laugardagur, 29. september 2007

Herbergi með tilgang :)

Í íbúðinni minni er nú herbergi sem hefur þann eina tilgang að hýsa fólk að snæðingi.


Það er hægt að troða þar inn 12 manns með topp skipulagi.


Ég er bókstaflega að springa úr ánægju með það þótt karldurgurinn sé ennþá örlítið bit á því að fólki detti í hug að eyða heilu herbergi eingöngu í þennan tilgang.


Hann á eftir að sjá ljósið.
Við vígðum borðstofuna í gærkvöldi.


Anton frændi minn, systkini hans, móðir og vinur hennar voru vígslugestirnir.


Hér er svo mynd af dýrðinni :)


fimmtudagur, 27. september 2007

Fjöreggið

Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands (MNÍ) veitir fjöreggið árlega fyrir lofsvert framtak á matvælasviði. Þessi verðlaun hafa verið veitt frá árinu 1993 með stuðningi frá samtökum iðnaðarins.

Ég var tilnefnd og valin í fimma manna úrslitahóp ásamt fjórum öðrum fyrirtækjum (ég er farin að líta á mig sem fyrirtæki).

Tala alltaf um mig sem "við" og "okkur" þegar ég er að vinna að undirbúningi kokkakeppni Rimaskóla og svo grunnskóla (Reykjavíkur) 2008.

Ávaxtabíllinn, Fylgifiskar, Mjólkursamsalan (stoðmjólk) og Móðir náttúra eru hinir fjórir aðilarnir sem geta átt von á fjöregginu.

Þetta kemur allt í ljós þriðjudaginn 16. október.

laugardagur, 22. september 2007

Innflutningspartý

Doktorsnemarnir eru með innflutningspartý í kvöld.
Ég lofaði að koma með mín frægu Focaccia brauð með mér í partýið.
Við karldurgurinn lögðum okkur upp úr hádegi í dag og vöknuðum klukkan hálfsjö!!!!!!
Það hvarflaði ekki að okkur að nota vekjaraklukku því við ætluðum bara rétt aðeins að halla okkur!
Svo fór sem fór.
Á methraða skelltum við í brauðin, tvær plötur í ofninn í einu, munur að vera komin með almennilegan ofn og nú sitjum við spúluð og shæní og bíðum eftir að Jón Þór og pabbi hans pikki okkur, brauðin og ostinnbakaðar ólífur, upp.
Nýji ofninn bjargaði okkur alveg.

Við strípalingurinn skoðuðum verkalýðsfrömuðinn í gærkvöldi.
Funduðum í morgun.
Hann er enn í skoðun og mati :)

fimmtudagur, 20. september 2007

Ég er að fara til London Tralla lalla la!

Við ákváðum í dag, ég og skrifstofustjórinn, að skella okkur til London í vetrarleyfinu.
Pöntuðum flug og hótel og örkuðum út glaðar í bragði eftir velheppnaðan dag.

Í tilefni þessarar glæsilegu ákvörðunar var T-bone steik í kvöldmatinn.

Ég ætlaði að hafa Osso bucco og risotto alla milanese (að hætti Nönnu Rögnv.) en var svo lengi að vinna og ganga frá ferðinni að það var engin leið að ég gæti eldað haft þennan 4ra tíma rétt tilbúinn á skikkanlegum tíma.

Það bíður fram í næstu viku að elda Ossóið :)

Ég ætla að versla heila ferðatösku af pocketbókum í ferðinni!
Hef ekkert að lesa svo þessi London ferð er bráðnauðsynleg!

Þetta er bloggað á "MÍNA TÖLVU". Karldurgurinn gerðist tölvunörd og kom henni í stand!

I love him!

miðvikudagur, 19. september 2007

Lítill engill á afmæli í dag

Í dag er afmælisdagur Sigrúnar Marenar vinkonu minnar.
Hún hefði orðið 4ra ára gömul.
Ég ætla að blása sápukúlur fyrir hana og knúsa mömmu hennar.
Til hamingju með daginn Sigrún englastelpa :)

þriðjudagur, 18. september 2007

Terror ástand!!!

Mig vantar pípara til að tengja handklæðaofn á baðinu.
Mig vantar tölvuséní til að koma minni tölvu og sonarins í netsamband.
Hann flutti sig um herbergi og nær nú engu netsambandi við þráðlausa síma ráderinn.
Mig vantar tæknilega sinnaðan aðila til að laga allar tengingar á sjónvarpinu við heimabíóið, digitalið, adsl yfir símann og hinar græjurnar.
Mig vantar mann til að þrífa og gera við bílana, aðallega karldurgsins, því ég hef þó reynt að þrífa og halda mínum bíl við.
Mig vantar stærðfræðiséní til að aðstoða soninn við stærðfræðina.
Mig vantar ritara til að skrifa allar þessar endalausu skýrslur, plön og viðskiptaáætlanir sem ég þarf að skila af mér í massavís eins og stendur.
Mig vantar nuddara og kokk.
Mig vantar kvensjúkdómalækni!!!
Mig vantar ýmislegt fleira og ekki síst vantar mig tíma.
Ef ég hefði nægan tíma held ég að ég gæti reddað þessu öllu. Grúska bara í málunum og finn svo út úr þeim en ég hef bara ekki tíma til að geta verið kennari, húsmóðir, bókhaldari, aðstoðarkennari í stærðfræði, tölvugúrú, kokkur, húsmóðir, lover, vinur, reddari, höfundur, pípari, bílaviðgerðarmaður/kona, bílaþvottamaður/kona, fyrirvinna, föndrari, rafvirki, málari, húsgagnasamsetningarmeistari, uppvaskari og amma.

Ég er sko greinilega ekki ofurkona......






.....enda hef ég frétt að hún sé dauð!

Valium óskast!!

mánudagur, 17. september 2007

Ég drep tígulfjarkann þinn með spaðaþristinum mínum!!!

Ég kenni krökkum í tíunda bekk að spila.
Í dag var spiluð borðvist.
Nóló.
Einn setti út tígulfjarkann og sá sem spilaði við hann drap fjarkann með spaðaþristinum!


Stundum velti ég því fyrir mér af hveru spaugstofan tekur ekki upp eitt og eitt atriði í þessum tímum hjá mér :)

laugardagur, 15. september 2007

Unglingaherbergi verður til :)

Við erum búin að skrapa og pússa, þrífa og sparzsla, mála og veggfóðra, hanna og versla........næstum allt.
Það er ekki hægt að hanna allt og ætla svo að ganga að hönnunarvörunum vísum í uppáhaldsverslun okkar prentsmiðjunnar.
Okkur vantar ennþá háan glerskáp, glerplötuborðið með árituðu ÁST á trilljón tungumálum, hjólaskúffu úr stáli og sjónvarpsborð (sem er reyndar geymt í húsi í Breiðholti, nei, ekki prentsmiðjunnar).
En það kemur í vikunni og við erum með heljarhelling af "unglingslegu" stöffi með stæl.
Ég ætla að setja mynd inn um leið og herbergið er fullbúið!

Það er bara bilað töff :)

föstudagur, 14. september 2007

Jói Fel

stóð sig fínt í "Tekinn" á stöð tvö plús í kvöld ;)

Ég hef ekki verið viss um hann fyrr en nú.

Ég held þetta sé þrælfínn gaur ;9

"Farin"



p.s.
karldurgurinn er á 3ju RISASTÓRU sjónvarpskökusneiðinni sinni í kvöld (hún er með kókoskarmellutoppi)
Þegar ég sagði honum frá þeim hnallþórum sem ég hefði í huga að rifja upp kynni við með aðstoð Kitchenaid hrærivélarinnar og nýja ofnsins, fölnaði hann og sagði "Viltu eiga hnöttóttann mann"?.

Hann elskar tertur.

Töff kókoshneta :D

Geggjaður dagur!!!

Opnaði tölvupóst í morgun.
Hélt þetta væri ruslpóstur en OMÆ þetta var snilldarpóstur.
Einn sá skemmtilegasti sem ég hef fengið.

I am so proud and happy og yfirgengilega spennt núna :)

Meira um það rétt fyrir 14. október :D

Kitchenaid hrærivélin mín kom svo heim í dag í toppstandi eftir tæpa þrettán ára vist í geymslunni þar sem hún gleymdist biluð.

Nýji ofninn er að hægelda lambaframpart og baka kartöflur :)

Örverpið fékk svo tilkynningu um að hann mætti byrja í námsskrárbundnu gítarnámi í Gítarskóla Íslands í næstu viku!!!
Það er margra ára bið eftir að komast að í þessu námi svo við erum gjörsamlega alsæl!

Lífið kemur manni endaust á óvart!

miðvikudagur, 12. september 2007

Minning um skírn

Þegar yngsti sonurinn var skírður var doktorsneminn rétt að verða 4ra ára gömul.'
Hann var skírður á afmælisdaginn hennar.
Hún vildi láta skíra sig aftur.
Var ekki sátt við nafnið sitt sagði hún, fannst það ekkert flott.
Við ræddum þetta fram og til baka og hún var alveg glerhörð.
"hvað viltu þá heita" spurði ég í þeirri von að þetta væri hugmynd út í loftið hjá henni.
"GIRMA!" kom svarið um hæl.
Ég hélt niðri í mér hlátrinum, þetta var gælunafn sem ég notaði stundum á hana og hafði líka komið fram í einhverri sögubók sem hún hafið gaman af.
Samþykkti með undanfærslum svo ég gæti haldið áfram við undirbúning fyrir skírnarveisluna.
Hún elti mig fram, ákveðin mjög og sagði "þurfum við ekki að gera eitthvað?".
"Gera eitthvað?" spurði ég.
"Já, við verðum að tala við prestinn og láta hann vita hvað ég á að heita!"

Hún heitir ennþá Auður Elva en mig minnir það hafi kostað töluverðar fortölur að fá hana ofan ef þessu. Hún var nefnilega og er skýr og ákveðin dama!

Doktor Girma Vignisdóttir hjómar dálítið sérkennilega :)

þriðjudagur, 11. september 2007

Ég og Jón :/

afi hans Jóns Þórs vöknuðum með þessa hrikalegu magapest á mánudagsmorgninum.
Í gærkvöldi var Jón búinn að tapa 2.5 kg og ég hef grun um að ég hafi misst að minnsta kosti jafn mikið.

Ég er samt ekki viss um að við slægjum í gegn með þessa "ristilhreinsunarmegrun" okkar.
Hún tekur fullmikið á.

Sonur minn, faðir Jóns Þórs, heldur því fram að við Jón eigum það sameiginlegt að vera ÁTVÖGl og að við höfum étið yfir okkur af sviðum og þess vegna fengið í magann. Við höfum ekki frétt af neinum nefnilega ennþá sem komu svona undan skírnarhelginni.

Ég er hinsvegar að láta mér detta í hug að við Jón höfum sameinast um þennan magavírus þegar við vorum að undirbúa og smakka hákarlinn. Við vorum nefnilega þau einu sem smökkuðum hann og ákváðum svo í framhaldinu að setja hann ekki fram á borð.
Han n var nefnilega skemmdur.

Vonandi rísum við Jón upp úr þessu jafngóð og áður, örlítið grennri :)

laugardagur, 8. september 2007

Jón Þór Baldursson


Við skemmtilega athöfn í kirkju Óháða safnaðarins var ömmustrákur skírður í dag.
Skírnarvottar og guðforeldrar hans voru Rakel móðursystir og Smári föðurbróðir.
Guðforeldrarnir fluttu bæn í athöfninni og pilturinn fékk nafnið Jón Þór.
Í veislunni var svo boðið upp á svið, rófustöppu, súrmat, harðfisk, bæði hráa og reykta hrefnu með piparrót og soya, flatbrauð með hangikjöti.......og svo voru "einhver" salöt. Svona lýsti faðir Jóns Þórs matseðlinum fyrir gestunum.
Það voru líka tertur og kaffi á eftir og þetta var ferlega skemmtileg veisla :)

Eins og sést þá er hann Jón Þór einstaklega efnilegur, ekki nema mánaðargamall og fylgist vel með hlutunum í kringum sig, enda er hann líkur ömmu sinni!

*sæluandvarp* þau eru svo falleg mæðginin.

föstudagur, 7. september 2007

Hetjan mín, strípalingurinn :)

Helga vinkona mín sem venjulega gengur undir nafninu strípalingurinn er hetjan mín.
Ég hef séð hana standa af sér og rísa upp frá stærsta áfalli sem nokkur getur orðið fyrir.
Hún er svo skemmtilega eðlileg og svo ofboðslega getumikil kona og hún er sko glæsileg líka.

Mér þykir svo vænt um hláturinn hennar og að hann hafi lifað af raunirnar.

Hún arkar áfram veginn ákveðin í að lifa af krafti í minningu dóttur sinnar.
Þannig tæklar hún sorgina.

Ég dáist að henni og í dag er viðtal við hana í DV sem lýsir henni ofsalega vel.

Ég vona að krafturinn hennar geti orðið öðrum ljós í myrkri.

fimmtudagur, 6. september 2007

Urr barasta!

Gamli ofninn var rifinn út og helluborðið líka.

þá kemur í ljós að það er bara ætlast til þess að ein græja sé í sambandi við rafmagn!!!!

Gamla helluborðið var tengt í ofninn og ofninn svo í rafmagn!

Rafvirki óskast í hvellil!


miðvikudagur, 5. september 2007

SPAAAAAN!

Við karldurgurinn versluðum spanhelluborð og blástursofn í dag.
Frá því ég keypti Dísó hef ég brasað á hálfónýtum búnaði sem fylgdi með, glænýr, en virkaði svo illa að flestir nágrannar mínir fóru með græjurnar og hentu í umboðsaðila Fagor á Íslandi og fengu aðrar græjur. og þetta var fyrir tæpum tíu árum!
Ég hef survivað á þessu drasli enda vön eldavélum og ofnum til sjós sem þurfti að handstýra hitanum á, það virkuðu engar stillingar svo ég er öllu illu vön.


Nú var nóg komið!


Heimilisfræðinörd eins og ég verður að hafa almennilegan búnað svo við redduðum málunum í Húsasmiðjunni.
Electrolux blástursofn sem hægt er að hita upp í 275°C og gera allskyns kúnstir með og gífurlega flókið spanhelluborð frá sama aðila sem hægt er að prógramma svo það eldi að manni fjarstöddum. (það á eftir að taka mig tíma að læra á það)


Það er ekki hægt að nota neina venjulega potta á svona undravélar svo við versluðum nýja potta og eina litla pönnu með.
Nú verður bakað, brasað, soðið, steikt og grillað.
Þarf að vísu í Kokku að kaupa almennilega stóra pönnu en slíkar fást víst ekki á hverju horni fyrir svona SPAAAAAn borð :)

Kitchenaid hrærivélin mín sem hefur staðið biluð í tæp þrettán ár er komin úr viðgerð.
Það var smotterí að henni.
BAAAKSTUR í aðsigi!

Svo í ofanálag erum við langt komin með að mála herbergi brottflutts doktorsnemans, þá flytur örverpið þar inn, hans fyrrum herbergi verður málað og uppfært í borðstofu.

Ég finn lyktina af matarboðum hægri vinstri!
Nýjar græjur, ný borðstofa og alles!
Get ekki beðið :D :D :D

Bólur

Ég er með tvær risastórar bólur á hökunni!

Mér finnst út í hött að ömmur fái unglingahormónabólur!

Hvert fer ég eiginlega til að kæra þetta óréttlæti???

þriðjudagur, 4. september 2007

Ísmolar og ballroom!!!

Doktorsnemarnir búa í þessari líka ferlega sætu íbúð á Keili.
Þær hafa afnot af 10 stórum þvottavélum og 14 stórum þurrkurum!!!!
Geta opnað þvottahús ef þær verða blankar!!!

Það er klakavél á hæðinni fyrir ofan þær.

Það er GEGGJAÐUR líkamsræktarsalur með ROSALEGA flottum tækjum við endann á ganginum þeirra.

Það er risasalur á þriðju hæðinni sem hægt er að halda heilt ball í.

Örverpið hefur ákveðið að flytja til þeirra við fyrsta tækifæri, íbúðin við hliðna er nefnilega laus.

Mikið er kósý og huggulegt hjá þeim og gott og gaman að vita af þeim þarna.......
þótt ég sakni þeirra.

Til hamingju stelpur með þetta fallega heimili, klakavélina, samkomusalina og ALLAR þvottagræjurnar :D

sunnudagur, 2. september 2007

Sunnudagur til sælu :)

MMMmMmmm yndislegur dagur.

Ligg undir sæng með frosin vínber, góða bók og parmaskinku.

Ætla að halda mig í bælinu fram eftir degi.


Það er nefnilega ömmudekurdagur í dag :)


Sætasta krútt í heimi heimsótti mig í gærkvöldi ásamt foreldrum sínum og hann er farinn að myndast við að hjala.



Horfir á alla af mikilli ákefð og reynir að herma eftir allskyns hljóðum.







Hann er dásamlegur, sjáiði bara!

laugardagur, 1. september 2007

Miðaldra krísuástand !

Talaði við jafnaldra vinkonu mína í morgun.
Hún er klár og ferlega vel gerð manneskja.
Við erum sammála um að það að vera á fimmtugsaldri er ekkert grín.
Geðið flýgur um í hormónaflippi, sálin hristist og allt veldur manni djúpum analískum pælingum um tilveruna og manns eigin stað í þessari tilveru.
Hvers vegna gerði maður þetta, hvers vegna virkaði þetta svona og hinsegin, af hverju verða hlutirnir öðru vísi en maður ætlaði og hvers vegna kemur manni svona margt á óvart?

Það líður varla sá dagur að við lendum ekki í einhverju formi af miðaldra krísu.
Áhyggjuleysi unglingsáranna er sem sagt liðið hjá.

Og ég sem hélt að allt yrði svo skýrt og greinlegt þegar maður yrði fullorðinn. Einfalt, klárt og maður yrði öruggur með sig og með allt á hreinu.

Mér líður eins og óöruggum, týndum unglingi með bólur í leit að sjálfri mér og meiningu lífsins.


Lækningin felst í því að hitta litlu fjölskylduna, horfa á myndir af þeim og gleðjast yfir því að vera ættmóðir.
Og þvílík fjölskylda.
Sonur minn og tengdadóttir gætu tekið fólk á námskeið í að vera par, foreldrar, ástfangin og hamingjusöm.
Þau sameina alla í kringum sig og litla piltinn sem verður skírður um næstu helgi.

Ég er yfir mig glöð að litli ömmustrákurinn minn á fullt af ömmum og öfum úr öllum áttum og að hann fái að njóta þess að allir séu glaðir og hamingjusamir yfir honum. Að faðir hans sé stoltur af uppruna sínum og öllum sínum aðstandendum.

Ömmudrengurinn á alla uppskeru heimsins skilið.

Bárðdælsk svið mega alveg vera BEST :)

"Óttaðist arabísku mælandi menn"

Í Fréttablaðinu í dag á bls. 10 er stutt klausa um innanlandsflug í Bandaríkjunum.
Það þurfti að fresta þessu flugi yfir nótt þar sem kona nokkur var óánægð með sex karlmenn sem töluðu arabísku í flugvélinni.
Mennirnir og konan voru yfirheyrð og í ljós kom að þetta voru fransk/bandarískir menn á leið heim úr æfingabúðum bandaríska hersins og voru á leið í Írakstríðið.

Það fyrsta sem mér datt í hug var hvort móðursystir mín hefði kannski verið í USA.

Við fórum nefnilega saman til Spánar fyrir nokkrum árum og einn morguninn var hún á leið ásamt dætrum sínum út í sundlaugargarð.
Skyndilega sviptist upp hurðin að hótelíbúðinni og hún kom æðandi inn með dæturnar í traustu handabandi á eftir sér.
Panik svipurinn var ólýsandi.
"ÞAÐ VAR ARABI Í LYFTUNNI"
"VIÐ VERÐUM AÐ SKIPTA UM HÓTEL"
"ÞAÐ ERU HRYÐJUVERKAMENN HÉRNA"

Mér tókst fyrir rest að róa hana niður og við héldum áfram dvöl okkar á Arabastaying hótelinu án allra hryðjuverka.
Veslings maðurinn, hann má þó þakka fyrir að hún réðist ekki á hann vopnuð borðhníf eins og tengdapabbi Lovísu gerði í bók Auðar Haralds "Hlustið þér á Mozart".

Eiginmaður Lovísu hafði gefið henni ferð til Spánar og verið svo vænn að láta foreldra sína fylgja með.
Aldraða íslendinga sem aldrei höfðu erlendis komið.
Eftir mikið bras og vandræði, vegna sérkennilegs ótta tengdapabbans við ræningja, hryðjuverkamenn og hrapandi flugvélar komast þau til Spánar.
Við morgunverðarhlaðborðið rekst tengdamamma á svertingja, þann fyrsta sem þau hjónin berja augum, hljóðar upp fyrir sig "morð, nauðgun, árás" og tengdapabbi kemur henni til varnar vopnaður borðhníf.

Auður Haralds er snillingur og "Hlustið þér á Mozart" er ein fyndnasta bók í heimi!