"Í hvaða stíl eru jólin þín"
Það urgar í mér pirringurinn þegar þessi auglýsing birtist á sjónvarpsskjánum.
Mér finnst jólin bara alls ekki vera tískufyrirbæri sem skipta litum eins og einhver heilalaus tískueltibjálfi!
Jólin eru hefð og breytast ekki frá ári til árs!
Hvað með minningar barnanna um skrýtnu jólakúluna, stjörnuna, jólasveinin sem þau settu ár eftir ár á jólatréð?
Sumir eiga marga umganga af jólaskrauti og eru til skiptis með bleik, svört, fjólublá, hvít eða silfruð jól og ég bara skil þetta ekki!
Heima hjá mér er eitt það skemmtilegasta við jólin að tína upp úr kössunum hluti sem eiga sér sögu og tengingu við heimilismeðlimi í gegnum tíðina.
Ég held líka að börnin mín myndu leggja mig inn til yfirgripsmikillar geðrannsóknar ef ég tæki upp á því einhver jólin að hafa svört eða hvít jól, hvað þá bleik eða fjólublá!
Hjá okkur eru jólin saga og hefðir, sömu hlutirnir ár eftir ár og við erum alltaf jafn hamingjusöm með ósamstæðu, skrautlegu jóladýrgripina sem okkur hafa áskotnast hvaðanæfa af úr heiminum frá vinum og vandamönnum í gegnum tíðina. Í Dísaborgum má ganga að eldgömlum skrauteplum með tannaförum allra barnanna í á jólatrénu á hverju ári. Krukkur með allskyns málningu, eftir nú harðfullorðna einstaklinga, fá líka alltaf heiðursess í mínum hillum yfir hátíðirnar, hvort sem þær eru málaðar í grænu, fjólubláu, rauðu eða hvítu.
Þannig eru jólin fyrir mér. Klassísk, marglit og hefðbundin með smá strumpaívafi!
Hana nÚ!
4 ummæli:
Ég er sko alltaf með litaþema!
Það er ómissandi þáttur í jólunum á mínu heimili ... er marglitt ekki annars litaþema?
hin alsjáandi prentsmiðja
Iss, þúrt bara með svona JÓL!!
Ekki innlit/útlit/veggfóðurs, allt í einum lit eða stíl.
Þúrt sko ekta jólakella!
Ég sé þig alltaf fyrir mér umvafða jólaskrauti og kúlum með andlitið ljómandi í brosi og glampa í augunum, þegar líða fer að þessum mesta ljósadýrðartíma ársins. Þúrt yndislegt jólabarn, öfunda þig innilega dúlla.
Kv litlasys.
Knús dúllurassinn minn!
Nú sit ég með ömmustrákinn í sófanum við hliðina á mér í smá hléi frá jólaskrautsuppsetningu.
Skelli líklega í lakkrístoppa ef hann verður áfram svona rólegur.
Ekkert smá gaman að ömmast ;)
Skrifa ummæli