mánudagur, 24. desember 2007

Gleðileg jól :)


Gleðileg jól

Þorláksmessa par excellence :)

Þvílík rósemdar og notalegheita Þorláksmessa.
Vöknuðum um ellefu, stjáklað fram að horfa á nýskreytta jólatréð sem var reyndar ekki full skreytt fyrr en elsti sonurinn mætti upp úr hádegi til að tylla ástralska englinum á tréð. Þá var verkið fullkomnað.

Skruppum til góðra nágranna sem hafa það fyrir sið að taka á móti gestum og öðrum með nýbökuðum pönnukökum og brýna hnífa gestanna. Alveg meiri háttar :)
Á viðkomandi heimili er stærsta jólatré sem ég hef nokkurn tíma séð og jólaljósaseríur sem snúast í hringi!!

KVöldið endaði á því að sonurinn og tengdadóttirin, ömmustrákurinn, frænkan, tengdó og homminn, verkalýðsfrömuðurinn og strípalingurinn komu í jólaglögg og kvöldið var einfaldlega frábært!!

Durgurinn var í verslunarferð síðdegis og fram á kvöld. KOM heim með Maldon salt og ananas hringi sem vantaði og dró svo óforsvarendis fram hákarlskrukkuu af besta hákarli upp úr pokanum.

Ég og séra Jón vorum aldeilis ánægð!

Jólaknús!

laugardagur, 22. desember 2007

Algjör sæla að vera til :)

Ég, karldurgurinn, yngsti sonurinn, vegagerðarmaðurinn og fjölbrautarskólakennarinn fórum á blues tónleika í kvöld.
það var brjálæðislega gaman :)
Björgvin Gísla var í þvílíkum fíling á sviðinu og Dóri, Gummi P., Ásgeir og Sigurjón voru snilldin ein svo ekki sé minnst á KK og við skemmtum okkur þvílíkt vel.

Á miðjum tónleikum upplifið ég algjöra alsælutilfinningu. Elsti sonur minn hringdi þegar við vorum að leggja af stað í þvílíkum jólafíling, dóttirin var alsæl á leið heim í jólafrí og sá yngsti með mömmu gömlu á tónleikum.
Ég er gífurlega heppin, börnin mín eru hreint út sagt frábær og ég fæ að njóta þeirra frá a-ö um jólin og við erum öll jafn ánægð og kát með það!

Þetta er algjörlega besti árstíminn og ég vildi að alla daga væru jól!!!

Jibbíkóla!

föstudagur, 21. desember 2007

Brjálaður draugagangur!

Sver það.
Draugarnir á heimilinu ÉTA lakkrístoppa eins og þeir séu í akkorði.
Það er sama hvað ég baka margfaldar uppskriftir af lakkrístoppum, aftur og aftur, þeir hverfa allir.
Heimilismeðlimir setja allir upp sakleysissvip og þykjast varla hafa étið neitt.

Það er því ljóst að í þessu húsi er draugagangur og þessir draugar ÉTA lakkrístoppa!

Hvar fær maður draugheldan lás?

Jömmmmí!

Jólahlaðborð Argentínu er alfarið það allra besta sem ég hef prófað.
Nautacarpaccio með truffluolíu er líklega besta atriðið á borðinu ásamt gæsapatéi og sjávarréttasalatinu.
Hreint út sagt sælgæti.
Heitreyktur kalkúnn var líka ofboðslega góður og líka fyllti kalkúninn og svo fékk ég lambafille beint af grillinu, vel rautt í miðjunni, sem hreinlega bráðnaði upp í mér.
Var svo södd eftir forréttina og lambið að ég sleppti eftirréttunum sem voru þó með afbrigðum girnilegir.
Þjónustan var snilld fyrir utan atriði þegar stúlkan hellti úr 2 flöskum af bjór yfir bakið á einni Nordic skvísunni sem þurfti svo að sitja í blautum stól frameftir kvöldinu en þá var málunum bjargað með borðdúk.

Stelpugreyið var alveg í rusli.

En ég mæli með Argentínu í góðum félagsskap og frábæru jólahlaðborði. Svíkur sko engann!

Og Nordic! Takk kærlega fyrir mig! Það er glæsilega gert að bjóða bæði starfsfólki og mökum upp á allan pakkann frá a-ö!

fimmtudagur, 20. desember 2007

Jólafrí!!

Ég er komin í jólafrí og durgurinn er kominn í frí í kvöld!
Nordic býður svo starfsmönnum og mökum í jólamat á Argentínu í kvöld.
Yndislegt fólk sem maðurinn minn vinnur með svo ég hlakka virkilega til.

En fyrst fer ég í sund með ömmustráknum mínum. Hann er nefnilega í ungbarnasundi og ég fæ að fara með í dag. Það verður bara æðislegt að fá að sjá hann skvampa!

Karldurgurinn átti afmæli í fyrradag og var svo heppinn að fá einn Leppalúða og eina prentsmiðju í heimsókn. Hann var mjög glaður með "afmælispartýið" :)

Í gærkvöldi komu svo tengdadóttir mín og mamma hennar í hornabakstur. Við enduðum á að elda tandoori kjúkling og baka naan brauð og ömmustrákurinn dundaði sér á teppi á meðan og gaf frá sér mikil ánægjuhljóð í hvert sinn sem við ömmurnar og mamma hans litum á hann. Ég verð að segja að það að vera amma er alveg með skemmtilegri hlutverkum sem ég hef verið í um dagana :)

Annaðkvöld er svo stefnan á að mæta á blues tónleika í Öskjuhlíðinni og hafa yngsta soninn með. Hann er mikill gítaristi og við ætlum að ræna honum úr vinnunni svo hann fái að upplifa suma af bestu gítarleikurum landsins live í góðum félagsskap vegagerðarmannsins og fjölbrautarskólakennarans :9

Aðventan er æði!

mánudagur, 17. desember 2007

Við vorum lítil tröll :)

Í gamla daga vorum við systkinin óendanlega hugmyndarík í prakkarastrikum.
Þetta kom mjög auðveldlega til okkar og við vorum eiginlega aldrei að vinna sérstaklega í því að vera óþekk.

Ein jólin vorum við systur skildar eftir einar heima rétt fyrir jólin.
Um leið og við vorum öruggar um að við værum einar klifruðum við með töluverðri fyrirhöfn upp í gatið upp á háa loft.
Þar hafði móðir okkar falið jólagjafirnar, bæði frá sér og þær sem borist höfðu með pósti frá ættingjum víðsvegar um landið.
Við grófu, uppi jólapokana og týndum hverja einustu jólagjöf upp úr pokunum.
Afar varlega losuðum við límbandið og kíktum í pakkana.
Límdum aftur og settum á sinn stað.
Undir það síðasta kom í ljós að það var bara pakki til annarar okkar frá Sigrúnu frænku. Það þótti okkur afar dularfullt. Þetta var minn pakki sem vantaði.
Við vissum vel að Sigrún elskaði okkar báðar jafnt og það gat ekki verið annað en við hefðum báðar fengið pakka.
Eftir leit um alla fyrri felustaði jólapakkanna fundum við loks pakkann innst undir sófanum í stofunni.
Við þorðum ekki að sameina hann við hina ef þetta væri nú gildra sem móðir okkar hefði lagt fyrir okkur.
Á aðfangadagskvöld var svo rúllað um gólfið með dramatískum leiktilburðum og alveg fyrir tilviljun komið auga á "pakka undir sófanum".
Ég held hún móðir okkar hafi aldrei fattað að þessi jól var verið að opna flesta pakka í annað sinn á aðfangadagskvöld :)


Þessi jól var bróðir okkar í föðurhúsum og hann sendi okkur allskyns skrifstofudót í pakka, þar á meðal hlut sem við vissum ekki hvað átti að gera við en skýrðum "gágá".
Í dag veit ég að hluturinn er oftast kallaður tannhvöss tengdamamma og notaður til að losa hefti.

Í dag forðast ég að horfa mikið á jólapakka þar sem ég hef eftir alla þjálfun barnæskunnar allt að því yfirnáttúrulega hæfileika til að fatta hvað er í þeim bara við að horfa á þá og vita hvaðan þeir koma.

föstudagur, 14. desember 2007

fimmtudagur, 13. desember 2007

Tröllapera

Ég er að spá í að vera tröll um jólin.
Spýta á gólfið, sjóða bein í stórum potti og þamba kokkteil.
Or not.
Ætli ég verði ekki bara pent tröll og sjóði hamborgarhrygg :)
Ömmustrákurinn yrði líklega hræddu við mig í tröllaham.

Við fórum með dívuna og yngsta soninn á Tröllaperu hjá leikhópnum Peðinu í kvöld.
Það var hressilega groddalegt stykki um Grýlu, Leppalúða, tröll og jólasveina.
Jólakötturinn var ekki í verkinu.
Pabbi hennar Grýlu sem er búinn að vera í heimsókn í hellinum í 80 ár var nefnilega skilinn eftir einn í 20 mínútur og át Jólaköttinn.
það stóðu í honum hárkúlurnar.

Áður en við fórum á leikritið settum við Dívan krem á og súkkulaðihjúpuðum 250 sörur með aðstoð Durgsins.

Nammm!

Vellíðan

Mér líður einkennilega vel.

Gisti í nótt hjá yndislegri konu og svaf eins og engill í ókunnu rúmi sem er mjög óvanalegt fyrir mig.

Mjóu rúmi meira að segja og ég sem þarf venjulega að leggja undir mig þrjá fjórðu af hjónarúminu.

Ég fékk mjúkan knús á báðar kinnar þegar ég kvaddi í myrkrinu og fann að vera mín þarna hafði skipt máli.

Skipti mig líka máli.

Það er hollt fyrir sálina að hugsa um annað en sjálfan sig af og til.

Eigiði góðan dag, ég veit að minn dagur verður það.


þriðjudagur, 11. desember 2007

Toppar, toppar og meiri toppar!

Bakaði meiri lakkrístoppa í dag.
Þrefalda uppskriftin frá sunnudeginum er búin svo það var ekki seinna vænna.
Bakaði líka 2 nýjar útgáfur af svona marengstoppum.
Í annarri eru daimkúlur, dökkt súkkulaði og Nóa kropp og í hinni eru Freyju rísbitar.
Rísbitarnir eru í öðru sæti á vinsældalistanum á eftir lakkrístoppunum.
Skinkuhornin frá sunnudeginum eru að verða búin og ég er klár í að baka annan sexfaldan skammt á fimmtudaginn.
Ég er nefnilega upptekin í hálfgerðum jólasveinaleik á morgun, annaðkvöld og aðra nótt.
Á fimmtudagskvöldið kemur hún Sunneva stjúpdóttir mín í sörugerð með mér.
Ég er búin að baka 250 sörubotna sem heppnuðust með ólíkindum.
Er búin að baka sörur (sem hétu franskar súkkulaðikökur þá) síðan 1982 og hef ekki sleppt einum einustu jólum og þær hafa aldrei tekist eins vel.
Nýji ofninn og Kitchenaid hrærivélin standa fyrir sínu.

Svo er það gleði dagsins.
Ég fékk hreinlega tár í augun.
Sonur minn, tengdadóttir og ömmustrákur ætla að borða hér með okkur á aðfangadag og opna pakka.

Ég hlakka ósegjanlega til!

mánudagur, 10. desember 2007

Þau munu erfa landið!

Var að fara yfir verkefni í dag.
Nemendur hafa ótrúlegt hugmyndaflug!

Svar við spurningunni "Hverjir eru tveir flokkar vítamína?" var "fitubindindi og vatnsbindindi"!
Svar við "Teldu upp hvað er nauðsynlegt að hafa í huga þegar matvæli eru keypt?" var "brauð, smjör og hnífur"!

Þessi er svo hrein snilld!!

Svar við "Hvað þarf að hafa í huga þegar matarafgangar eru hitaðir upp?" var "að ofninn sé rétt stilltur annars deyja afgangarnir"!!

Ég hló upphátt!

Annar kennari fékk þessi svör í kynfræðsluprófi.
Hvað er sjálfsfróun? "þegar maður frjóvgar sjálfan sig"!
Hvað er umskurður? "þegar kóngurinn er skorinn af"!

sunnudagur, 9. desember 2007

Ilmurinn er indæll :)

Jólafílingurinn er alveg kominn í hæsta gír og allir heimilismeðlimir jafn smitaðir.
Á föstudagskvöldinu var farið á jólahlaðborð og George Michael sýninguna á Broadway með enskukennaranum og vegagerðarmanninum. Maturinn var virkilega góður, showið fínt og Eurovision bandið sem spilaði fyrir dansi á eftir kveikti heldur betur í mannskapnum.
Svo vel að durgurinn og nördinn eru öll lurkum lamin og höltrum um íbúðina í dag.

Ömmustrákurinn kom í pössun eftir fjölskyldubrunch á laugardeginum og var hjá okkur framundir miðnætti. Hann hló og skríkti mestallan tímann og var alveg eins og ljós.
Hann svaf úti í vagni í tæpa tvo tíma og yngsti sonurinn og durgurinn hlupu út á 10 mínútna fresti til að gá hvort hann væri nokkuð frosinn í hel.
Sá yngsti hélt því fram að þetta væri slæm meðferð á barninun, hann myndi sjálfur eftir því hvað honum hefði verið kalt þegar hann sjálfur svaf úti í vagni yfir vetur!

Nú er 6föld uppskrift af fylltum hornum að lyfta sér og ein plata af lakkrístoppum í ofninum, önnur bíður tilbúin og hálffull hrærivélarskál bíður eftir að plötur losni.
Jólarásin heldur uppi fjörinu!

Þetta er bara dásamlegasti árstíminn og ef hægt væri að setja jólafíling/jólagleði á flöskur og selja sem meðferð við þunglyndi yrði ég rík.
Jibbíkóla, ofninn pípir og tími til að skipta um plötur!

fimmtudagur, 6. desember 2007

"Í hvaða stíl eru jólin þín"

Það urgar í mér pirringurinn þegar þessi auglýsing birtist á sjónvarpsskjánum.
Mér finnst jólin bara alls ekki vera tískufyrirbæri sem skipta litum eins og einhver heilalaus tískueltibjálfi!
Jólin eru hefð og breytast ekki frá ári til árs!

Hvað með minningar barnanna um skrýtnu jólakúluna, stjörnuna, jólasveinin sem þau settu ár eftir ár á jólatréð?

Sumir eiga marga umganga af jólaskrauti og eru til skiptis með bleik, svört, fjólublá, hvít eða silfruð jól og ég bara skil þetta ekki!

Heima hjá mér er eitt það skemmtilegasta við jólin að tína upp úr kössunum hluti sem eiga sér sögu og tengingu við heimilismeðlimi í gegnum tíðina.

Ég held líka að börnin mín myndu leggja mig inn til yfirgripsmikillar geðrannsóknar ef ég tæki upp á því einhver jólin að hafa svört eða hvít jól, hvað þá bleik eða fjólublá!

Hjá okkur eru jólin saga og hefðir, sömu hlutirnir ár eftir ár og við erum alltaf jafn hamingjusöm með ósamstæðu, skrautlegu jóladýrgripina sem okkur hafa áskotnast hvaðanæfa af úr heiminum frá vinum og vandamönnum í gegnum tíðina. Í Dísaborgum má ganga að eldgömlum skrauteplum með tannaförum allra barnanna í á jólatrénu á hverju ári. Krukkur með allskyns málningu, eftir nú harðfullorðna einstaklinga, fá líka alltaf heiðursess í mínum hillum yfir hátíðirnar, hvort sem þær eru málaðar í grænu, fjólubláu, rauðu eða hvítu.

Þannig eru jólin fyrir mér. Klassísk, marglit og hefðbundin með smá strumpaívafi!
Hana nÚ!

mánudagur, 3. desember 2007

Jólastrump!



Við tókum jólastrumpið á föstudagskvöldið um leið og doktorinn kom inn úr dyrunum.
Hoppuðum okkur næstum í öngvit en úff hvað það er gaman!

Strumparnir kunna sko að jólast!

Var í brúðkaupsmanagering störfum allan laugardaginn og fram undir miðnætti.
Það tókst ákaflega vel og gestirnir voru alsælir með matinn.
Til hamingju Kolli og Þórhalla.

Jón Þór ömmustrákur kom með foreldrum sínum í mat á sunnudagskvöldið og hann verður krúttlegri með hverjum deginum. Hann er síbrosandi, skríkjandi og brjálæðislega sætur.

Karldurgurinn þreif eldhúsið um helgina og setti upp jólagluggana í eldhúsinu og borðstofunni og eins og venjulega er þetta mega flott hjá honum.

Vinnuvikan er byrjuð og ég er svona að spila mig upp, í þeirri merkingu að safna saman þeim hættuspilum sem ég kom höndum yfir því í spilavali í dag á að spila það spil með stæl.

það styttist í jólin!