Bæjarferð, bækur og tilveran!
Ég er hálfgerður sveitavargur hérna í Grafarvoginum.
Það þykir til tíðinda ef ég fer út fyrir voginn enda geri ég það eins sjaldan og hægt er og ekki nema eiga brýn uppsöfnuð erindi.
Í dag þarf bifvélavirkinn í miðbæinn í myndatökur svo ég ætla að nota ferðina og sinna erindum.
Brýnum!
Ég er nefnilega búin með allar kiljurnar sem ég fékk á skiptimarkaðnum í Eymundsson og þarf að skipta út aftur.
Sumar voru betri en aðrar og bókin "petit anglaise" sem ég hafði séð einhverja tala um á netinu sem ómótstæðilega olli sérstökum vonbrigðum.
Hún er um konu í París sem lendir í ástarsambandi og skilnaði.
Konan er svo leiðinleg að ég skil ekki hvernig hún komst á séns yfirleitt!
Mæli alls ekki með þessari kellingu, hvorki sem kærustu né höfundi!
Auðnin eftir Yrsu var hinsvegar fín og ýmsir aðrir krimmar sem ég sporðrenndi á dagparti.
Skyggður máni eftir Seabold fannst mér hinsvegar full þunglyndisleg lýsing á eymdarlegri móður/dótturflækju þar sem dóttir hefur eytt ævinni í bilað samband við móður sína og endar ævina föst í sömu flækju!
Þoli ekki þegar fólk er getulaust um að taka stjórn á eigin lífi þrátt fyrir erfiða og bilaða foreldra og brotna barnæsku!
Það kemur sá tími í lífi allra að hafa val um að móta sitt eigið líf eða eyða því áfram í fársjúkt fjölskyldusamband sem aldrei skilar neinni vellíðan.
Svolítið eins og hjá alkólista sem ákveður að slíta vonlausu og niðurbrjótandi sambandi sínu við flöskuna!
Það er ekkert auðvelt en það er hægt!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli