sunnudagur, 9. desember 2007

Ilmurinn er indæll :)

Jólafílingurinn er alveg kominn í hæsta gír og allir heimilismeðlimir jafn smitaðir.
Á föstudagskvöldinu var farið á jólahlaðborð og George Michael sýninguna á Broadway með enskukennaranum og vegagerðarmanninum. Maturinn var virkilega góður, showið fínt og Eurovision bandið sem spilaði fyrir dansi á eftir kveikti heldur betur í mannskapnum.
Svo vel að durgurinn og nördinn eru öll lurkum lamin og höltrum um íbúðina í dag.

Ömmustrákurinn kom í pössun eftir fjölskyldubrunch á laugardeginum og var hjá okkur framundir miðnætti. Hann hló og skríkti mestallan tímann og var alveg eins og ljós.
Hann svaf úti í vagni í tæpa tvo tíma og yngsti sonurinn og durgurinn hlupu út á 10 mínútna fresti til að gá hvort hann væri nokkuð frosinn í hel.
Sá yngsti hélt því fram að þetta væri slæm meðferð á barninun, hann myndi sjálfur eftir því hvað honum hefði verið kalt þegar hann sjálfur svaf úti í vagni yfir vetur!

Nú er 6föld uppskrift af fylltum hornum að lyfta sér og ein plata af lakkrístoppum í ofninum, önnur bíður tilbúin og hálffull hrærivélarskál bíður eftir að plötur losni.
Jólarásin heldur uppi fjörinu!

Þetta er bara dásamlegasti árstíminn og ef hægt væri að setja jólafíling/jólagleði á flöskur og selja sem meðferð við þunglyndi yrði ég rík.
Jibbíkóla, ofninn pípir og tími til að skipta um plötur!

Engin ummæli: