mánudagur, 19. nóvember 2007

Amma gamla í jólaföndri :)

Ég er að föndra.
Jólaföndur.
Fyrir 24 árum síðan teiknaði ég 24 jólasveina og málaði þá á langan strigastreng.
Saumaði 24 rauða hringi í og síðan hefur þessi strengur ávallt verið hengdur upp aðfaranótt 1. des.

Svo kemur einn pakki á hverri nóttu á strenginn þangað til jólin koma og strengurinn er þá fullhlaðinn af litlum jólapökkum.
Á annan í jólum er svo pökkunum skipt á milli barnanna á heimilinu (sem öll eru nú vaxin upp úr strengnum) og þau dunda við að opna.
Þótt börnin séu orðin stór er strengurinn ennþá partur af aðventunni og jólaundirbúningnum. Núorðið fyllist hann af jólahappaþrennum :)

Þessi jólahefð hefur spilað stórt hlutverk í aðventunni og við eigum öll hlýjar og skemmtilegar minningar frá morgunstundum þegar gáð var með miklum spenningi hvernig pakki hefði komið á strenginn um nóttina.

Einhvern tíma spurði eitthvert afkvæmanna mig með grunsemdaraugnaráði hvort það væri ég sem setti pakkana á strenginn (þau voru nefnilega sannfærð um það frá unga aldri að pakkarnir kæmu ofan úr fjöllum). Ég sagði að ég sæi bara um að hengja þá upp en þeir væru í raun frá Grýlu sem notaði sér ferðir sveinanna til að skila þeim til mín.
Þetta var ekki rætt dýpra eða frekar sem er gott því jólasveinarnir koma jú ekki til byggða fyrr en 11.des (eða er það 12.?) og hvernig í veröldinni ætti þá Grýla skinnið að geta sent pakka með þeim 1.des? Yndislegt hvað krakkar sætta sig við einfaldar skýringar.

Nú er kominn ömmustrákur sem þarf endilega að upplifa og verða hlutur af þessari hefð.
En striginn sem er í boði í dag er mun grófari og amman ekki eins flink í höndunum og fyrir 24 árum síðan.
Ég ætla samt að halda áfram. Í versta falli mála ég bara annan ef mér lýst ekki á strenginn þegar málun lýkur.

Hann Jón Þór ofurkrútt getur ekki alist upp strenglaus í desember, við faðir hans erum algjörlega sammála um það!!

Það er líka ágætt að eyða þessum heilsuleysisdögum í svona dútl.
Hér er svo upprunalegi strengurinn sem ég er að reyna að kópera með eintómum þumalfingrum :)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er viss um að það rætist úr þessi hjá þér! Það er æðislegt að passa svona upp á hefðina, það gefur jólunum svo mikinn lit og líf.

Heimilisfræðinördinn sagði...

:) Takk, þinn strengur verður svo framleiddur næst :)