærkvöldi komu litla sys og börnin hennar í mat. Við spiluðum nýja partý spilið eftir matinn og það var svakalega gaman.
Börnin hennar kalla mig alltaf "frænku" og ég verð að segja að mér finnst ekkert smá notalegt að heyra "frænka, má ég eða frænka veistu hvað". Þetta er skemmtilegur titill og þau eru uppáhalds frænkan mín og frændur :)

Ég þarf að ganga frá pappírum í möppu og loka þannig árinu 2007 og þrífa baðherbergið en ég held ég lesi samt dálítið lengur.
Það er bara of notalegt til að gera nokkuð annað.

Engin ummæli: