þriðjudagur, 25. mars 2008

Páskafríið búið

Nú er páskafríið að baki og í morgun var starfsdagur.
Ég gafst upp rétt fyrir hádegi. Var með þvílíka Fríðu frænku verki að ég meikaði hvorki að sitja né standa.
Skjálfandi af kulda og helslöpp skreið ég upp í sófann með þykka sæng og 2 íbúfen innbyrðis.
Steinsofnaði yfir criminal minds þætti og svaf eins og steinn til hálfsex.
Ég er ennþá þreytt og slöpp en frænkan er á undanhaldi með sitt vesen!
Hells Kitchen er að byrja og ég ætla sko að fylgjast með þessari seríu sem er víst major skemmtilegt efni fyrir heimónörd eins og mig!
Við Guddi steiktum afang af nautalund frá páskadegi í kvöldmatinn og þúsund bjartar sólir barst mér í pósti í dag svo ég er í góðum málum undir sæng á eftir :9
Lifið heil og njótið hvers dags eins og hann sé sá síðasti!

sunnudagur, 23. mars 2008

Gleðilega páska

Ég vaknaði á undan afkvæmum og faldi páskaeggin samkvæmt pöntun þessara hálffullorðnu unga minn sem neita að vaxa úr grasi og halda hefðum lifandi út í hið óendanlega.
Annað eggið var í leðurpullu sem situr á stofugólfinu og hitt var inni í eldhúsviftunni.
Guddi litli fann eggið sitt þegar hann tók sér smá pásu eftir rúmlega hálftíma leit. Hann kom hoppandi inn í stofu og tók svo sitt hefðbundna tveggja fóta stökk upp á pulluna. Það skrjáfaði í pokanum þegar hann kramdi eggið sem var mitt í fyllingunni á pullunni.
Doktorsneminn var áður búin að strjúka og klappa pulluna en hafði yfirsést eggið.
Leið nú og beið og eftir drykklanga stund og ítarlega rannsókn á öllum vistarverum heimilisins fann doktorinn eggið í viftunni.
Við erum svo búin að liggja uppi í sófa og horfa á Death at a funeral í nýju græjunum, éta páskaegg og grænmeti með ídýfu síðan.
Þetta eru náttfatapáskar en í kvöld ætlum við að borða humar í forrétt, nautalundir í aðalrétt og heita súkkulaðiköku með hvítum súkkulaðibitum í eftirrétt. Spila svo hættuspilið og horfa svo í myrkrinu á The orphanage sem litla systir setti í nýja flakkarann fyrir mig í gær :)
Lifið heil og ekki éta yfir ykkur af páskaeggjum!

laugardagur, 22. mars 2008

Hættulegar tröppur og hættulega fyndið hættuspil!

Lokakvöld blúshátíðar var frábært eins og hin kvöldin tvö. Andrea Gylfa var æði, böndin frábær og Deitra Farr algjörlega yndisleg!

Á eftir var ég bílstjóri fyrir vinina og haldið var í partý til blúsdrottningarinnar þar sem ég og aðrir þurftu að standa í áhættuatriðum til að komast inn.
Blúsdrottingin og spúsi hennar eru að skipta um tröppur og það var bara einn hár og riðandi trékassi í stað tröppu. Kassinn náði sirka miðja vegu upp að hurðinni sem var hátt uppi á húsvegg og eftir að gestum tókst að koma sér upp á kassann tók styrk hendi trommuleikara við og hífði gesti restina ef leiðinni.
Ef engin önnur leið hefði verið út hefðu húsráðendur setið uppi með mig (hefði aldrei þorað sömu leið niður aftur) framyfir páska en það var svo hægt að fara niður í kjallara og komast þar tiltölulega hættulaust út. Ferlega sætt og krúttlegt hús ;)
Framhaldsskólakennarinn var víst í partínu framundir morgun í miklu fjöri en ég kom mér heim í bælið um þrjú leitið.

Í morgun fórum við Guddi litli svo í bílferð á skagann að heimsækja litlu systir með flakkara í farteskinu sem hún er að hlaða á endalausu magni af skemmtiefni fyrir okkur. Við erum í góðum málum með svona tæknifræðing í familíunni ;)

Kvöldið er svo búið að vera stórkostlegt svo ekki sé meira sagt.
Við Guddi minn fórum í mat til Kiddu jesúbarns, litla jesústráksins hennar og Stóra Palla og Strípó og sonur, hennar kvennaljóminn mættu líka. Ég eldaði villisveppasúpu og brauð með trufflukeim, Jesúbarnið gerði hamborgarhrygg með brjálæðislega góðri sósu og Strípó gerði hrikalega góðan toblerone ís. Við átum á okkur gat og byrjuðum svo að spila hættuspilið rétt fyrir átta.

Þvílíkt fjör og þvílík læti! Nú halda allir nágrannar Jesúbarnsins að hún sé dottin í það með stæl. Öskrin í okkur heyrðust örugglega um allt hverfi! Ég NEITA að detta í það AFTUR og HVENÆR KEMST ÉG EIGINLEGA Á VOG!" var hrópað hástöfum reglulega í spilinu. "ÞEGI ÞÚ, ÞÚ ERT SVO FULLUR AÐ ÞÚ VEIST EKKERT HVAÐ ÞÚ ERT AÐ GERA!"

Sumir svindluðu meira en aðrir og bundust svívirðilegum vináttuböndum í spilinu og lögðu allt undir til að hjálpa hverju öðrum og lúskra á hinum (jafnvel eigin fjölskyldumeðlimum) og aðrir FÖLDU stigin sín og höfðu svo sigur fyrir rest!

Hlátursköstin voru ófá og við Jesúbarnið grétum hreinlega af hlátri þegar litla jeúsbarnið lenti á "smáratorgsreitnum" og spurði í sakleysi sínu, "hvað get ég gert á þessum reit?" og Kvennaljóminn hrópaði svarið í æsingi, þrisvar í röð á bilaðri fart án þess að draga andann á milli "þúgeturkeypthvaðsemþúviltþúgeturkeypthvaðsemþúviltþúgeturkeypthvaðsemþúvilt!!!"
-Þótt litlu hafi munað að sum afkvæmi skiptu um heimilisföng og mæður við önnur afkvæmi, vegna svívirðilegra bandalaga út fyrir fjölskyldur, fóru öll börn á réttan stað rétt undir miðnætti eftir að hin lúmska Kidda Jesúbarn hafði náð að sigra með því að fela eina gullstigaplötu undir persónuspjaldinu sínu! Það tók nefnilega enginn eftir því fyrr en það var of seint að hún væri næstum komin með 25 stigin sem þarf til að sigra!

Þetta verður endurtekið og þá verða nánari gætur hafðar á útsmogna Jesúbarninu og gullplötunum hennar!

fimmtudagur, 20. mars 2008

Lífið í nýju ljósi :)

Nú er ég búin að fara á tvö blúskvöld í röð.
EDRÚ!
Og komin að þeirri niðurstöðu að það er meira gaman að upplifa tilveruna bláedrú en í glasi :)
Framhaldsskólakennarinn segir að ég sé ofsalega hress og skemmtileg edrú en það sé samt pínulítið undarlegt að vera með mig í bílstjórahlutverkinu í biluðu stuði.
Enda ekki skrítið. Þetta er í fyrsta skipti í 14 ár sem hún upplifir það!
Kvöldið byrjað á Nordic All Stars bandinu og það var meira en lítið líf og fjör. KK, Östlund, Jolly Jumper, Big Moe og Christo, maðurinn hennar Deitru Farr spiluðu og spiluðu og hoppuðu og hlógu og sungu og voru hrikalega öflugir og litríkir.
KK hoppaði á borðum og sami fílingur og ríkti kvöldið áður hjá Magic Slim var uppvakinn. GEEEEÐVEIKT band!
Svo komu bláir skuggar sem eru ofsalega færir en full mikið djassaðir fyrir minn smekk.
Svo komu aðalstjörnur kvöldsins the Yardbirds.
Góðir, kröftugir og ég sá fyrir mér að prentsmiðurinn og prentsmiðjan hefðu misst sig þarna en ég hefði, þótt þeir væru góðir, viljað fá annan skammt af Magic Slim.
Hinsvegar var ákveðið í gærkvöldi að við framhaldsskólakennarinn vinnum að því ásamt blúsmeistaranum að setja upp hópferð blúsfélagsins á Chicago blúshátíðina 2009 og nú hef ég sko eitthvað að hlakka til því ég fíla algjörlega í tætlur svona rythma, sálarhristandi Chicagostyleblues!

Ég mæli svo eindregið með þessum diski með Magic Slim and the teardrops ef þið þurfið að rífa upp sálartetrið og dilla ykkur í smá fíling! Fjör, fjör og brjálaður fílingur!

Svo er bara meiri blús í kvöld og ég hef trú á að það verði ekki slæmt þar sem Deitra Farr og Andrea eru báðar að syngja og þær eru snillingar ;)

miðvikudagur, 19. mars 2008

Brjáluð gleði!

Eftir setningu blúshátíðar í dag þar sem Ásgeir trommuleikari var valinn blúsmaður ársins spilaði Margrét Guðrúnardóttir og bandið hans pabba. Svaka söngkona og ekki síðri lagahöfundur.
Svo tróðu Jolly Jumper og Big Moe upp og það var alveg sérkapítuli af norrænum blús í ótrúlega skemmtilegri og lifandi útfærslu. Frábærir sprellarar og þvílíkt skemmtilegir tónlistarmenn.
Svo kom að toppi kvöldsins sem varð svo magnaður að það sló allt út sem ég hef upplifað í tónlist.
Ég var gjörsamlega búin að gleyma umhverfinu og brosti eins og alsæll fáráðlingur, bláedrú og dillaði mér í hreinu algleymi!
Þvílíkt band og þvílík endasessjón!!!
Magic Slim and the Teardrops eru svo skemmtilegt og litríkt band að dauður maður myndi brosa og dilla sér.
Í restina voru Deitra Farr (syngjandi), Jolly jumper (munnharpa og syngjandi líka), Dóri Braga (gítar og syngjandi líka) komin öll á sviðið með Magic og tárdropunum og þau tóku lokaatriði sem skilaði mér skælbrosandi og alsælli heim og nú er annar diskurinn með þeim í tækinu og ég brosi ennþá út að eyrum!
Ég hlakka ekkert smá til á morgun en helst vildi ég bara fá sömu flytjendur aftur. Ef næsta kvöld toppar þetta þá ét ég hattinn minn!
Thats´s blues my friends!

þriðjudagur, 18. mars 2008

Iðnaðarmaður í óskilum!

Við Guddi minn erum að þrífa!
Sængurnar hanga úti í viðringu með öllum koddum og þvottavélin gengur á yfirsnúningi.
Ég vona að það sé ekki einhver forspá um bilun í henni að í mig hringdi maður áðan og sagðist vera að koma að laga þvottavélina!
Ég sagði að hún væri nú í fullum gangi, óbiluð og yrði það vonandi áfram.
Sá sem sendi mér þennan viðgerðarmann ætti frekar að senda mér pípara til að koma handklæðaofninum á baðinu upp. Ofninn hefur beðið í kassanum eftir því að komast á vegginn í 2 ár en ég skal koma honum í notkun fyrir sumarið svo ég geti hengt upp bikiní og sundboli eftir endalaus sólböð og sundferðir sem bíða mín í sól og sumaryl!
Áfram með smjörið, við Guddi verðum að halda áfram páskaþrifunum því ég er að fara á setningu blúshátíðar klukkan fimm og þá verður allt að vera spikk og span!
Njótið lífsins!

Elskan hún amma mín

Amma mín kom til okkar í dag og litli ömmustrákurinn minn, langa-langömmustrákurinn hennar kom í heimsókn með foreldrum sínum.
Þau voru svo sæt saman að það var ótrúlegt.
Amma mín er nefnilega ein sú allra fallegasta kona sem ég þekki og líka ein sú besta og skemmtilegasta.
Við horfðum svo saman á Idolið undir teppi í sófanum áður en ég keyrði hana heim til sonar síns þar sem hún gisti í nótt.
Það er nefnilega slegist um hana ömmu þegar hún heimsækir höfuðborgina.
Ammar orðin ansi flink með gemsann sinn og alveg farin að átta sig á að hann er að hringja þegar hringt er í hana.......................... svona um það bil í tíundu hringingu.
Þá byrjar hún að leita í töskunni sinni.
Leita að gleraugnahulstrinu sem hún geymir símann í.
DJÚPU, aflöngu gleraugnahulstri!
Lexía dagsins er, ef þið hringið í hana ömmu mína þá verðið þið að minnsta kosti að láta hringja út einu sinni.
Og haldið símanum svolítið langt frá eyranu því amma svarar HÁTT og snjallt!
;)

laugardagur, 15. mars 2008

Páskafrí :)

Ég er komin í páskafrí í 10 daga!
Var að senda frá mér fullan bíl af tertum og nýbökuðu brauði í fermingu hjá frænda mínum og get nú notið frídaganna að fullu.
Kokkakeppni Rimaskóla er að baki og gekk rosalega vel. Krakkarnir voru frábærir og allir sem komu að keppninni gerðu daginn ógleymanlegan. Dómararnir mínir, þeir Egill, Jón Snorra og Daníel sem fulltrúi Argentínu Steikhúss, ásamt fulltrúum Rimaskóla, Gunna kokki og Helga stjóra, eiga þakkir skilið fyrir að fylgja mér svona ár eftir ár.
Þegar ég las umræðu um nesti barna í skólann áðan á www.er.is poppaði upp minnig um yngsta soninn frá upphafi skólagöngu hans. Það var ekki mötuneyti í skólanum svo krakkarnir þurftu að taka með sér nesti bæði fyrir morgunkaffið og hádegið.
Einn daginn segir kennarinn börnunum að taka upp nestið og spyr svo "eru ekki allir með tvö nesti?" svona til að árétta að nú eigi að nota morgunnestið.
Allir rétta upp hönd nema sonur minn sem situr með sorgarsvip á andlitinu.
Henni fannst nú ekki líklegt að pilturinn væri ekki sæmilega vel útbúinn og spurði hann hvort hann væri ekki með tvö nesti.
"NEI", var svarið, "ég er bara með eitt RISASTÓRT!"
Njótið lífsins!

föstudagur, 7. mars 2008

Hjartalaga rass EÐA KÚLULAGA!

Við strípó eigum okkur uppáhalds umræðuefni þessa dagana.
"þegar við verðum mjóar"
Hún er reyndar tiltölulega mjó mega skutla eins og allir lesendur pappírsfjölmiðla vita en ég á töluvert lengra í land.
EN! Strípó heldur því fram að hún sé með flottari rass en ég "mjóar báðar í samanburðinum" og ég er staðföst í því að minn sé flottari "þegar við verðum báðar rosalega mjóar sem er alveg bak við næsta horn".
Það tilkynnist hér með að eftir 1.5 ár verður rassfegurðarsamkeppni í Borgunum og durgurinn og froskurinn fá hvorugur að sitja í dómarasæti.
Elsti sonurinn hefur hinsvegar lýst því yfir að hann sé mótttækilegur fyrir mútum svo nú einbeiti ég mér að því að vinna hans atkvæði með fádæma dekri og dekstri næsta 1.5 árið!
Strípó er með hjartalaga rass en ég með kúlurass (þegar við erum mjóar altso)
RassPass!

þriðjudagur, 4. mars 2008

Jeg er lidt doven i hovedet!

Ég man aldrei eftir einni einustu auglýsingu í sjónvarpi eða dagblaði þegar Gallup hringir í mig.
Eða yfirleitt.

Ég heyri aldrei textann í lögum í útvarpinu nema orð og orð á stangli.
Ekki nema sitja með hrukkað ennið og einbeita mér algjörlega að því að hlusta.
Þetta þekkja vinir mínir og afkvæmi sem finnst ferlega fyndið hvernig ég kann oftast fyrstu línuna í öllum lögum sem mér finnst skemmtileg og svo ekki orð meir.

Ég get ekki hlustað á veðurfréttir í útvarpinu. Einbeitingin dettur út eftir 0.5 og ég er engu nær um veðrið þótt ég hafi kveikt á útvarpi gagngert til að taka veðrið.

Ég man hinsvegar það sem ég les.
Ef ég man eftir að lesa það.

Ég er gjörsamlega glötuð í að muna afmælisdaga annarra en barnanna minna.

Ég gleymdi að mæta í starfsmannaviðtal í morgun.
Fór að heiman vitandi að ég ætti að mæta í mitt árlega viðtal og gleymdi því á leiðinni í vinnuna.
Sat svo í vinnustofu kennara í tölvu og vann og vann.
Skrifstofustjórinn leitað að mér en ég var víst bak við vegg að ljósrita nýsmíðað, ægilega flott verkefni þegar hún þaut um vinnustofuna að leita. Síminn minn (sem hún hringdi í) var í töskunni á kaffistofunni svo allir aðrir en ég heyrðu prúðuleikaralagið mitt hljóma LENGI!

Fór í kaffi kl.11:00 og sá þá "one missed call" og tautaði, "hva? er einhver í skólanum að reyna að ná í mig, hvaða vitleysa er nú það". Þetta datt ekki inn hjá mér fyrr en ég mætti skrifstofusstjóranum sem spurði mig hvar ég væri eiginlega búin að vera.
Spurning hvort ég haldi vinnunni, sauðurinn sem ég er ;)

Ég man hinsvegar uppskriftir fram í rauðan dauðann í smáatriðum, grömmum og teskeiðum og flest annað sem tengist mat, veitingahúsum, matseðlum og næringafræði.
ÁT!

sunnudagur, 2. mars 2008

Sonur minn þjónninn og vökustaurinn!


Ömmustrákur gisti hjá okkur á föstudagskvöldið.
Ég söng hann í svefn með "dvel ég í draumahöll" úr dýrunum í Hálsaskóli klukkan hálftvö um nóttina. Ruggaði vagninum á fullu og söng HÁTT!!!
Ég held að nágrannarnir hafi haldið að ég væri að syngja í partí en ekki að svæfa lítinn pilt.
Hann svaf svo mjög óvært alla nóttina og það var ansi rangeygð amma sem afhenti hann móður sinni um tíu leitið. Á myndinni er mesta krútt í heimi að borða graut hjá ömmu.

Ég datt svo upp í rúm og svaf þangað til tími var kominn að mæta í Borgaskóla og dekka upp borð fyrir yngsta soninn en bekkurinn hans var með fjáröflunarkvöldverð til að safna fyrir vorferðinni sinni.
Vegagerðarmaðurinn, framhaldsskólakennarinn og börnin þeirra tvö komu með okkur durgnum í matinn og unglingurinn þjónaði okkur til borðs.


Þetta var frábærlega vel heppnað kvöld og ungmennin í 10.EG Borgaskóla stóðu sig frábærlega.


Eitt foreldrasettið eru bæði kokkar og sáu um að útvega hráefni og elda matinn sem var stórkostlega góður og svakalega vel útilátinn.


Eftir mat var fjölskyldustund heima og kepptu strákar á móti stelpum í Trivial. Stelpurnar unnu að sjálfsögðu og það þótt Daníel hinn ungi sýndi fádæma þekkingu í ótrúlegustu spurningum og karlarnir hefðu varla roð við honum í viskunni.
Ótrúlega vel upplýstur ungur maður og sem dæmi má nefna að hann vissi að Tony Blair vildi hitta páfa við lok embættis síns því hann vildi verða kaþólskur.
Þetta vissi enginn nema Daníel og hann er í 7. bekk í grunnskóla takk fyrir!
Á sunnudaginn bakað ég svo perutertuna hennar mömmu milli þess sem ég lagði mig og hélt mig svo í gamaldags sunnudagsstíl með því að gera lærisneiðar í raspi (geri það einu sinni á ári).
Nú á að leggjast undir feld og horfa á hvorki meira né minna en tvær dvd myndir. No reservations og licence to wed.
Sénsinn að ég hafi af að halda mér vakandi yfir þeim báðum.

Árbæjarfamilían mín, takk innilega fyrir yndislega "fjölskyldusamveru" eins og Daníel félagi minn kallaði laugardaginn okkar.