fimmtudagur, 31. maí 2007

Hvert stefnir þessi veröld?

Umræður sem ég heyrði meðal unglingsdrengja í dag.
"Elliheimili eru fáránlegt. Það á bara að skjóta þetta gamla fólk, það er ekki eins og það sé okkur til neins gagns eða það sé að gera neitt fyrir okkur"
Þá vitum við það.
Tilgangur allra "fullorðinna" er að þjóna þörfum unglinga og þegar við erum ónauðsynleg til þess eða getum það ekki vegna aldurs þá má bara hreinsa okkur út.

Virðing er hugtak og tilfinning sem er að hverfa úr hugsanakerfi alltof margra unglinga.

Óheillavænleg þróun.

miðvikudagur, 30. maí 2007

Hárreytingar, ferðaplön og stress!

Sat með sveittan kollinn í dag og klóraði mér í hausnum.
Var að búa til ítarlega dagskrá fyrir London ferð sem ég er að fara í með 3 nemendur mína.
Ég er óratvís með afbrigðum og það er alveg spurning um að fjárfesta í GPS staðsetningartækjum á okkur öll svo við skilum okkur örugglega á rétta staði og tilbaka.
Í London á að heimsækja Fifteen og borða "lunch", skoða staðinn og hitta vonandi alla aðalkallana.
Harrods verður skoðað, sælkeradeildin á jarðhæðinni er engin smá veisla fyrir augu og bragðlauka og ég ætla að leyfa drengjunum að prófa ostrur meðal annars.

Síðasti spretturinn er harður í kennslunni, full kennsla, frágangur einkunna og allur annar frágangur og ég hlakka HRIKALEGA til að komast í sumarfrí eftir tæpar 2 vikur.
Sofa.....sofa.....sofa.....sofa og enn og aftur SOFA !!
það er hinsvegar þannig að loksins þegar maður má sofa út í eitt þá er maður eldhress og steingleymir að sofa í gleðinni yfir að vera í fríi og gera ekki neitt :)

þriðjudagur, 29. maí 2007

Matarmynd


Ein mynd frá stúdentsveislunni.

það voru snittur með cherry tómötum og basil, með piparrótarsalati með rauðrófum og salamí, með krabbasalati, með camembert, pestó og grilluðum paprikum. Chilí kjötbollur með tvennskonar ídýfum. Innbakaðar ólífur í ostasmjördeigi og alveg æðislegur ávaxta og súkkulaðibakki sem tengdadóttir mín hún Sandra bjó til.
Alveg meiriháttar gott og rann vel niður með freyðivíni og bjór.
:)

Eintóm hamingja :)

Stúdentinn minn tók við tvennum verðlaunum.
Önnur fyrir frábæran árangur í stærðfræði og hin fyrir frábæran árangur í efnafræði.
Hún er vel feðruð.
Ég get lagt saman 2 og 2 og fengið út fjóra ef ég vanda mig.
Veislan var snilld. Ættingjarnir eru margir hverjir skrautlegir og skemmtilegir karakterar og ræðurnar voru í samræmi við það.
Á tímapunkti voru tveir hundar veislugestir og það var svona massíft ítalskt catastrofíu ástand!
Bara gaman.
Það var mikið skálað og hlegið og borðað.
Stúdentinn ljómaði og skein eins og sólin, enda með 9.4 í meðaleinkunn og 178 einingar og það á 3 árum eða 6 önnum.
Nú stefnir hún að inntökuprófi í læknisfræði ásamt kærustunni og fleiri vinkonum og það er því lesið stíft fyrir próf þessa dagana.
Set mynd inn af dömunni í kvöld. Tölvan er með vesen og upphal á myndinni stoppar alltaf.
:D

laugardagur, 26. maí 2007

Heimskur er jafnan höfuðstór!!

uRRRR!
Stúdentshúfan hennar dóttur minnar er OF LÍTIL á minn stóra haus!
Ég sem hlakkaði svo rosalega til að fá myndir af mér með húfu.
Það er vonlaust að nokkur maður trúi því að ég eigi hana!
Dóttir mín er pen eins og konurnar í föðurættinni hennar og höfuðið í eðlilegum hlutföllum við afganginn af búknum.
Well.
So be it.
Hún er a.m.k. alveg hreint ofboðslega fín í svörtum jakkafötum, hvítri skyrtu með blátt bindi og STÚDENTSHÚFU SISE SMALL!
Útskriftardagur á morgun og hér er allt svo fínt að ég á fullt í fangi með að átta mig á því að þetta sé heima hjá mér :)
Fjölskyldan búin að lyfta grettistaki í tiltekt og heilir 3 farmar af rusli og dótadrasli farið í Sorpu :)
Rússneskt piparrótar og rauðrófusalat í ísskápnum ásamt krabbasalati og chilikjötbollum. Ostainnbakaðar sítrónuólífur í ísskápnum og í fyrramálið stendur til að snara upp 4 gerðum af snittum.
Gleðidagur framundan og heillin hún amma mín kemur brunandi að norðan um hádegisbilið.
Mikið verður gaman þá!

þriðjudagur, 22. maí 2007

Argentína og blues :)

Ég fór í félagsskap 40 nemenda og kennara í árlega Argentínu ferð heimilisfræðivalhópa í kvöld.
Það var alveg frábært.
Merkilega menningarlegir nemendur sem ég kenni.
Eftir matinn röltum við tvær vinkonur niður Laugaveginn með það fyrir augum að setjast á pöbb, sötra öl og spjalla.
Þá hringdi nemandi (einn af þrímenningarmatarmeisturunum mínum) í mig.
Nokkrir piltar sem voru með okkur á Argentínu höfðu rekið nefið inn í einkapartý blúsmanna sem stóð yfir á "Live" sportbarnum á Frakkastíg.

Þeir hringdu því þeir vildu vera vissir um að ég vissi af þessu!

Hugsunarsamir ungir menn ;)
Næsta sem ég veit er að við erum komnar í klikkað blúsgeim!
Jemundur minn hvað það var klikkað gaman!

Ég kann strákunum bestu þakkir fyrir að láta mig vita af þessu þótt þeir ættu ekkert með að stelast inn á "fullorðinsstað"!

laugardagur, 19. maí 2007

Lalli og öryggið :)

Snilld nýja auglýsingin með Lalla djóns.
Við Helga mín sáum hana saman í sjónvarpinu og sprungum úr hlátri.
Það er ekki séns að hann hafi haft neitt slæmt af að performera í þessari auglýsingu.
Í versta falli smá styrkingu á sjálfsmynd sinni sem mini krimmi og staðfestingu á því að hann sé heimsfrægur á Íslandi.
Fifteen minutes of fame eru að breytast í fleiri hundruð mínútur hjá honum og hver fílar það ekki?
Mér finnst þetta helvíti skemmtilegur hugsunaráttur og líka skemmtilega kómískt.
Allir græða og líklega er þetta stærsta framlag Lalla Djóns í þá átt að vera ábyrgur þjóðfélagsþegn sem skilar sínu.
Þetta er að mínu skapi. Sorry ef ég er að sumra mati siðferðislaus en ég þoli ekki þetta endalausa jöfnuðartal!
Allt á að vera fyrir alla, alltaf og hvar sem er!
Je ræt.
Get a grip!
Þetta er mín skoðun!

föstudagur, 18. maí 2007

Argentína Steikhús!

Nammm!
Ég fór ásamt 2 öðrum heimilisfræðikennurum sem tóku þátt í kokkakeppni grunnskóla Reykjavíkur út að borða á Argentínu.
Þvílíkt dekur.
Fyrst fengum við jarðaberjamohito kokkteil (sem ég elska) og svo var byrjað að borða.
Sérvalin vín og hver rétturinn fylgdi öðrum eftir.
Risahörpuskel á salatbeði, humar í wasabi froðu, risahörpuskelja og humar margaríta, karamelluseruð önd, heitreykt gæs, nautacarpaccio með truffluolíu, hreindýrasteik og svo heit súkkulaðiterta með panna cotta og vanilluís.
Jömmmmmmmí!
Við vorum alsælar.

Ég kann þeim Argentínumönnum, Ara, Stefáni, Guðmundi og Kristjáni miklar þakkir fyrir hversu almennilegir þeir eru við mig og mitt fólk. Það er alveg ólýsanlega gaman að koma til þeirra og maturinn er sæla í hvert sinn.

Ég mæli eindregið með þessum stað fyrir þá sem vilja eiga notalega og matvæna kvöldstund :)

þriðjudagur, 15. maí 2007

Upptekin í dag

Ég var upptekin í dag.
Upptekin ásamt þremur nemendum mínum, Arnari, Kjartani og Sindra.
Þeir voru í stúdíói hjá Bjarna á Grillinu, landsliðsmanni í matreiðslu og einum af umsjónarmönnum "meistaramatur" á www.mbl.is

Þar elduðu þeir sigurréttinn sinn úr kokkakeppni grunnskóla Reykjavíkur sem haldin var 21. apríl síðastliðinn í Menntaskólanum í Kópavogi.

Það var gaman að horfa á þessa skemmtilegu drengi "upptekna" við að elda og kenna öðrum að elda :)

Rétturinn verður flottari í hvert sinn sem þeir búa hann til og hann er einstaklega góður.

Ég hlakka til að fara með strákunum til London og matgæðast með þeim. Þetta eru menningarlegir ungir menn sem er gaman að vera í kringum.

Snilldardagur :)














Sigurréttur Rimaskóla í kokkakeppni grunnskóla Reykjavíkur 2007.

"Innbakaður íslenskur lax með peru og eplamauki með salati og matsuhisa dressingu"

Eftir viku verður hægt að elda þennan rétt með aðstoð þriggja 15 ára grunnskólapilta á http://mbl.is/mm/folk/

Verði ykkur að góðu :)

laugardagur, 12. maí 2007

Ég er búin að kjósa!

Ég kaus Ómar.
Sjálfstæðismenn geta alveg séð af mínu atkvæði handa honum. Ég vona að fleiri hafi ákveðið að taka sénsinn og hafa nóg hugrekki til að Ómar komist á þing!
Hann á það skilið, menn með hugsjón eru orðnir fágætir í raunheimum.
Áfram ÓMAR!

Nú sit ég í snjóhvítum fötum frá hvirfli til ilja með nýlakkaðar, eldrauðar táneglur og bíð þess að verða sótt.
Ég er að fara í Eurovision/kosningagrill hjá syni mínum og tengdadóttur. Þeim sem eru að gera mig að ömmu LANGT FYRIR ALDUR FRAM! Yndislegt :)
Jarðaberjamojito hráefnið bíður þess líka að verða sótt með mér.
Skál og gleðilega kosningavöku!

föstudagur, 11. maí 2007

Átvr einokunarverslunin

Fuss og svei!
Ég ætlaði að kaupa jarðaberjalíkjör frá Marie Brissard og nei takk. Hann er ekki til.
Það er ENGINN jarðaberjalíkjör til sem er bara með jarðaberjum.
Og ég sem var að uppgötva jarðaberja mohito sem er betri en allt sem rennur og í honum er jarðaberjalíkjör frá MB!
Ég ætla að sérpanta KASSA á mánudaginn!
Reyndar fann ég góðan mann sem ferðast látlaust og ætlar að bera í mig áfengi á fríhafnarverði héðan í frá svo ég er í góðum málum "rallarallala"!
Skál!

Jarðaberjamohitoarnir annað kvöld reddast samt því ég fann Polar jarðberja/lime/vodka drykk sem kemur í staðinn fyrir MB þangað til kassinn mætir :)

fimmtudagur, 10. maí 2007

Ég er bjáni!

Vinkona mín hringdi.
Ég var að tala við vin minn sem er erlendis. "Hann ætlar að kjósa Eirík og fyrir mig líka.
Svo er sonur minn líka úti og ætlar að kjósa hann".
"Hvað, ætlar þú ekkert að kjósa Eirík" spurði bjáninn ég.
Það þarf ekki að segja meira.
Ég er bjáni. Var búin að safna öllum símum heimilisins saman til að kjósa EIRÍK!

Eurovision undankeppni!

Undankeppni Eurovision í kvöld.
Ég er sannur íslendingur. Okkar lag er best og okkar maður er flottastur!
Ég hef alltaf heillast af mönnum með rautt hár og menn með sítt hár, sama hvaða litur það er fá mig til að kikna í hnjáliðunum.
Það er bara ekkert sem er eins sexý og síðhærðir karlmenn. Óháð aldri og öllu öðru.
Eirík hitti ég á djammi fyrir nokkrum árum og spjallaði töluvert við hann. Hann er blátt áfram yndislegur náungi og ferlega viðmótsþýður og blátt áfram.
Mér finnst hann náttúrulega með flottustu mönnum sem ég hef barið augum og og mun senda atkvæði fyrir allan peninginn í kvöld!
Áfram Eiríkur kyntröll!!

miðvikudagur, 9. maí 2007

Fyrsti stúdent familíunnar framundan!

Dóttir mín verður stúdent 26. maí.
Ég varð aldrei stúdent :(
Skaust fyrir horn upp í HÍ á síðustu metrum menntaskólans hátt á þrítugsaldri og hef alltaf verið með auman blett vegna húfuleysisins.
Nú fæ ég uppreisn æru.
Vona bara að dóttirin hafi pantað sér húfu í stærra lagi svo ég geti stolist til að máta.....



... og helst fest mátunina á mynd sem ég get svo horft á í sjálfsblekkingarvímu á fjórða jarðaberjamohito og ímyndað mér að húfan hafi alltaf átt heima á hausnum á mér!
Til hamingju ;)

þriðjudagur, 8. maí 2007

Dekkjaviðskipti, lítilsvirðing og erlendir dekkjaverkstæðisstarfsmenn!

Ég keypti 2 ný dekk og lét setja þau undir í dag hjá Sólningu.
Hringdi fyrst og fékk að vita að dekkin væru til og hvað þau kostuðu.
Brunaði á staðinn.
Spurði þann fyrsta um framdekk.
"Ekki tala íslensku"
Sama svar fékk ég frá næstu þremur aðilum.
Loks fannst einn, hann talaði fína íslensku með fallegum hreim.
Bíllinn var pumpaður upp og framdekkin rifin undan.
Þá kom í ljós að dekkin umræddu voru ekki til, ekki á staðnum það er að segja.
"Dekkin koma eftir fimm mínútur" sagði maðurinn með fallega hreiminn.
Eftir 75 mínútur kom maður með dekkin.
Ég, sem er ekki þekkt fyrir mestu þolinmæði í heimi brosti til hans og sagði, "ég er búin að vera hér í rúman klukkutíma og ég fékk ekki af mér að æsa mig. Það voru nógir til þess og það þótt þeir þyrftu ekkert að bíða"
Hann þakkaði mér fyrir og gaf mér sautján prósent afslátt og þegar ég fór þá brosti sá með fallega hreiminn hringinn til mín í kveðjuskyni.
Sá sem kom með dekkin talaði hreimlausa íslensku og hét alíslensku nafni.
Hér eftir ætla ég að leggja mig meira fram við að vera umburðarlynd og þolinmóð yfirleitt. Viðmót alltof margra var niðrandi við þessa nýbúa sem voru dugnaðarforkar sem lögðu sig alla fram við að rúlla dekkjum af og á bíla í löngum röðum, alltaf með sama jafnaðargeðinu og endurtóku reglulega án pirrings "ég tala ekki íslensku" við mjög misviðmótsþýða íslendinga.

Sól og sumar sumstaðar!

Það er sólbaðsveður í garðinum hennar Kiddu.
Það er vindur og ískuldi í mínum garði.
Ég er flutt til Kiddu, í bili a.m.k.

mánudagur, 7. maí 2007

Mér er sama hvaðan gott kemur :)

Það kom kona í kvöld með rós frá samfylkingunni... rósin var fín og það var gott að það kom kona með hana. Hún er nú í vasa á stofuborðinu, rósin, ekki konan.
Það þarf samt meira en rós til að ég leggi samfylkingunni lið.

Osso Bucco

Jæja.
Matsuhisa salatdressing á spínat og klettasalatblöndu með granateplafræjum og jarðaberjum fyrir tengdadóttur mína og dóttur.
Þær eru pirraðar og svekktar.
Ég hef ekki nógu háar tekjur til að kaupa íbúð og leigja þeim í vesturbænum.
Þótt pabbi hennar leggi í útborgun með mér þá þarf maður meira en meðaltekjur til að standa undir 2 íbúðum samkvæmt greiðslumatinu.
Það er ekki tekið með í greiðslumati öllu jafna að leigja eigi íbúðina út og þaðan komi tekjurnar til að greiða af henni að mestum hluta.

Well, mér finnst að mjög skiljanlegt að það sé ekki hægt að moka út lánum til fólks sem lætur svo lánin greiða sig sjálf með leigunni. Nógu erfiður er þessi leigumarkaður víst fyrir því.

Dóttirin er ekki jafn sammála og sátt. Henni finnst líka stundum allt frekar fáránlegt í tilverunni sem er ekki samkvæmt hennar hugmyndum eða hennar vinkvenna.

Ég eldaði ekta osso bucco í kvöld í fyrsta skipti. Það sló í gegn.
Sjúbeinin voru sérlega góð, ég mokaði úr þeim með tíspúnu.
*rop*

Mér finnst ég sinna þessum fjölskyldumeðlimum mínum með ágætum, hundþreytt og illa upplögð í dag eftir vinnu og brask en samt þvoði ég þvott, lagaði til og eldaði matinn..... OG BLOGGAÐI! (en það er fyrir mig, ekki fjölskylduna)

sunnudagur, 6. maí 2007

Byrjun er til allra hluta nauðsynleg!

Þar sem ég hef lagst í annarra manna blogg undanfarið hef ég ákveðið að blogga sjálf.
Þó ekki sé nema til þess eins að lesa "gömul" eigin blogg af og til og dást að eigin snilld ;þ.

Skippy var í kvöldmatinn. Ég er ekki viss um að ég hafi farið rétt að við að elda dýrið.
Penslaði með mulinni piparblöndu og ólífuolíu og steikti á steikarpönnu.
Svo hafði ég villisveppasósu með og lauksultu.
Þetta dýr var skrýtið á bragðið.
Kannski hefði eitthvað annað farið betur með dýrinu en yngsti sonurinn reyndi skilmerkilega að troða þessu í andlitið á sér eins og öllu öðru sem fyrir hann er borið. Hann sagði þó að þetta hefði örugglega smakkast betur ef ég hefði ekki sungið "Skippy, Skippy, the words greatest kangaroo" hástöfum meðan hann var að borða.
Hver veit.
Kannski hefði önnur dinnertónlist passað betur við kengúrusteikina :)

Við horfðum líka á mynd saman og skemmtum okkur alveg gífurlega vel!
"A night at the museum" með Ben Stiller (sem mér finnst leiðinlegur nema í þessari mynd) og hún var stórkostlega skemmtileg.

Ég vona að ég verði aldrei svo fullorðin að hætta að hoppa í sætinu og hlæja upphátt að ævintýramyndum sem eru gjörsamlega óraunverulegar!