föstudagur, 31. júlí 2009

Það er sól!

Það er föstudagur!
Það er sól!
Bifvélavirkinn er búinn að vinna klukkan fjögur!
Það verður grillað í góða veðrinu í kvöld! Svínahnakkinn er að marinerast í Mama Sita´s barbecuesósu!
Ég er í fríi!
Ég er með geggjaðar bækur til að lesa! Náði í 12 stykki á skiptimarkaðnum í gær og er bara búin með eina!
Ég er í brjálæðislega góðu skapi og ætla að njóta dagsins í ræmur!
Farin út!
Lifið heil með bros á vör!

fimmtudagur, 30. júlí 2009

Bæjarferð, bækur og tilveran!

Ég er hálfgerður sveitavargur hérna í Grafarvoginum.
Það þykir til tíðinda ef ég fer út fyrir voginn enda geri ég það eins sjaldan og hægt er og ekki nema eiga brýn uppsöfnuð erindi.
Í dag þarf bifvélavirkinn í miðbæinn í myndatökur svo ég ætla að nota ferðina og sinna erindum.
Brýnum!
Ég er nefnilega búin með allar kiljurnar sem ég fékk á skiptimarkaðnum í Eymundsson og þarf að skipta út aftur.
Sumar voru betri en aðrar og bókin "petit anglaise" sem ég hafði séð einhverja tala um á netinu sem ómótstæðilega olli sérstökum vonbrigðum.
Hún er um konu í París sem lendir í ástarsambandi og skilnaði.
Konan er svo leiðinleg að ég skil ekki hvernig hún komst á séns yfirleitt!
Mæli alls ekki með þessari kellingu, hvorki sem kærustu né höfundi!

Auðnin eftir Yrsu var hinsvegar fín og ýmsir aðrir krimmar sem ég sporðrenndi á dagparti.

Skyggður máni eftir Seabold fannst mér hinsvegar full þunglyndisleg lýsing á eymdarlegri móður/dótturflækju þar sem dóttir hefur eytt ævinni í bilað samband við móður sína og endar ævina föst í sömu flækju!

Þoli ekki þegar fólk er getulaust um að taka stjórn á eigin lífi þrátt fyrir erfiða og bilaða foreldra og brotna barnæsku!
Það kemur sá tími í lífi allra að hafa val um að móta sitt eigið líf eða eyða því áfram í fársjúkt fjölskyldusamband sem aldrei skilar neinni vellíðan.
Svolítið eins og hjá alkólista sem ákveður að slíta vonlausu og niðurbrjótandi sambandi sínu við flöskuna!
Það er ekkert auðvelt en það er hægt!

laugardagur, 25. júlí 2009

Ruslatunnur og rómans ;)

Doktorinn var hjá mér í gærkvöldi og við horfðum á "The Notebook".
Hefur lengi verið á plani að horfa á hana saman en okkur tókst ekki að finna tíma fyrr.
Yndisleg mynd og við snöktum báðar örlítið.


Bifvélavirkinn er búinn að lofa að segja mér sögur af okkur ef ég gleymi öllu í ellinni.
Sagan byrjar á ruslatunnunum hérna úti!
Svo að ef sagan virkar ekki þá mun ég líklega halda að hann sé ruslakall hverfisins!

sunnudagur, 19. júlí 2009

Unglingar eru líka krútt!

Framhaldsskólakennarinn, vegagerðarmaðurinn og 2 yngstu afkvæmi þeirra voru hjá okkur í gær.


Við elduðum saman kebab bollur á teini borin fram í pítubrauðum með jógúrtsósu, chilisósu og grænmeti.


Við borðuðum úti í garði því veðrið var svo gott. Reyndar var farið að kólna töluvert þegar við borðuðum svo framhaldsskólakennarinn fékk magnaða gæsahúð og leit út eins og krókódíll í lok máltíðar.


Orðsnillingurinn og gullstelpan eru einhver þau yndislegustu börn sem ég þekki.
Ég og mínir hafa eytt áramótunum með þessum vinum mínum síðustu 10 árin eða svo.

Síðustu áramótum eyddu þau reyndar í Bandaríkjunum á heimaslóðum framhaldsskólakennarans.

Undir borðum spurði Orðsnillingurinn hvort það væri ekki öruggt að við myndum halda áfram með áramótasiðinn núna og bætti svo við alveg innilega skelfdur "erum við nokkuð búin að eyðileggja áramótin með þessu"???
Þetta er að eiga alvöru fjölskyldu!

Ég elska þessa fjölskyldu, einstakt hjartalag þeirra, bjartsýni, hlýjuna og ómælda jákvæðnina sem fylgir þeim alltaf!

Og mun alltaf gera því þau eru jú fjölskyldan mín!

laugardagur, 18. júlí 2009

Homeblest!

Við bifvélavirkinn vorum að rabba saman snemma í morgun.

"vei, það er sól í dag líka" sagði ég ánægð með tilveruna og benti út um gluggann þar sem sólin skein af ákafa!

"sko, þú ert orðin svakaleg" sagði hann og horfði einkennilega á mig. " Í gær varstu nánast jöfn allstaðar en núna ertu eiginlega eins og *hik* HOMEBLEST"!!!

Ég sprakk úr hlátri!

Það er samt nokkuð til í þessu, undir handleggjunum er ég nánast hvít en ofan á eru þeir dökkrauðbrúnir!

Ég er núna að reyna að finna út hvernig ég get synt, hjólað og legið í sólbaði með handleggina öfuga svo ég geti orðið eins og sagt er um homeblest "best báðum megin"!

föstudagur, 17. júlí 2009

Letikast!

Ég er í algjöru letikasti!
Alskýjað svo ég hangi inni, þvælist um á netinu, les, blaðra í símann og er bara rosalega dugleg við að gera ekki neitt!
Enda kannski bara gott að það er ekki sól og sund á dagskránni í dag því ég er ansi vel grilluð eftir gærdaginn!
Varð arfahneyksluð í gær þegar framhaldsskólakennarinn lýsti því yfir á fjórða klukkutímanum í Álftaneslaug að hún væri búin að fá nóg og farin upp úr!
ÉG var sko ekki tilbúin að yfirgefa sundlaugina og sólina þótt ég væri eldrauð og bökuð eins og örlítið ofbakað brauð í ofni!
Læknaneminn minn er að koma í mat í kvöld og við ætlum að kúra okkur í sófanum og horfa á "The Notebook". Hlakka mikið til að fá sætu og kláru stelpuna mína til mín og gefa henni grimmiti að eta!

fimmtudagur, 16. júlí 2009

Og sólin skín ;)

Endalaust sólskin og ég er alsæl!
Fékk pakka frá USA í vikunni frá móður framhaldsskólakennarans og er very well dressed now!
Eyddi gærdeginum í sundi með framhaldsskólakennaranum og grísunum hennar, gullstelpunni og orðsnillingnum.
Ég og gullstelpan syntum í gríð og erg og bárum svo saman ferðafjöldann í pottinum.
"ég synti sko 16 ferðir og ætla 14 í viðbót" tilkynnti ég gullstelpunni hróðug!
"voru það 16 framogtilbakaferðir eða 16 FRAMMMMMMMM OG TILBAAAAAAAAAKA ferðir?" spurði orðsnillingurinn.
Málið er sko að framogtilbakaferðir eru einfaldar ferðir eða 16 my style og FRAMMMMMMM OG TILBAAAAAAAAKA ferðir eru tvöfaldar ferðir eða 8 my style!
Munurinn liggur í framburðinum og þetta fannst orðsnillingnum nú frekar aulalegt að við gætum ekki skilið án skýringa!
Einstaklega skemmtilegur þessi ungi maður!
Hann tilkynnti mér svo að hann væri alveg til í að koma heim til mín eftir sund í BRUNCH!
Ég held hann hafi töluverða matarást á mér enda ákvað hann ungur að ég ætti að elda matinn í fermingunni og ENGINN ANNAR!
Sem ég að sjálfsögðu gerði fyrir þennan ágæta vin minn sem ég hef þekkt frá því hann kúrði nýfæddur í fangi móður sinnar þegar ég mætti til hennar í fyrsta sinn, óboðin (ja nema af dóttur minni) í kaffi því hún "reykti"!!
Við erum samt báðar í því að hætta að reykja ;)
Og, sólin skín í dag líka og á dagskrá er önnur sundferð og nú í nýju laugina á Álftanesi!

mánudagur, 13. júlí 2009

A taste of Europe og geggjuð sólarhelgi!

Fékk netpóst á föstudag um að verkefnið "A taste of Europe" hefði fengið samþykki frá Alþjóðaskrifstofunni um styrk.
Næstu 2 árin verð ég þá töluvert á flakki.
Englendingar, hollendingar, ítalir og Íslendingarnir eru samþykktir, við bíðum eftir Írlandi og færeyingum en það mun örugglega ganga.
Eftir að þau 2 ár sem þessi lönd starfa að matar-menningar-sögu projektinu eru liðin ætla ég að sækja um styrk til Evrópusambandsins og vonandi halda verkefninu áfram. Það fer eftir hversu vel gengur að keyra prógrammið þessi 2 ár sem komið er samþykki fyrir.
Bara spennandi enda var ég svo heppin að fá algjörlega frábæra einstaklinga með mér í þetta!

Helgin var mögnuð! Sólin skein non stop og við bifvélavirkinn eyddum laugardeginum í sólbaði í garðinum með nágrönnunum. Húsfélagið bauð upp á grillaða hammara um miðjan daginn og um kvöldið horfðum við svo á Borat og City of Amber.

Sunnudagurinn tók á móti okkur með steikjandi sól klukkan SJÖ um morguninn!!
Magga samkennari og bróðir hennar komu í sólbað, strípalingurinn, Jón Þór töffarinn litli og foreldrar hans líka og þau tóku með sér vöfflujárn og allar græjur!
Garðurinn var fullur af dýnum, sólstólum, fótboltum, hálfnöktum kroppum, KÓNGULÓM, púðum og FJÖRI fram undir kvöldmat!!!

Jón Þór var á fullu í fótbolta við bifvélavirkjann sem var berfættur og ákvað að hann vildi prófa þetta tásustripl líka. Reif sig úr skónum og sat svo á rassinum í grasinu með fæturnar lyftar hátt upp. Lagði ekki í að setja litlu tásurnar á grasið. Bifvélavirkinn ætlaði að aðstoða hann við að yfirstíga þessa feimni við grasi og lyfti honum upp til að labba en Jón Þór hélt fótunum beint út í loftið til að sleppa við grasið. Það var alveg kostulegt að fylgjast með þessu!
Í enda dagsins var hann samt farinn að hlaupa um berfættur, smá óöruggur fyrst en svo vappaði hann um á fullu á tásunum!

Við stofugluggan er RISAVAXIN krosskönguló í vefnum sínum. Hún er næstum á stærð við HÚSBÍL!!! Jón Þór labbar að köngulónni, stendur íhugandi og starir á hana smá stund og segir svo hárri ákveðinni röddu "halló!"
það er alveg spurning um að skíra þetta nýja gæludýr heimilisins, vinkonu Jóns Þórs!
Ótrúlega gaman!

vísdómsorð dagsins komu frá Strípó! "ég skil ekki hvers vegna kona vill breytast í karlmann með LÍTIÐ TYPPI"!!!!!!!!!!!!!

Og omg! Guddi litli sem ALDREI tímir að kaupa sér föt sendi sms, "keypti mér skyrtu á 79 evrur" Skýring fylgdi í kjölfarið "hún er frá Lacoste"!
Hjálp!!! þjóðverjar eru að gera drenginn minn að merkjafríki af dýrustu gerð!!!

þriðjudagur, 7. júlí 2009

Til hamingju með afmælið!

Rétt fyrir fimm í morgun hringdi vekjaraklukkan hans Gudda litla í gríð og erg.
Ég staulaðist fram og slökkti á garganinu.
Held að Guddi hafi ekki vaknað við hana þótt hún sé hávær.
Þegar ég skreið aftur upp í rúm fékk ég hlýtt og innilegt bjarnarfaðmlag frá mjög svefndrukknum bifvélavirkja sem með ákaflega hlýrri og ástríkri röddu sagði "Til hamingju með afmælið ástin mín"!!
Við fengum bæði svæsið hláturskast!
Hann æddi svo hálfa leið á fætur þangað til hann áttaði sig á því að klukkan var bara FIMM!
Mín beið svo sms þegar ég vaknaði rúmlega átta.
"ég er að fara í morgunmat" Frá Gudda the Deutchsman ;)

sunnudagur, 5. júlí 2009

Einn sólardagur á viku er skammturinn sunnanlands í sumar!

Ég fylgist mjög vel með www.vedur.is þessa dagana.
Í gær átti að byrja að sjást til sólar á þriðjudaginn og sólin átti svo að stigmagnast fram eftir viku og veðrið að halda áfram í sama dúr fram yfir helgina. Hitinn á landinu átti að vera mestur hérna sunnanlands og ég hlakkaði þvílík ósköp til!
En í dag hefur þetta breyst. Það á að sjást til sólar stundarkorn á morgun og svo á að rigna fram að helgi og jafnvel lengur!
Hverslags eiginlega rugl er þetta!
Ég fór í smá aðgerð upp á Akranes. Á spítala sem er mannlegur starfsandi á og frábærlega komið fram við sjúklinga. Það var svo hringt í mig daginn eftir til að fylgjast með því að ég væri nú ekkert að vera með nein læti.
Ég má ekki fara í sund og ekki rope yoga svo göngutúrar, léttir hjólatúrar og sólböð eru það eina sem ég má stunda af viti og ég ætlaði þvílíkt að nota mér þessa spáðu sólardaga til að baka mig í nýja sólbekknum mínum!
Sólbaðsdagar hafa verið fjórir alls síðan ég byrjaði í sumarfríinu! FJÓRIR!!! og ég hef sko verið í fríi síðan 13. júní!!! Það gerir rétt rúmlega einn sólardagur á viku!
Argasta!