fimmtudagur, 29. nóvember 2007

Ólafía er yndisleg :)

Meine deutche kaffimaskine er yndisleg.


Hún hefur hlotið nafnið Ólafía í höfuðið á karldurginum/heimilisþrifameistaranum og er nú annað mikilvægasta heimilistækið hér. Ég fékk líka þá dellu í hausinn 11 ára gömul að sannfæra alla um að ég héti í raun líka Ólafía. Á umslaginu með einkunnablaðinu mínu það árið stóð allt mitt langa nafn og svo Ólafía í endann föður mínum til undrunar :)


Blessunin hún Ólafía spýtti út úr sér án mikillar fyrirhafnar þessum yndislega tvöfalda latte með heslihnetusýrópi og nú er ég mikið að spá í að gleypa í mig eitt sett af verkjalyfjum og gera svo eitthvað.


Ég veit reyndar ekki hvað ég nákvæmlega ætti að gera.


Það þarf að endurvinna fataskápinn, hann er einfaldlega fullur af fötum sem pössuðu fyrir einhverjum árum svo að dulurnar sem passa núna eru í hrúgu á kommóðunni.


Á morgnana gref ég svo eitthvað úr þessari hrúgu en fataskápurinn er óopnaður flesta daga.


Ég veit líka að ég á nokkur pör af vettlingum sem leynast í hrúgunum í forstofunni og að það þarf að hafa vettlinga tiltæka í kuldanum.


Ég hef ákveðið að halla mér undir sæng meðan verkjatöflurnar taka til starfa og horfa á einn þátt af law and order criminal intent og velta því fyrir mér hvað ég geri á meðan.


Kannski er ég líka alls ekki nógu hress til að standa í svona stórræðum og ætti frekar að klára að mála strenginn í flókaskóm og heitum sloppi :) með latte í einari og pensil í hinari :)

miðvikudagur, 28. nóvember 2007

Það vottar fyrir jólafiðringi

Finn fyrir fyrstu einkennum af jólafiðringi.
Hann hefur haldið sig óvenjulega vel til friðs þetta árið.
Spítalaferðir draga greinilega úr framkvæmdagleðinni sem venjulega hellist yfir mig á þessum árstíma.

Jólabókin er samt komin fram og eitthvað búið að punkta niður.
Það er græja sem allir hefðu gott og gaman af að koma sér upp.
Þetta er mjög falleg bók sem var keypt í London 2006 af mér og karldurgnum. Hann notar ekki bókina en er einlægur aðdáandi hennar.
Í bókina er svo allt sem tengist jólum og jólaundirbúningi skrifað.
Forveri þessarar bókar inniheldur öll jól mín frá árinu 1996 en nýja bókin var tekin í notkun í fyrra.
Þarna kemur fram hvað ég hef gefið öllum í jólagjafir, hverjum ég sendi kort, hvenær ég sendi kortin, hvenær ég gerði hvað og hvernig.
Matseðill allra hátíðadaganna og hvað var drukkið með kemur líka fram, allt sem var bakað, hversu mikið af því og svo framvegis.
Daginn sem jólatréð er skreytt er svo nokkurs konar dagbókarfærsla sem lýsir ástandi fjölskyldu og heimilis.
Á aðfangadag er svo skráð inn hver fær hvað frá hverjum.

Hér eru heilmiklir jólasiðir og serimóníur og nú er doktorsneminn komin á hvolf í eigin undirbúning og ég verð að segja að hún og fylgidoktorinn eru einstaklega jólasinnaðar og efnilegar.

Einn af siðunum er að spila jólastrumpadiskinn í botni og dansa um alla íbúðina eins og brjáluð. Það er algjörlega kominn tími á þennan atburð núna og nú bíð ég eftir því að doktorinn komi heim að hoppa!

Kæri doktor! Komdu heim!

Ég er aðeins að losna frá rúminu og sé að ég get alveg tekið létt hopp og sungið með! Það er jú ekki hægt að byrja að jólast fyrr en hin árlega spilun og strumpadans er búið!


Ég bíð!

þriðjudagur, 27. nóvember 2007

Rúmliggjandi rúmlaus kona!

Ég er rúmliggjandi.
Eldsnemma í morgun hringdi maður og sagðist vera að koma að sækja dýnurnar í rúminu til uppherðingar hjá RB rúm.
Rúmið mitt er nú dýnulaust og ég flutt í stofuna með sængina mína.´

Ég er því sófaliggjandi.

Það er ekki hollt að vera svona rúm/sófa liggjandi.
Ég er dottin í botnlausar sjálfsbetrunar mannskilnings pælingar.
Og ekki læt ég sjálfa mig duga heldur tek vinina fyrir í röðum.
Hringi svo og upplýsi þá um allskyns sjálfsbetrunar, björgunarstarfsemi sem er algjörlega lífsnauðynlegt að byrja á ekki síðar en strax.

Hef komist að einni niðurstöðu.

Karldurgurinn minn er besti durgur í heimi og ég gæti ekki hugsað mér að treysta annarri manneskju jafn djúpt og mikið fyrir sjálfri mér og honum.
Ég fæ tár og þarf að draga andann djúpt þegar ég hugsa um hversu mögnuð manneskja hann er.
Takk.

miðvikudagur, 21. nóvember 2007

Silfursmjörkúpa!

Mig langar sjúklega í silfursmjörkúlu til að bera smjör á borð í.
Þegar ég er með "fín" matarboð nota ég hvítt stell, silfrað og glitrandi borðskraut, silfurdiska undir vínflöskur, dropavara úr silfri, hnífapör úr fínasta stáli (eða silfri í eigu karldurgsins) og fallega silfraða og glitrandi servétturhingi, silfur "cheeky tongue" kúlu með skeið fyrir Maldon salt og bráðvantar geggjaða silfurkúpu eða kúlu.
Helst alveg eins og tengdamamma á!
Hennar er úr silfurpletti á fótum, kúpa yfir og maður rennir ofan af henni til hálfs og þá er glerbakki undir smjör undir.
Brjálæðislega flott en fæst hvergi!
Ef einhver sem ég þekki finnur eitthvað svona, bilað fallegt, plain, eða skreytt silfur eða stál ílát á fótum eða án fóta, gamaldags eða framúrstefnulegt ílát til að bera fram smjör í MUNIÐI ÞÁ EFTIR MÉR!
Ég borga gripinn að sjálfsögðu!

þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Ég er næstum orðlaus!

Í 24 stundum í dag á blaðsíðu 44 spjallar Kobrún Bergþórsdóttir um þáttinn "ertu skarpari en skólakrakki".
Þar segir hún "Skólaseta er til lítils enda eru skólar bara geymslustaðir".
Jæja já.
Hún segir líka: "Það sem skiptir máli lærir maður af bókum sem hægt er að lesa heima og af góðu fólki".
Og hvar eiga þá börnin að læra að lesa til að geta svo lesið allar þessar góðu bækur sem þau eiga að læra um lífið af?

Kolbrún hefði kannski orðið hið fullkomna foreldri og séð um að kenna börnunum sínum að lesa, reikna og skrifa. Æft þau í lestri og valið handa þeim góðar bækur, kennt þeim ljóð og sögur, hjálpað þeim að æfa sig í skrift og teikningu. Hún hefði eflaust orðið gífurlega flink í að kenna þeim heimilisfræði.
Vafalaust hefði hún sleppt því að setja sín börn í geymsluna ógurlegu þar sem heimtufrekir og dónalegir kennarar hanga yfir geymslubörnum án þess að hafa nein inngrip í uppeldi og uppfræðslu þeirra.

Hvað ætli hún eigi mörg börn?

mánudagur, 19. nóvember 2007

Amma gamla í jólaföndri :)

Ég er að föndra.
Jólaföndur.
Fyrir 24 árum síðan teiknaði ég 24 jólasveina og málaði þá á langan strigastreng.
Saumaði 24 rauða hringi í og síðan hefur þessi strengur ávallt verið hengdur upp aðfaranótt 1. des.

Svo kemur einn pakki á hverri nóttu á strenginn þangað til jólin koma og strengurinn er þá fullhlaðinn af litlum jólapökkum.
Á annan í jólum er svo pökkunum skipt á milli barnanna á heimilinu (sem öll eru nú vaxin upp úr strengnum) og þau dunda við að opna.
Þótt börnin séu orðin stór er strengurinn ennþá partur af aðventunni og jólaundirbúningnum. Núorðið fyllist hann af jólahappaþrennum :)

Þessi jólahefð hefur spilað stórt hlutverk í aðventunni og við eigum öll hlýjar og skemmtilegar minningar frá morgunstundum þegar gáð var með miklum spenningi hvernig pakki hefði komið á strenginn um nóttina.

Einhvern tíma spurði eitthvert afkvæmanna mig með grunsemdaraugnaráði hvort það væri ég sem setti pakkana á strenginn (þau voru nefnilega sannfærð um það frá unga aldri að pakkarnir kæmu ofan úr fjöllum). Ég sagði að ég sæi bara um að hengja þá upp en þeir væru í raun frá Grýlu sem notaði sér ferðir sveinanna til að skila þeim til mín.
Þetta var ekki rætt dýpra eða frekar sem er gott því jólasveinarnir koma jú ekki til byggða fyrr en 11.des (eða er það 12.?) og hvernig í veröldinni ætti þá Grýla skinnið að geta sent pakka með þeim 1.des? Yndislegt hvað krakkar sætta sig við einfaldar skýringar.

Nú er kominn ömmustrákur sem þarf endilega að upplifa og verða hlutur af þessari hefð.
En striginn sem er í boði í dag er mun grófari og amman ekki eins flink í höndunum og fyrir 24 árum síðan.
Ég ætla samt að halda áfram. Í versta falli mála ég bara annan ef mér lýst ekki á strenginn þegar málun lýkur.

Hann Jón Þór ofurkrútt getur ekki alist upp strenglaus í desember, við faðir hans erum algjörlega sammála um það!!

Það er líka ágætt að eyða þessum heilsuleysisdögum í svona dútl.
Hér er svo upprunalegi strengurinn sem ég er að reyna að kópera með eintómum þumalfingrum :)

sunnudagur, 18. nóvember 2007

Helgrýtis heilsuleysi :(

Þessi helgi er að verða búin.
Ég er búin að eyða henni í rúminu og sófanum til skiptis fyrir utan stutta búðarferð í hávaðaroki í gær og smá kíkk til tengdó í dag.
Tengdamóðir mín er skelegg og kröftug kella sem hefur skoðanir.
Hún er ákaflega pólitísk og aðdáandi Villa góða eins og hún kallar hann.
Hana dreymir um að hreyfa við fólki með bloggsíðu en tölvukunnáttuna vantar til að hún komi blogginu í gang.
Ég benti henni á að finna sér framhaldsskólanema sem ritara og skella bloggi í gang.
Ég hef fulla trú á að valkyrjan drífi í þessu og mun linka á bloggið hennar um leið og það kemst í gang.
Þar á eftir að verða heitt í kolunum :)
Ég hinsvegar er skriðin aftur upp í rúm í félagsskap örvæntingarfullra húsmæðra á meðan karldurgurinn skúrar gólfin.
Hann er nefnilega "húsfaðirinn" á þessu heimili.
Ég er kokkurinn og folaldasnitselið þarf ekki að fara á pönnuna fyrr en eftir 20 mínútur :)
Lifið heil og haldið í heilsuna!

fimmtudagur, 15. nóvember 2007

Meine deutsche kaffemaschine

Í gærkvöldi skreið ég heim með hita, beinverki, hausverk og almennan pirring.
Í fanginu var ég með risavaxna þýskumælandi kaffivél, alsjálvirka og 345 bls. leiðbeiningabækling á öllum þeim sjö tungumálum sem maskínan átti að tala.

Hún var ófáanleg til að tala við mig annað en þýsku.

Eftir langa mæðu, langan lestur, mikið bras, japl, jaml og fuður tókst mér að kenna maskínunni að brúka ensku.

Svo kom ég henni í gang og bjó til endalausa latte með froðutoppi og heslihnetusýrópi.

Ég var fimm sinnum næstum sest hágrátandi á gólfið í öllum mínum slappleika meðan á þýskumælandi stríðinu stóð.

Karldurgurinn birtist akkúrat þegar stríðinu við kaffimaskínuna lauk með sigri mínum.

Ég var með hitasóttargljáa í kinnum, móð, ör, pirruð með grátstafinn í kverkunum. Samt bjó ég til handa honum þetta dýrindis Davinci kaffi og viðbrögðin voru "hva? er ekkert munstur í froðunni"!

Ég missti mig og hélt yfir honum þvílíka ræðu að strípalingurinn sem sat og sötraði úr sínum bolla á móti honum lýsti því yfir að hún eiginlega vorkenndi honum! (hún kvartaði líka yfir munsturleysi og sagðist vilja fá hjarta!!!)
Ég var að því komin að henda vélinn í þau!

Vanþakklátu kvikindi!

Ekki reyndu þau í eina sekúndu að tjónka við vélina, það var ég, litla VEIKA gula hænan sem gerði það. Tengdi, las, sló inn, las aftur, sló aftur inn, las, kveikti, slökkti, gufaði, las meira, slökkti, kveikti, ýtti á fleiri takka, fylllti á vatn og baunahólf og kom svo öllu í gang, froðaði, mældi og ýtti á takka og færði þessum freku dekurdýrum nýlagað ilmandi froðukaffi með sýrópi!

Næst ætla ég að gefa þeim hitaveituvatn með kaffikorg!
It serves them right!

miðvikudagur, 7. nóvember 2007

London er æði :)

Kom heim frá London á sunnudagseftirmiðdag.
Þetta var frábær lúxusferð.
Við sváfu, löbbuðum, borðuðum og versluðum smotterí.
Hittum skemmtilega félagsmálafrömuði frá Sheffield, áhugaverða leigubílstjóra og fórum út að borða með David Hasselhoff og Cindy Crawford.
Þrír veitingstaðir urðu fyrir valinu í þessari ferð.
Þeir eru allir þannig að það þarf að bóka borð með löngum fyrirvara og mánuði fyrir brottför pöntuðum við borð.
Allir þessir staðir stóðu undir væntingum og meira til.

Fifteen með einfaldan ítalskan Jamie Oliver útfærðan mat var gjörsamlega frábær.

El Gauchos á Piccadilly er ótrúlega glæsilega innréttaður staður og steikurnar bráðna upp í manni. Topp staður fyrir ekta El Toro aðdáendur :)

Síðast en ekki síst fórum við skrifstofustjórinn á stað sem af mörgum er talinn einn af bestu veitingastöðum í heimi, Nobu. Það var himnesk upplifun :)
Það er líka sérstaklega gaman að skoða bílana sem eru í röðum fyrir utan staðinn og hótelið en Nobu er á Metropolitan hótelinu og Hilton hótelið er svo næst við hliðina.

MMmmmm, ég er orðin svöng af að rifja þetta upp.

Á næstu dögum ætla ég að blogga um þessa veitingastaði í máli og myndum :)