Ömmustrákur gisti hjá okkur á föstudagskvöldið.
Ég söng hann í svefn með "dvel ég í draumahöll" úr dýrunum í Hálsaskóli klukkan hálftvö um nóttina. Ruggaði vagninum á fullu og söng HÁTT!!!
Ég held að nágrannarnir hafi haldið að ég væri að syngja í partí en ekki að svæfa lítinn pilt.
Hann svaf svo mjög óvært alla nóttina og það var ansi rangeygð amma sem afhenti hann móður sinni um tíu leitið. Á myndinni er mesta krútt í heimi að borða graut hjá ömmu.
Ég datt svo upp í rúm og svaf þangað til tími var kominn að mæta í Borgaskóla og dekka upp borð fyrir yngsta soninn en bekkurinn hans var með fjáröflunarkvöldverð til að safna fyrir vorferðinni sinni.
Vegagerðarmaðurinn, framhaldsskólakennarinn og börnin þeirra tvö komu með okkur durgnum í matinn og unglingurinn þjónaði okkur til borðs.
Þetta var frábærlega vel heppnað kvöld og ungmennin í 10.EG Borgaskóla stóðu sig frábærlega.
Eitt foreldrasettið eru bæði kokkar og sáu um að útvega hráefni og elda matinn sem var stórkostlega góður og svakalega vel útilátinn.
Eftir mat var fjölskyldustund heima og kepptu strákar á móti stelpum í Trivial. Stelpurnar unnu að sjálfsögðu og það þótt Daníel hinn ungi sýndi fádæma þekkingu í ótrúlegustu spurningum og karlarnir hefðu varla roð við honum í viskunni.
Ótrúlega vel upplýstur ungur maður og sem dæmi má nefna að hann vissi að Tony Blair vildi hitta páfa við lok embættis síns því hann vildi verða kaþólskur.
Þetta vissi enginn nema Daníel og hann er í 7. bekk í grunnskóla takk fyrir!
Á sunnudaginn bakað ég svo perutertuna hennar mömmu milli þess sem ég lagði mig og hélt mig svo í gamaldags sunnudagsstíl með því að gera lærisneiðar í raspi (geri það einu sinni á ári).
Nú á að leggjast undir feld og horfa á hvorki meira né minna en tvær dvd myndir. No reservations og licence to wed.
Sénsinn að ég hafi af að halda mér vakandi yfir þeim báðum.
Árbæjarfamilían mín, takk innilega fyrir yndislega "fjölskyldusamveru" eins og Daníel félagi minn kallaði laugardaginn okkar.