föstudagur, 31. ágúst 2007

Svið eru góð, sérstaklega Skagfirsk :)

Fyrri helming ævinnar reyndi ég að vanda mig við að ala upp börnin mín.
Það tókst ágætlega að því leiti til að þau eru hið mætasta fólk í dag og ég er ákaflega stolt af þeim hvort sem það hefur eitthvað við mitt uppeldi að gera eður ei.

Hinsvegar eiga þau til að sjá í dýrðarljóma ALLT sem mér er óviðkomandi.
Þá finnst mér ég vera útundan.

Ég baslaði ein með þau í gengum háskólanám og tilveruna að mestu. 350 dögum af árinu eyddum við að mestu í félagsskap hvers annars og svona var það meira og minna fram að 16 ára aldri elsta sonarins, 19 ára dótturinnar, og svo vonandi til FERTUGS með yngsta syninum (me and him are buddys).

Elsti sonurinn er ákaflega upptekinn af því að hann sé Bárðdælingur. Hann sýnir því aftur lítinn áhuga að vera kominn af Grímseyingum og SKagfirðingum í móðurættina.
Hvernig ætli standi á því?
Nú kom hin ættarhliðin (sú Bárðdælska) afar lítið við sögu í lífi hans fram á fullorðinsárin að þeirra eigin vali.
Er það fjarlægðin gerir fjöllin blá sem hér spilar inn í?

Mér finnst margfalt meira til Skagfirðinga koma en Bárðdælinga. Og að vera ættaður frá Grímsey finnst mér alveg sérstakt.

En stolti nýorðin "Bárðdælski" faðirinn fagnar uppruna sínum og ætlar að bjóða upp á svið og rófustöppu á sveitamannavísu í skírn ömmudrengsins um næstu helgi.

Svið eru líka herramannsmatur :)

Sama hvort þau eru af skagfirskum eða þingeyskum rollum!

Er samt ekki frá því að þær skagfirsku bragðist ívið betur ;)

Er ég kannski afbrýðissöm yfir því að sumir uppskeri án þess að sá?

Ætla að spá aðeins betur í þetta.

miðvikudagur, 29. ágúst 2007

Skrafl og aftur skrafl

Nýja áhugamálið á heimilinu er að spila skrafl.

Tapaði SVAÐALEGA fyrir karldurginum um daginn.
Hann fékk næstum FIMMHUNDRUÐ stig!!
Hann hlýtur að svindla einhvurnveginn!

Nú hefi ég fundið leið til að bæta egóið og spila núna bara skrafl við tíundabekkinnginn minn sem mér tekst a.m.k. enn sem komið er að sigra (ekki mikill munur á okkur).
Spurning hversu lengi það endist en það er um að gera að njóta meðan er.

Ég er samt betri í skrafli en í SingStar. Sú manneskja sem hingað til hefur tapað fyrir mér, án þess að gera það viljandi svo ég hætti að grenja og góla vegna tapsárinda, var kærasti litlu sys.
Hann var PISSFULLUR!

Ég er sko tapsár með afbrigðum og leysi málin með því að finnast bara ALLSEKKERT gaman að gaula lengur!

þriðjudagur, 28. ágúst 2007

I am good

Sagði Jamie Oliver í þættinum í gærkvöldi þegar hann flippaði laxaflaki á grillinu á sama hátt og gert er með pönnukökur.
Í kvöld kíkti ég á ömmustrákinn sem svaf meirihlutann af kvöldinu.
Sonurinn var með heila lúðu sem fyrrverandi skipsfélagi hans veiddi í gær.
Það þurfti að flaka gripinn og þótt margir væru viðstaddir þá var enginn sem treysti sér almennilega í það.
Svo heimónördinn henti sér úr peysunni (var í kjól undir), veifaði hárbeittum flökunarhníf og gerði sér lítið fyrir og renndi þessum fínu flökum úr lúðunni.
Það var örþunnur beingarður eftir og flökunin tókst þetta líka stórvel.

Ég hef sko aldrei flakað lúðu áður en nú get ég sagt eins og Jamie, "I AM GOOD"!

Amen fyrir því!

sunnudagur, 26. ágúst 2007

Bankar og grunnskólar

Það vantar kennara í fjöldann allan af skólum á höfuðborgarsvæðinu.

Það virðist ekki vera mikil umræða eða áhyggjur meðal foreldra vegna þessa.

Ætli staðan væri ekki önnur ef kennarar væru bankastarfsmenn eða bankastjórar?

Fólki er nefnilega annt um peningana sína og þjónustu við þá.

Ef verulega vantaði í bankana og þjónusta við landsmenn í þeim stofnunum rýrðist yrði fljótt að heyrast í fólki.

Börn eru víst ekki peningar.

föstudagur, 24. ágúst 2007

Nektarmódelið!!

Lesbían er orðin nektarmódel og nú má eiga von á því að maður lendi í því óforsvarendis að horfa á hennar lögulegu línur með morgunkaffinu.

Það gæti víst líka farið svo að maður lendi í að aka á eftir henni ALLSBERRI utan á strætó!!!!

Ég hef smá áhyggjur af karlmönnum í akstri þegar hennar lostafullu línur fara að draga að sér athygli þeirra og blóðstreymið leitar niður á við.

Stórhættulegt alveg!!

Lesbían er nefnilega ein af þeim sem auglýsa Baðhúsið, líkamsræktarstöð allra kvenna, á evuklæðunum einum saman.

Hún er líka tekin við stjórnunarstöðu og er orðinn Deildarstjóri og þar með einn af skólastjórnendum í sínum skóla.
Það á víst við að skipta um viðurnefni á henni hér á þessu bloggi vegna þessa breytinga í lífi hennar.

Það tilkynnist því hér með að lesbían (deildarstjórinn) verður hér eftir kölluð STRÍPALINGURINN :Þ !

fimmtudagur, 23. ágúst 2007

Fágætið UPPÞVOTTAGRINDUR og BAKKAR!

Hvað á það eiginlega að fyrirstilla að almennilegar uppþvottagrindur eru nánast ófáanlegar í Höfuðborginni.

Eyddi bróðurparti af 2 vinnudögum í að hendast um Rvík vítt og breytt og leita að uppþvottagrindum.
Húsasmiðjan, Byggt og búið, Búsáhöld í Kringlunni, Duka, Hagkaup (þrjú stykki), Europris, Ikea, Rekstrarvörur, Þorsteinn Bergmann, Rúmfatalagerinn og loks fann ég nærri nógu margar í Byko!!

Tek fram að það versta sem ég veit er að þvælast í búðir!!!

Fyrsti skóladagurinn gekk svo bara hrikalega vel og nemendur mættu kátir og glaðir til starfa í heimilisfræðistofuna :)

Læknisfræðinemin er flutt að heiman.
Það féllu nokkur tár og mér finnst ægilega skrýtið að sjá hálftómt herbergið hennar.
En svona gengur þetta.
Ellin að færast yfir og bráðum verð ég ALEIN með Karldurginum að hokra hér!

*sniff*

Shortbus

Það sem gerist nánast aldrei gerðist í kvöld.
Ég fór í bíó!
Sá myndina Shortbus sem verið er að sýna á kvikmyndahátið græna ljóssins í Regnboganum.

Mikið ofsalega var þetta skemmtileg og áhugaverð mynd.

Mikið hlegið og mikið hugsað.

Mæli með henni, frábær tilbreyting og spes upplifun.

Mannlegt eðli í örlítið ýktu formi en hver hefur ekki einhvern tíma verið týndur í tilverunni. Kynlíf og kynupplifun er jú risastór hluti tilveru hverrar manneskju. Ekki síst ef einhver hluti þess er "brotinn" á einhvern hátt. Þá skiptir það aldrei meira máli.

"We all get it in the end"

þriðjudagur, 21. ágúst 2007

þetta líka dónalega svuntuefni!

Var að klára að lesa "Dalalíf" eftir Guðrúnu frá Lundi.
Las þessar bækur þegar ég var ungur kjáni.

Persónulýsingarnar hennar eru hreint frábærar og líka hvernig hún notar neikvæð lýsingarorð til að lýsa því sem jákvætt og gott á að vera.

Nú langar mig að lesa bækurnar aftur og skrá niður allar þær furðusetningar sem vöktu hlátur minn (og vinar míns hommans) við lesturinn.

Mér yrði ekki leitt að sletta þessu af og til í kennslunni í vetur :)

Hæfir ekki ömmum vel að geta beitt fyrir sig svona miðrar tuttugustu aldar sveita íslensku?

Steini, mæli með "Dalalífi" á lestlistann þinn við fyrsta tækifæri. Þú sleppir bara smá sjónvarspglápi á móti til að finna nýtilega stund í lesturinn :)

laugardagur, 18. ágúst 2007

Afmæli læknanemans og Reykjavíkurborgar

Dóttir mín á afmæli í dag.
Hún er nítján ára.
Reykjavíkurborg aðeins eldri.

Það hefur verið siður á heimilinu frá því börnin voru ungar að vekja þau með afmælissöng og pökkum.
Í morgun fór það forgörðum í fyrsta skipti!
Læknaneminn fór að heiman í gærkveldi og var ekki komin þegar ég fór að sofa. Ég átti von á að hún og kærastan yrði annarstaðar og vaknaði því ekki fyrr en 9 í morgun. Hún kom víst heim upp úr miðnættinu þegar ég svaf á mínu græna.

Í tilefni dagsins verður boðið upp á chili con carne og chili non carne og svo ekta ítalska lemon tart í eftirrétt.

Ömmudrengurinn kemur í mat með foreldrum sínum og ég hlakka mikið til að fá hann í fyrstu ömmuheimsóknina.

Læknaneminn hefur búskap á eigin vegum í Keilisíbúð á miðvikudagskvöldið og afmælisgjöfin hennar í ár er því ítalskur pizzaofn. Það mun vera sá gripur sem veðjað var á að mest yrði saknað úr heimahúsum og helst notaður þar sem læknastúdínurnar báðar eru ágætlega færir pizzubakarar :9
Vonandi verður hún kát :)

Til hamingju með daginn allir :)

þriðjudagur, 14. ágúst 2007

Gjaldeyrisviðskipti litlu sys og frábærir fiskidagar :)

Litla systir mín hefur aðeins einu sinni komið til útlanda.
Þá fór hún í siglingu með togaranum sem þáverandi maðurinn hennar var á.
Það var lítið stoppað, rétt litið í moll í Hull eða Grimsby.

Nú um helgina meðan stóra systir át á sig gat í vellystingum hjá Lehamzdr, frú hans og börnum, fór litla sys í alvöru sólarlandaferð til Lancarote.
Hún fór vopnuð mygga brúsa, sólarvörn og sundfötum!
Einhvern gjaldeyri hafði hún með í för en í byrjun júní var hún í bandi við mig og sagði mér að hún þyrfti að fara að PANTA gjaldeyri.
"ha? Panta gjaldeyri" spurði ég.
"ER ÉG KANNSKI ORÐIN OF SEIN?" var svarið!!!

Ég dó næstum úr hlátri.
Blessunin, hún hefur það fínt, er búin að fara í hellaferð og skoða hvíta krabba og hefur blessunarlega sloppið við bit og ef GJALDEYRIRINN endist verður þetta örugglega ævintýraferð sem mun lengi lifa í minni hennar (og mínu, PANTA GJALDEYRI!!!).

Fiskidagarnir á Dalvík eru flottasta hátíð landsins að mínu mati og ég minni á að ég hef étið eitt og annað nammi gott í gegnum tíðina.
Frú Ása Fönn og Herra Steingrímur, þakka frábæran viðgjörning og bestu fiskisúpu sem ég hef smakkað. Bob og Bertha senior, Björn og litla Bertha lummumeistari, bæjarstjórinn og frú hans, allir aðrir gestir á svæðinu og sérstaklega TENGDADÓTTIRIN fá bestu kveðjur :)

Ég og mínir munum mæta að ári!
Takk fyrir okkur :)

fimmtudagur, 9. ágúst 2007

Slökun

Ég fór á fætur klukkan 12 í dag.
Í klukkustund.
Svo var ég svo uppgefin að ég ákvað að leggja mig.
Síminn minn hringdi klukkan 18:30 og vakti mig.
Góðan daginn :)
Ég er ekkert smá hress!
Pizzagerð á fullu og ég segi bara eins og Dalvíkingar og nærsveitamenn "Kyndlar úti og pizza í boði". Ég er samt ekki með neina stuðningsmenn fiskidaga á bak við mig.
Drífa sig :)

þriðjudagur, 7. ágúst 2007

Karlmellur

Var að röfla við litlu sys á msninu.
Mig langar svo í "karlmellur" tilkynnti ég henni og hún sprakk úr hlátri.
Málið er að mig langar í KARAMELLUR!!
Freudian slip?

mánudagur, 6. ágúst 2007

Tilfinning


Tvísmellið til að sjá myndina stóra.

Heimasíðan hans Rosakalls :)

Ömmudrengurinn er kallaður "rosakall" af foreldrum sínum enda er hann ótrúlega mannalegur og burðugur.
Hér er heimasíðan hans á barnalandi fyrir þá sem vilja fylgjast með honum.
http://barnaland.is/barn/58999/

sunnudagur, 5. ágúst 2007

Dularfulla álfabikarshvarfið!

"ég ligg hér einn
yfirgefinn, aleinn
veit ekki hvort mér er kalt?
eða hlýtt?
blautur?
þurr?
veit ekki
því ég er týndur!"
"ég er álfabikarinn"

laugardagur, 4. ágúst 2007

Ólýsanleg tilfinning

Ég sit nývöknuð með tárin í augunum og skoða þessa litlu gersemi sem fæddist í gærkvöldi.

Þessi litli maður hefur heillað mig algjörlega upp úr skónum og tilfinningin vex og vex.
Það er einfaldlega ótrúleg upplifun að verða amma.

Lífið er fullt af dásemdum :)

Gleymdi einu.....

hann er með hreint ótrúlega falleg eyru!

fallegastur :)


Ég er búin að hitta ömmustrákinn.

Hann er yndislega friðsæll og ró yfir honum.

Hann var virtist hinn ánægðasti þegar hann hvíldi í fangi mínu með aðra litlu (er reyndar með mjög stórar hendur) hendina sína hvílandi á minni.

Hér eru myndir :)

föstudagur, 3. ágúst 2007

Ömmustrákur kominn :)

19 merkur og 55 sentimetra rauðhærður piltur fæddist í kvöld klukkan 4 mínútur í 10.
Ég er búin að heyra hann gráta í síma og er að fara að skoða hann í eigin persónu.

Ég græt af gleði!

fimmtudagur, 2. ágúst 2007

Beðið eftir ömmubarninu :)

Elsti sonurinn og tengdadóttir fóru upp á fæðingardeild klukkan átta í kvöld.
Það á að setja fæðinguna af stað og ég bíð frétta.
Bíð spennt með lager af dvd diskum frá prentaranum og prentsmiðjunni til að stytta mér og karldurginum stundir við.
Krossið nú fingur kæru vinir fyrir því að allt gangi eins vel og mögulegt er og að þríeykið mitt, móðirin, faðirinn og STÓRA ömmubarnið komist í gegnum þetta eins og fuglinn fljúgandi.

Tengdamóðir mín sagði við mig í dag "ef karlmenn gætu gengið með börn yrði fjórða barnið aldrei til"
"ha" sagði ég, "fjórðabarnið??"
"já, konan gengi með og fæddi fyrsta barnið, svo karlinn annað, konan það þriðja en karlinn myndi aldrei fara í gegnum ferlið aftur"!
SKemmtilega uppsett verð ég að segja :)
Tengdamamma er ansi glúrin verð ég að segja!

Ætli þessi glúrni fylgi kannski því að vera amma :)

Næsta blogg verður vonandi um ömmubarnið!

miðvikudagur, 1. ágúst 2007

Mojitosdagur again in Costa del Yrsufelli :)

Síminn vakti mig um hádegið.
Ég er sko enn að jafna mig eftir ferðalagið og las svo Harry Potter and the Deathly Hollows til morguns og kláraði bókina.
Bókin var svo spennandi að það var ekki hægt að leggja hana frá sér.
En. síminn: Prentsmiðjan tilkynnti mér sem sagt að það væri SÓL og tilvalið að eyða deginum í mojitosdrykkju og sólböð í dag.
Lesbían kom og sótti mig og við erum búnar að baka okkur í félagsskap geitunga og prentara í allan dag.
Nú á að skunda á Kringlukrána að éta pizzu 2/1 í boði Einkaklúbbsins og Skattmann :)
Lifið heil og verið glöð og drekkið mojito.
Mynta er holl!!!