sunnudagur, 23. mars 2008

Gleðilega páska

Ég vaknaði á undan afkvæmum og faldi páskaeggin samkvæmt pöntun þessara hálffullorðnu unga minn sem neita að vaxa úr grasi og halda hefðum lifandi út í hið óendanlega.
Annað eggið var í leðurpullu sem situr á stofugólfinu og hitt var inni í eldhúsviftunni.
Guddi litli fann eggið sitt þegar hann tók sér smá pásu eftir rúmlega hálftíma leit. Hann kom hoppandi inn í stofu og tók svo sitt hefðbundna tveggja fóta stökk upp á pulluna. Það skrjáfaði í pokanum þegar hann kramdi eggið sem var mitt í fyllingunni á pullunni.
Doktorsneminn var áður búin að strjúka og klappa pulluna en hafði yfirsést eggið.
Leið nú og beið og eftir drykklanga stund og ítarlega rannsókn á öllum vistarverum heimilisins fann doktorinn eggið í viftunni.
Við erum svo búin að liggja uppi í sófa og horfa á Death at a funeral í nýju græjunum, éta páskaegg og grænmeti með ídýfu síðan.
Þetta eru náttfatapáskar en í kvöld ætlum við að borða humar í forrétt, nautalundir í aðalrétt og heita súkkulaðiköku með hvítum súkkulaðibitum í eftirrétt. Spila svo hættuspilið og horfa svo í myrkrinu á The orphanage sem litla systir setti í nýja flakkarann fyrir mig í gær :)
Lifið heil og ekki éta yfir ykkur af páskaeggjum!

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gleðikona í háska! Aldei að vita nema maður kíki í náttfatapartíið í kvöld eða á morgun:D

Strípó

Heimilisfræðinördinn sagði...

LOL!
Endilega, the Orphanage er náttúrulega tær snilld af skelfingu og lamandi ótta!