mánudagur, 17. desember 2007

Við vorum lítil tröll :)

Í gamla daga vorum við systkinin óendanlega hugmyndarík í prakkarastrikum.
Þetta kom mjög auðveldlega til okkar og við vorum eiginlega aldrei að vinna sérstaklega í því að vera óþekk.

Ein jólin vorum við systur skildar eftir einar heima rétt fyrir jólin.
Um leið og við vorum öruggar um að við værum einar klifruðum við með töluverðri fyrirhöfn upp í gatið upp á háa loft.
Þar hafði móðir okkar falið jólagjafirnar, bæði frá sér og þær sem borist höfðu með pósti frá ættingjum víðsvegar um landið.
Við grófu, uppi jólapokana og týndum hverja einustu jólagjöf upp úr pokunum.
Afar varlega losuðum við límbandið og kíktum í pakkana.
Límdum aftur og settum á sinn stað.
Undir það síðasta kom í ljós að það var bara pakki til annarar okkar frá Sigrúnu frænku. Það þótti okkur afar dularfullt. Þetta var minn pakki sem vantaði.
Við vissum vel að Sigrún elskaði okkar báðar jafnt og það gat ekki verið annað en við hefðum báðar fengið pakka.
Eftir leit um alla fyrri felustaði jólapakkanna fundum við loks pakkann innst undir sófanum í stofunni.
Við þorðum ekki að sameina hann við hina ef þetta væri nú gildra sem móðir okkar hefði lagt fyrir okkur.
Á aðfangadagskvöld var svo rúllað um gólfið með dramatískum leiktilburðum og alveg fyrir tilviljun komið auga á "pakka undir sófanum".
Ég held hún móðir okkar hafi aldrei fattað að þessi jól var verið að opna flesta pakka í annað sinn á aðfangadagskvöld :)


Þessi jól var bróðir okkar í föðurhúsum og hann sendi okkur allskyns skrifstofudót í pakka, þar á meðal hlut sem við vissum ekki hvað átti að gera við en skýrðum "gágá".
Í dag veit ég að hluturinn er oftast kallaður tannhvöss tengdamamma og notaður til að losa hefti.

Í dag forðast ég að horfa mikið á jólapakka þar sem ég hef eftir alla þjálfun barnæskunnar allt að því yfirnáttúrulega hæfileika til að fatta hvað er í þeim bara við að horfa á þá og vita hvaðan þeir koma.

Engin ummæli: