"Óttaðist arabísku mælandi menn"
Í Fréttablaðinu í dag á bls. 10 er stutt klausa um innanlandsflug í Bandaríkjunum. Það þurfti að fresta þessu flugi yfir nótt þar sem kona nokkur var óánægð með sex karlmenn sem töluðu arabísku í flugvélinni. Mennirnir og konan voru yfirheyrð og í ljós kom að þetta voru fransk/bandarískir menn á leið heim úr æfingabúðum bandaríska hersins og voru á leið í Írakstríðið. Það fyrsta sem mér datt í hug var hvort móðursystir mín hefði kannski verið í USA. Við fórum nefnilega saman til Spánar fyrir nokkrum árum og einn morguninn var hún á leið ásamt dætrum sínum út í sundlaugargarð. Skyndilega sviptist upp hurðin að hótelíbúðinni og hún kom æðandi inn með dæturnar í traustu handabandi á eftir sér. Panik svipurinn var ólýsandi. "ÞAÐ VAR ARABI Í LYFTUNNI" "VIÐ VERÐUM AÐ SKIPTA UM HÓTEL" "ÞAÐ ERU HRYÐJUVERKAMENN HÉRNA" Mér tókst fyrir rest að róa hana niður og við héldum áfram dvöl okkar á Arabastaying hótelinu án allra hryðjuverka. Veslings maðurinn, hann má þó þakka fyrir að hún réðist ekki á hann vopnuð borðhníf eins og tengdapabbi Lovísu gerði í bók Auðar Haralds "Hlustið þér á Mozart". Eiginmaður Lovísu hafði gefið henni ferð til Spánar og verið svo vænn að láta foreldra sína fylgja með. Aldraða íslendinga sem aldrei höfðu erlendis komið. Eftir mikið bras og vandræði, vegna sérkennilegs ótta tengdapabbans við ræningja, hryðjuverkamenn og hrapandi flugvélar komast þau til Spánar. Við morgunverðarhlaðborðið rekst tengdamamma á svertingja, þann fyrsta sem þau hjónin berja augum, hljóðar upp fyrir sig "morð, nauðgun, árás" og tengdapabbi kemur henni til varnar vopnaður borðhníf. Auður Haralds er snillingur og "Hlustið þér á Mozart" er ein fyndnasta bók í heimi! |
2 ummæli:
Mér finnst þú nú bara ekkert verri ;)
Þakka þér fyrir elskulegi doktor. þetta þykir mér vænt um að heyra :D
Skrifa ummæli