mánudagur, 29. október 2007

Súrar, þreyttar spekúleringar

Í kvöld er ég súr og mjög þreytt.



Það vill brenna við að mánudagar skili mér súrri í dagslok.


Þetta eru lang erfiðustu dagarnir í vinnunni minni og oft velti ég því fyrir mér á mánudagskvöldum að finna mér annað starf.


Oftast gleymi ég þessu svo þegar líður á vikuna því mánudagar eru allra erfiðustu dagarnir í vinnunni. Á þriðjudögum er þetta skárra og svo birtir upp á miðvikudögum og á lengsta og líkamlega erfiðasta deginum, fimmtudegi, er ég brosandi út að eyrum.


Föstudagar eru tiltölulega stuttir og byrja yndislega vel með snilldarlegum fjórðubekkingum svo ég er oftast sátt við starfið mitt yfir helgar.

Svo koma þessir mánudagar!

Ég vildi óska að það væri hægt að stroka mánudaga út úr tilverunni og skjótast beint yfir á þriðjudaga!


Ég ætla að fleygja mér, eins og pandan uppi í horninu gerir, flatri á fleka (minn er hvítur með þykkum púðum).







Brosa út í annað því það er jú þriðjudagur á morgun og ekki mánudagur aftur fyrr en eftir tvær vikur!!!! Vetrarfrí og London alveg að skella yfir!



Always look on the bright side of life *Glott*

miðvikudagur, 24. október 2007

Muffins og hlaupandi heimilisfræðikennari :)

Ég var kölluð fram í sal í gær.
Þar afhenti skólastjórinn mér umslag og blómvönd og hrósaði mér fyrir að vera duglegur heimilisfræðinörd :)
Í umslaginu voru 80 pund inni í bleiku korti sem alsett var girnilegum muffins kökum og "grannur" heimilisfræðikennari hlaupandi á eftir muffinsinu.
Ég sé þennan granna hlaupandi heimilisfræðikennara fyrir mér sem sjálfa mig þegar ég hóf störf í Rimaskóla.

Með árunum hef ég nefnilega náð muffinsinu!

mánudagur, 22. október 2007

Vinnudjamm, pottasull, matarklúbbur, kokkteill og barnfóstrustörf

Jæja, skapvonskan er aðeins að láta undan síga.
Helgin var virkilega lífleg.
Á föstudagskvöldið fór ég með karldurginum í vinnupartí heima hjá öðrum vinnuveitanda hans. Það var matur, virkilega virkilega góður matur, dans, fjör og hraustustu djammararnir enduðu í pottinum.
Durgurinn lenti í pottinum, óvart, í öllum fötum.
Hann var sérlega smart í lánsíþróttafatnaði, berfættur með blautu fötin í poka þegar við fórum heim um hálf tvö leitið.

Daginn eftir þreif sundkappinn heimilið meðan ég fór og fékk nýjar neglur hjá tilvonandi brúði sem ég ætla að veisluskipuleggja fyrir.

Um kvöldið var svo matarklúbbur. Sonurinn, tengdadóttirin, ömmustrákur, tengdaforeldrar sonarins og mágkona eru í þessum klúbbi.
Tengdaforeldrarnir færðu mér gjöf. Ofan á pakkanum trónaði hænuegg sem á var ritað "til hamingju með fjöreggið, kveðja fúleggin.
Ég get ekki sagt hvað var í pakkanum en það er egglaga, blátt með fjarstýringu og það suðar í því! Húmorinn í lagi hjá tengdó sonarins :)

Fordrykkurinn var hinn norðlenski bleiki fíll. Besti kokkteill sem ég hef smakkað.
Það var geggjuð humar/sjávarréttasúpa og chablis í forrétt (tengdóin)
Innbakaður íslenskur lax með peru og eplamauki á salatbeði með matsuhisa dressingu í aðalrétt, rósavín og bolla pinot grigio í aðalrétt (man ekki hvað rósavínið hét) (Nördinn og karldurgurinn)
Og svo var rosalega góð heit súkkulaðikaka með jarðaberjum og rjóma og púrtvíni í eftirrétt (sonurinn og tengdadóttirin)


Ég ætla að setja inn kokkteil uppskriftina því ég hef hvergi séð þennan kokkteil nema á Akureyri á stað sem er löngu horfinn og gleymdur en var einn af fyrstu pizzastöðunum sem opnuðu fyrir norðan. Hann var ekki svona en kókosáfengið sem var notað í upprunalegu útgáfuna er hætt að fást.

rétt rúmlega 1faldur baccardi coconut (fæst í fríhöfninni og hægt að sérpanta í Heiðrúnu)
1 faldur appelsínusafi
1 faldur ananassafi
1/2 faldur rjómi (má nota matreiðslurjóma)
dash grenadine
dash sítrónusafi.
Hellingur af ísmolum og hrista hraustlega.
Þetta bragðast eins og einhver hrikalega góður ís :)

Á sunnudaginn var Strípalingurinn að sinna barnfóstrustörfum og kíkti með "krílið". Ég var svo heppin að eiga stútglas ;)

Svei mér ef ég er ekki bara komin í ágætis skap ;)

Sumir dagar!

Sumir dagar eru svo ömurlegir að maður ætti ekki að fara á fætur.
Ekki að tala við nokkurn lifandi mann.
Ekki svara í símann.
Ekki vera í návist nokkurrar lifandi manneskju.
Þessi dagur er búinn að vera þannig dagur í mínu lífi.
Á svona dögum fara karlmenn (fullorðnir karlmenn ekki börn) svo í pirrurnar á mér að ég myndi lúskra á þeim ef ég byggi ekki yfir óendanlegri sjálfsstjórn.
Ég fer heim á eftir og þarf að feisa einn kk ungling og einn FULLVAXINN karlmann!

Er að spá í að beila á því og fara eitthvert annað!!

Ég treysti ekki sjálfri mér!!

föstudagur, 19. október 2007

Málþing KHÍ

Ég fór á málþingið í gær.
Vilborg Dagbjartsdóttir flutti opnunarræðu. Hún talaði um hvers vegna hún varð kennari og í lokin stóð troðfullur salurinn upp og klappaði henni lof í lófa af mikilli virðingu.
Mér finnst hún alveg stórkostleg og ég held að kennarar sem kenna af jafn mikilli ástríðu og hún séu mikill fengur fyrir börn og unglinga landsins.
Hún er hætt að kenna vegna aldurs en ég veit að það eru til fleiri kennarar eins og hún.
Ennþá

þriðjudagur, 16. október 2007

Fjöreggið

Guðlaugur Þór, heilbrigðisráðherra. afhenti í dag Fjöreggið sem veitt er af MNÍ, félagi Matvæla-og næringarfræðinga og samtökum iðnaðarins.
Það var heimilisfræðinördinn sem tók við egginu :)

Það situr núna vel varðveitt á hillu í nýju borðstofunni minni :)

Þetta er ofsalega fallegt blátt postulínsegg á glerfæti.




Ég verð afar fjörug næstu daga, vikur og mánuði!


Kv.

Nördinn :)

föstudagur, 12. október 2007

Ræs n´ curry!

Ég skar, saxaði, mældi, skar meira, muldi og kreisti í 5 rétta indverska veislu í kvöld.

Á matseðlinum var tandoori kjúklingabringur, tandoori baunabuff, Chana Peshawari (kjúklingabaunir í cumin, garam masala ofl.), Kerala grænmetiskássa, Subsi (indverskt grænmeti með engifer, kóríander og hvítlauk), hýðishrísgrjón og naan brauð með kókos, garam masala og hvítlauk, raita og chutney úr rabbabara og döðlum.

Doktorsnemarnir voru í mat og Soffía, mamma hennar Helenu sem er vinkona doktorsnemanna og systir Helenu líka. Þær eru aðdáendur indverskrar matargerðar :)

Þetta var alveg einstaklega gott og ég skemmti mér konunglega í eldhúsinu mínu með alla potta og pönnur hússins í gangi í einu.

Það er eitthvað sérlega afslappandi við að skera niður grænmeti og mæla krydd.
Ilmurinn umlykur sálina og hlátur og ánægjuhljóð við matarborðið hlýja enn meira.

Ég anga eins og indverskur kryddmarkaður!

mánudagur, 8. október 2007

Kjöt í kálhaus!

Við borðuðum í kvöld í annað sinn á nokkrum dögum nýstárlega útgáfu af kjöti í kálhaus.
Þetta er afspyrnugott, hollt og gaman að borða. Karldurgurinn, unglingurinn og ég, öll jafn hrifin ;)
Tekur líka mjög stuttan tíma að búa til.
Hér er uppskriftin!

Kjöt í kálhaus með austrænu ívafi ;)
½ laukur
1 lítið rautt chilli
3 sm. ferskt engifer
1 stórt. hvítlauksrif
3 msk. soya
2 msk. fiskisósa
1 msk. Agave síróp eða púðursykur
1 tsk. Sesamolía

Saxa lauk, chillí og hvítlauk fínt.
Rífa engiferið smátt á rifjárni.
Skella öllu í wok pönnu á háum hita.
Láta rétt svitna í gegn og hella þá hakkinu yfir.
Svissa hakkið og bæta soya, fiskisósu, agave sýrópi og sesamolíu út á.

Bera fram með þessu:
Jöklasalati
Smátt söxuðu chillí
Skáskornum vorlauk
Fersku kóríander
Baunaspírum
Sweet chilisauce eða önnur góð austurlensk sósa í flösku.

Losið jöklasalatið sundur þannig að það myndi hálfgerðar kálskálar.
Moka hakki í og raða svo hinu dótinu ofan á.
Skella sósu eftir smekk með og vefja kálinu saman þannig að þetta verði eins og grófar kínarúllur.
Borða með fingrunum!

Þetta er svo gott að það er engu lagi líkt og það tekur enga stund að útbúa þetta!

Ef einhver prófar, þá endilega segið mér hvernig ykkur fannst. Það má auka eða minnka allt sem sett er í hakkið en það má ALLS EKKI sleppa fiskisósunni (Thai choice eða eitthvað svipað).

sunnudagur, 7. október 2007

Ennþá södd!

Við karldurgurinn fórum í mat til Þorleifs, Nadine, Einars, Esterar og Dimmu í gærkvöldi og átum gjörsamlega yfir okkur.
Það var hörpuskel í forrétt og brjálæðislega góður indverskur kjúklingaréttur og naan brauð í aðalrétt (ég er með uppskriftina í farteskinu).
Súkkulaðiterta í eftirrétt og við borðuðum þangað til við gátum varla hreyft okkur eða talað.
Blóðstreymið yfirgaf heilann og erfiðaði allt við meltinguna og við sátum dofin og andstutt á kjaftatörn í nokkra tíma þangað til óbleikur taxi ók okkur heim.
Ég held svei mér að ég sé ennþá södd!

Svo er okkur boðið í kaffi til bróður karldurgsins í dag!

Og ég sem á að vera í átaki!

fimmtudagur, 4. október 2007

Þegar amma var ung

voru tímarnir aðrir en þeir eru í dag.
Það var málað og breytt á MARGRA ára fresti eða aldrei.
Sama sófasettið notað þangað til næsti ættliður erfði það.
Það var alltaf tekið til, skúrað, þveginn þvottur og ryksugað á laugardögum (ekki alla daga vikunnar).
Þar utan var bara vaskað upp eftir kvöldmatinn og eldhúsgólfið sópað.
Vikan leið og allt var rútína.
Yndislegt.
Amma kom heim úr vinnunni á sama tíma á hverjum degi.
Oft rölti hún við í kjörbúðinni, kom heim, fékk sér kaffi og las blöð og byrjaði svo að elda kvöldmatinn.
Á morgnana á virkum dögum vaknaði ég við kaffiilm og ilminn af ristuðu brauði.
Um helgar við suðið í ryksugunni.
Það var allt svo rólegt og pottþétt hjá ömmu.
Amma fór aldrei í ræktina, hún bara gekk í vinnuna og úr henni, tók strætó í miðbæinn einstöku sinnum ef þurfti að versla eitthvað sérstakt, skó eða kjólefni.
Amma hafði tíma til að draga andann!

Hvað gerðist?

Í dag vinna allir fram eftir öllu, fara svo í leikfimi, hendast um hálfa Rvík að finna þetta eða hitt sem þarf í þennan eða hinn réttinn, fara á snyrtistofu í lit og plokk, á hárgreiðslustofur í klipp og stríp, kaupa þennan eða hinn óþarfann og eru svo þrífandi alla vikuna, málandi skiptandi um innbússtíl og svona frameftir götunum.
Það er aldrei neinn tími!!!!

Er furða að unga fólkið okkar sé agalaust og týnt í tilverunni.
Það er týnt! Allir sem ættu að finna það eru týndir!

Að minnsta kosti eftir skóla.
Kennararnir eru jú ennþá á sínum stað þótt þeir megi í dag varla anda á englana litlu sem mamma og pabbi hafa engan tíma til að anda á svo kennarnir þurfi þess ekki.

Hana nú!

Hægjum nú aðeins á, lækkum viðmiðin, nýtum húsgögnin lengur, leyfum málningunni að gulna áður en við málum yfir, eldum grjónagraut (ja eða hafragraut) og verum til staðar!

Við verðum ekkert hamingjusamari á þessari fjandans fart og þetta brjálaða lífsgæðakapphlaup snýst ekkert um raunveruleg lífsgæði!
Stoppum nógu lengi til að gefa okkur tíma til að njóta!

miðvikudagur, 3. október 2007

Kaffi er svínslega hættulegt (h)eldri konum ;)

Heilinn í mér er eiginlega hættur að virka af nokkru viti.



Dagurinn er búinn að vera gífurlega áreynsla fyrir þetta viðkvæma líffæri.


Enda ríkir óþægilegur doði og ég man stundum ekki hvað ég ætlaði að segja eða var byrjuð að segja.........


....... í miðri setningu!




Það er of mikið að semja og skipuleggja námsvísa með all the trimmings fyrir 4 árganga plús að búa til 2 stóra fyrirlestra (Power point MEÐ MYNDUM!!) á sama deginum.


Auk einhverra foreldraviðtala, samstarfsmannaviðtala, reddingum, snúingum og SVEFNLEYSI!




Ég held samt að aðal ástæða þessarar gífurlega þreytu í hausnum (lesist heilanum) sé einfaldlega sú að ég fékk mér kaffi í gærkvöldi!


Ætlaði aaaaaaldrei að ná að sofna.




Miðaldra ömmur eiga ALDREI að drekka kaffi á kvöldin NEMA þær megi sofa út daginn eftir!!! Ja eða þurfi ekki að gera nokkurn skapaðan hlut daginn eftir kaffidrykkuna sem krefst hugsunar!

þriðjudagur, 2. október 2007

Unglingaherbergið :)


Nú er unglingaherbergið nánast tilbúið.
Það á bara eftir að fjarlægja dót og myndir úr glugganum og setja filmu í.
Sonurinn er bara sáttur og hefur allt við hendina. Tölvuna, sjónvarpið og þrjár leikjatölvur allar uppsettar og tilbúnar til notkunar.

Hér er mynd af herlegheitunum :)

Hann er svo ofboðslega mikið krútt


Jón Þór heimsótti ömmu sína um helgina.

Hann er alveg ofboðslega mikið krútt.

Hann skrafar á fullu á sínu einkamáli og sýnir allskyns svipbrigði, hlær, æsir sig og sperrir allan í þessum kjaftatörnum sínum.

Hér er mynd af honum að skrafa við ömmu sína :)

mánudagur, 1. október 2007

Og það var fjör!



Laugardagskvöldið var algjör snilld.
Prentsmiðjan og prentarinn, strípalingurinn, homminn og verkalýðsfrömuðurinn, framhaldsskólakennarinn og vegagerðarmaðurinn, verkfræðingurinn og blondínan voru í mat og svo var dansað, kjaftað, hlegið og sungið fram undir morgun.
Borðstofan virkaði frábærlega, svona lítið pláss keyrir saman hópinn og þrátt fyrir fótaverki eftir margra tíma dansæði og almennt heilsuleysi
daginn eftir voru held ég allir sáttir og sælir.

































Hér eru myndir af fjörinu, koma fleiri seinna :)






Takk fyrir okkur!