Amma mín er snillingur :)
Amma, enskukennarinn, vegagerðarmaðurinn og börnin þeirra komu í grillaða lúðu í gyros í kvöld.
Með voru parísarkartöflur með sítrónuberki, steinselju, ólífuolíu (frá Jamie of course) og sjávarsalti. Klettasalat með parmesan flögum og olífuolíu/sítrónudressingu.
Jamminamm.
Þessi smálúða í Gyros frá Fiskisögu búðinni uppi á höfða er algjört lostæti.
En!
Amma fór að ræða sinn nýfengna gsm síma undir borðum.
Hún er ekkert sérlega klár í að nota símann.
Það minnti mig á frekar fyndna uppákomu með ömmu og símann :)
Þegar stúdentinn útskrifaðist um daginn byrjaði glænýji gemsinn hennar ömmu að hringja.
Amma leit niður vandræðaleg, hristi töskuna sína aðeins. Lét sem ekkert væri.
Síminn hringdi áfram.
Amma ýtti núna ákveðið við töskunni í þeirri von að þetta gjammandi símtól, sem dóttursonur hennar (bróðir minn) færði henni fyrir barnapössun, þagnaði.
Síminn hringdi áfram og konan á næsta bekk leit grimmilegu augnaráði á ömmu.
Amma þóttist ekki vita hvað var að gerast.
Síminn hringdi áfram.
Amma horfði hingað og þangað, svona eins og örlítið utan við sig í þeirri von að enginn áttaði sig á því að þetta væri hennar sími. Hristi töskuna áfram í örvæntingarfullri von um að ófétið áttaði sig á því að ekki stæði til að hún færi neitt að tala í hann.
Konan sendi núna ömmu mjög illilegt augnaráð!
Sonur minn, langömmudrengurinn sem er að gera hana að langalangömmu teygði sig ofan í töskuna og slökkti á símanum.
Amma útskýrði fyrir okkur vandræðaleg á leiðinni heim á eftir að hún KYNNI bara að svara í símann og ekki hefði hún getað það í miðri útskriftarathöfn!
"ég vissi ekkert hvernig ég átti að láta hann þegja"
Sveiattan bróður mínum að koma henni ömmu í þessi vandræði!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli