fimmtudagur, 24. desember 2009

Aðfangadagsmorgunn :)

Klukkan er hálfsex og ég er vöknuð!
Í fyrrdag sátu vinir hér og við spjölluðum við kertaljós og kökur.
Einum fannst ég hlyti að vera stressuð fyrst ég svæfi svona lítið.
En yngsti gesturinn mótmælti. "Hún er ekkert stressuð, hún er bara svo spennt"!
Og það er alveg rétt. Ég verð barn í mér þegar kemur að jólunum og börn vakna yfirleitt extra snemma í desember. Um leið og ég fæ einhverja meðvitund er ég sprottin upp eins og stálfjöður því það ERU AÐ KOMA JÓL!!!
Hahahhahahhahaha!
Í gær, á Þorláksmessu var yndislegt.
Ég plokkað og litað nágrannakonu mína og fékk mér svo kaffibolla með henni.
Döðlubrauðin fóru svo í ofninn og fyrstu vinirnir mættu í kaffi, Jónsi með kærustuna. Þau voru leyst út með paté og lauksultu.
Næst elduðum við skötu!
Minn biti var algjört lostæti, Matsveinaneminn svitnaði og táraðist yfir sínum og þegar við athuguðum málið var hans svona margfalt sterkari en mín en báðar voru sjúklega góðar!
Næst verður tekinn hnoðmörinn á þetta!
Elsti sonurinn kom og við spiluðum dröguvist. Ég vann 4 spil á móti hverju einu sem hann vann. Mikil æfing sem barn við að spila þetta við hana systur mína hefur átt sinn þátt í því!
Homminn og verkalýðsfrömuðurinn komu við á leið í sveitina, afhentu pakka og tóku með sér pakka (gleymdu næstum báðum atriðum).

Svo kom kvöld!
Við settum á bakka döðlubrauð og smér, baguettesneiðar, heimagrafinn lax, heimagerða graflaxsósu (snilldarsósa matsveinanemans), reyklaxamús og piparrótarsósu, heimagert kjúklingalifrarpaté (aftir snilldarframlag nemans), heimagerða rauðlaukssultu, kiwisultu og chilisultu (tengdadóttirin og sonurinn) og hrúgaða bakka af 9 smákökusortum hvorri annarri betri :9
Tengdaforeldrar sonarins mættu, Jón Þó, Ásta og elsti sonurinn með frú og ömmustrák sem elskar lagið um Leppalúða með Baggalút og biður um það um leið og hann er kominn inn úr dyrunum.
Strípalingurinn og himnalengjan hennar komu líka og við áttum yndislegt kvöld hlaðið hlátursköstum og heitu súkkulaði!
Ég elska Þorláksmessu!
Og í kvöld eru JÓLIN!
Gleðileg jól!

föstudagur, 18. desember 2009

Meira jóla!

Ég fékk hugmynd fyrir doktorinn minn. Smá viðbót í jólapakkann sem fer vel í maga.
Setti það sem ég þarf á innkaupalistann fyrir morgundaginn.
Ég held hún verði frekar sátt!

Og meira um þetta yndi sem ég elska í ræmur!
Bíllinn minn er bónaður og póleraður í ræmur!
Hann gerði þetta í vikunni meðan ég var í vinnunni!

Ég held við höfum verið smíðuð fyrir hvort annað og það sem er svo magnað er að þetta "ekki jólabarn" er farinn að missa sig í jólapælingum og ætlar að fara í verslunarleiðangur í næstu viku og versla smá viðbótargjafir fyrir unglinginn og ömmustrákinn svona prívat frá sér og ég má ekkert að því koma eða vita!

Svo þykist hann ekki fíla jól! Je ræt!

Jóla jóla ........ bjór!

Ég get ekki sofið!
Sofnaði hálf tólf, vaknaði um þrjú og sit hér við tölvuna, flakka um á netinu og sötra jólabjór frá Viking og fæ mér stöku bita af jólasíld með rósapipar frá Ora. Namm!

Ástin mín sefur.

Í dag bættist nýtt tæki í fjölskylduna. Frystikista.
Electrolux, 210lítra, leysir nú frystiskápinn, Whirlpool draslið af hólmi. Skápurinn entist í 4 ár og svo dó í honum heilinn!
Ég veit að þessi kista á eftir að lifa í hundrað ár.

HRingdi heim í dag úr vinnunni til að taka stöðuna.
"já, kistan er komin og passaði inn, ég veit ekki hvernig gengur að koma hurðunum upp aftur og það er allt í rúst! En, þú bara slakar á og ég klára þetta"
Ég mætti heim, frekar mikið ægilega uppgefin eins og fylgir þessum síðustu vinnudögum fyrir jól, og það var nánast allt í orden.
"Hva? var ekki allt í rúst?" spurði ég og dáðist að framkvæmdunum. "jú, það er það, ég er alveg að verða búinn, sestu nú og fáðu þér kaffi".
Þessi elska. Hann sá fyrir sér að þetta yrði meira mál í frágangi en það reyndist vera og sá mig líka fyrir sér fá kast og tuða um aðkeypta iðnaðarmenn og svo framvegis í ljósi ótrúar minnar á karlkynið sem tilkomið er vegna fyrri reynslu af getulausum karlmönnum!
Þetta var allt í orden!
Kistan gengur, kompan er þrifin allan hringinn, allt á réttum stöðum og skipulagið í botni, frystirinn á ísskápnum meira að segja afþýddur og klár fyrir sörur, villimousse, graflax, laxamús og svo framvegis!
Og það ótrúlega!
Ég kom ekki nálægt þessu fyrir utan að raða nokkrum hlutum í hillur sem MÉR VORU RÉTTIR!!
Er nokkur furða að ég elski þennan mann!
Já og bjórinn er fínn, jólajósin loga, allt er með ró og spekt og mér líður svoooooo vel!

þriðjudagur, 8. desember 2009

GOOOOOOOOOOOOOOD MOOOOOOORNING!

Jahá!
Nú er maður loksins orðinn elliær!
Vöknuð og eldhress klukkan hálfsex!
Búin að fá endalausar snilldarhugmyndir að jólagjöfum í morgun/nótt.....sem mig vantaði ekki því ég er búin að ákveða jólagjafirnar í ár........ og á ekki pening til að kaupa aðra umferð á línuna!
Ég hlakka rosalega til í dag.
Einn af mínum uppáhaldshöfundum les upp úr nýjustu bókinni sinni í dag, Vilborg Davíðsdóttir úr "Auði".
Svo ætla ég að skreppa í smá leiðangur að versla verðlaun fyrir duglegasta nemandann minn en hún er búin að fá yfir hundrað jákvæðar athugasemdir í vetur fyrir góða ástundun og hegðun!
Ég ætla líka að grípa jólagjöf handa doktornum mínum í leiðinni :)
Og kaupa einn hlut í viðbót sem tengist jólunum örlítið!
Ég elska jólin!!!!

fimmtudagur, 19. nóvember 2009

EEEERIDDA MUUUUUUUUUU???

Sko!
EFtir að við komum úr vínkynningunni (lesist grappa/rauðvínsdýrindinu og klámsögunum af Fransa kóngi) fórum við beint á steikhús (sem fjöllyndi hótelstjórinn mælti með)!
Þar er svona kjötborð eins og í heldri verslunum á landinu kalda.
Svo velur maður hvað maður vill éta, hversu mikið steikt það á að vera og svo er það grillað ofan í mann.
"É MUUUUUUU"? spurði ég (lesist lék ég fyrir) afgreiðslumanninn!
Stefanía dó úr hlátri og sagðist þakklát fyrir að ég var ekki að reyna að fá svínið!
Jújú, þetta var "muuu" svo við hófum að panta. Þetta var skítódýr staður og allskonar pinnar og rúllur og kjötdæmi og pylsur (heimatilbúnar) í borðinu.
Vér íslendingar vorum svöng og nett í kippnum svo við pöntuðum borðið! ALlt nema einhver svínarif og kálfabein sem okkur fannst ekki sérlega spennandi.
Jú, salat fyrir 2 líka og 2 skammta af frönskum og Jói pantaði EINA GRANDE KÓK!!!
Kókið grande reyndist vera tveggja lítra kókflaska!!!!!!
Frönskurnar komu á stærðarinnar fati fyrir 6 manna fjölskyldu og salatið hefði dugað heila helgi á McDonalds á Íslandi, helgina sem staðurinn lokaði og mest seldist!!!!
Þarna sátum við!
Svöngu skinnin rétt við skál með franskar, gras og gos fyrir heilan ættbálk og kjöt, pylsur, pinnar, vefjur og rúllur byrja að berast á borðið.
Stúlkan færði sumt niður á stól. Borðið var ekki nógu stórt.
Þegar við héldum þetta gæti ekki versnað og vorum byrjuð að reyna að troða í okkur dýrindinu kemur enn eitt fatið!
NEI; við pöntuðum þetta sko ekki! Hlussufat af kjötbollum!!!
ÞETTA VAR Í BOÐI HÚSSINS! SENT MEÐ BROS Á VÖR FRÁ GRILLMEISTURUNUM!

Það þarf ekki að taka það fram, við sprungum!
Ég var td. svo södd að mér var illt í handleggjunum, sérstaklega þeim hægri!

EN, við fórum hinsvegar aftur og vorum voða pen þá og pöntuðum bara eina steik á mann!
"Hæ" sagði þjónustustúlkan þegar við örkuðum inn og brosti innilega. Ætlaði ekki að trúa því að við ætluðum bara að fá steikina og EINN skammt af frönskum. "Viljið þið ekki kjötbollur"

Þrátt fyrir að við neituðum og strykjum magann mætti kjötbollufatið á borðið og hún brosti afsakandi!
SKO í boði hússins!!!

Arrividerci!
Hollendingarnir mættu svo og þótt mikið af því sem fram hefur farið síðan þau mættu á svæðið sé ekki prenthæft þá mun ég reyna að koma einhverju hér að!

Ciao!
Nördinn sem nú er ítölsk sjónvarpsstjarna í orðsins fyllstu!!!

Vínkynning ofl. fjör!

Managerinn vinur okkar á hótelinu hefur alveg tekið okkur að sér. Hann er alveg duðdómlega fallegur maður og á dætur út um allan heim!
Langar að sjálfsögðu að koma til Íslands!!!
Well!
Hann fór með okkur til vinar síns sem er með einu stóru vínyrkjuna hér í héraðinu.
Ótrúleg ferð!
Monsjör Botrugno tók ógurlega vel á móti okkur og sýndi okkur víngerðina sína. Okkur var kennt að smakka, meta og skoða yndisleg rauðvín af lífi og sál að ítölskum hætti. Herra Botrugno talaði bara ítölsku og managerinn okkar túlkaði yfir á ensku eins hratt og hann gat því vínmeistarinn, sannur ítali, talaði á 300 km. hraða.´
Í miðri smökkun og frásögn af brúðkaupi Fransiskós konungs, réttara sagt brúðkaupsnóttinni sem þessi Fransi eyddi með ýmsum öðrum konum en eiginkonunni reif vínmeistarinn allt í einu í Stefaníu og dró hana af stað upp einhvern örmjóan og glæfralegan hringstiga. Við Jói óg managerinn héldum í humátt á eftir tilbúin að skerast í leikinn ef hann ætlaði sér að eiga "brúðkaupsnótt" með Stefaníu uppi á háalofti. Hann arkaði upp endalausar tröppur (ég ruglaðist í talningunni en held þær hafi verði vel á fjórða hundraðið og við á eftir. Við enduðum uppi á þaki þar sem hann réðst merkilegt nokk ekki á Stefaníu heldur lýsti fyrir okkkur athæfi þessa kynóða Fransiskós af ákafa.
Túlkurinn túlkaði ekkinema fimmtu hverja setningu svo ég held við höfum misst af mjög djúsí frásögn.
Vínsmökkunin endaði á aldeilis frábæru grappa, kossum og loforðum um að koma aftur og smakka meira!

Við fórum svo beint úr vínsmökkuninni á Steikhús sem managerinn benti okkur á en frásögnin af því kemur síðar því ég er að fara í ítalska tívíið! LIVE!
ARRIVIDERCI!

mánudagur, 16. nóvember 2009

Þjóðarsport suður ítalskra karlmanna!

Við Stefanía röltum af stað á laugardeginum að skoða Brindisi. Rétt hjá hótelinu er stórt og fallegt torg með gosbrunnum og þar klófesti fyrsti ítalinn okkur. Dvergvaxinn tónlistarmaður sem sagði okkur allt um sjálfan sig án þess við værum neitt að biðja hann um það. Hann næstum límdist fastur við okkur en af því hann þurfti heim til að borða pasta, horfa á sjónvarpið og þjást fyrir listina þá gátum við haldið göngunni áfram....... um stund!

Næst sáum við þessa svaka flottu löggur og óvitarnir við ákváðum að smella af þeim mynd. Well, ekki beint það gáfulegasta. Þessir "carabinieri" tóku okkur umsvifalaust í þriðju gráðu yfirheyrslu! Hvaðan vorum við, hvað vorum við að gera hérna, áttum við börn, komum við til að búa til börn, eiginmenn osfrv. Ég mundi setningu frá Ítölsku tíma "Io sono sposata" (ég er GIFT) en Stefanía slapp ekki! ÞEgar þeir vissu að hún væri á lausu heimtaði annar símanúmerið og þá fyrst fórum við að svitna. Það er nefnilega eitthvað bilerí á öllu símadæmi hér og við getum bara notað símana endrum og sinnum eða ekki neitt. Sama hvað er slegið inn. Carabinierinn sló númerið inn og prófaði strax að hringja. Það virkaði ekki. Hann náði næst í löggusímann og þegar hann virkaði ekki heldur skipaði hann Stefaníu að hringja í sig! Þegar við vorum orðnar úrkula vonar um að enda ekki á því að verða handteknar vegna rangra símaupplýsinga komu einhverjir kallar sem þurftu á þeim að halda. Fjúkk!

Það sem er hinsvegar öllu verra mál er að ef þeim tekst að komast í gegn og hringja til Íslands þá hringja þeir í dóttur Stefaníu því hún ruglaði saman sínu númeri og dóttur sinnar!

Næsta umsátur átti sér svo stað niðri við höfnina meðan við biðum eftir vatnastrætó! Kolsvartur rastafari með eldrauð augu heimtaði að við tækjum hann að sér, færum með hann til íslands og svo yrðum við vinir forever. Við gætum opnað hjörtu vor, lokað augunum og treyst honum og svo allir lifað sáttir að eilífu!

Hann sagðist nefnilega sjá það vel að við værum góðar manneskjur sem gætum vel tekið hann með okkur HEIM til Íslands sem hann hafði bókstaflega ekki hugmynd um hvað eða hvar var!

Stefanía bauð honum facebook adressuna sína en það fyrirbæri hafði hann aldrei heyrt af. Við hentum okkur um borð í vatnabussinn og laumuðumst svo framhjá honum því við sáum fyrir okkur að við losnuðum aldrei við hann ef hann fengi færi á okkur aftur.

Nú þorum við Stefanía ekki út úr húsi nema með Jóa með okkur sem Bodyguard!

Paola, gestgjafinn okkar, sagði okkur reyndar að við skildum alveg vera klárar í slaginn því það væri þjóðarsport hérna að reyna við allar erlendar konur!

Amen!

Vínkynningarsagan næst en það var ákaflega ítölsk og svolítið fyndin upplifun!

Arrividerci!

laugardagur, 14. nóvember 2009

VIVA ITALY!

Föstudaginn 13. nóvember lögðum við þrír kennaralingar af stað í Comeniusarleiðangur til Ítalíu. Fyrsta flugið, með Iceland Express, gekk ljómandi vel fram að loka mínútunum. Þá veiktist farþegi og sjúkraliðar, slökkvilið og læknar mættu á staðinn og við biðum þangað til öllu var óhætt og okkur hleypt út að aftan. Ég held/vona að það hafi verði í lagi með manninn fyrir rest.
Eftir þessa ferðabyrjun gekk flugið með British Airways til Bologna ágætlega fyrir utan lítilsháttar uppákomu með Sherry pela í vopnaleitinni. Því máli var reddað hratt og dvölin á Gatwick varð einfaldlega skemmtilegri fyrir vikið......fyrir suma amk.
Til Bologna komumst við og biðum og biðum og biðum eftir vélinni með Ryan Air til Brindisi. Fengum svo forgang í tékk inn og út og niður í hálfgert dýrabúð á flugbrautinni þar sem við biðum eftir að hleypt yrði um borð og þá byrjaði fjörið!
Flugþjónarnir voru ítalskir folar með syngjandi steggjarödd í hærri kantinum og maður minn, þeir notuðu röddina!
Eftir að þeir höfðu hent okkur í sætin gaf flugstjóri dauðans í og við þeyttumst af brautinni. Flugþjónarnir tóku þá til við að kynna framboð veitinga í vélinni, fríhafnarsölu, öryggisatriði, flutíma, hitastig, veðurfar, stjórnarfar, lesefni, gerfisígarettur, tilboð og hitt og þetta af gífurlegum eldmóði. Þeir gengu svo langt að rífa heyrnartólin úr eyrunum á Stefaníu því það væri bara ómögulegt fyrir hana að heyra í þeim ef hún væri með þessi tól í eyrunum.
Svo slökktu þeir ljósin og tilkynntu með dramatískum áherslum að nú tæki við klukkustundar flug... IN THE HOUR OF DARKNESS! Ég fékk svo alvarlegt hláturskast að þeir efldust um helming. "SKAFMIÐAR! SKAFMIÐAR!! ÓTRÚLEGIR VINNINGAR! FRÍAR FLUGFERÐIR MEÐ FLUGFÉLAGINU "IN THE HOUR OF DARKNESS".
Eftir að þeir höfðu selt skafmiða, safnað fyrir bágstödd börn í Brindisi og tilkynnt löngum orðum að einhver farþegi (ekki ítali nota bene) hefði unnið í skafmiðalottóinu og GEFIÐ ÞEIM vinninginn (skiljanlegt því það ferðast varla nokkur ótilneyddur tvisvar með þessum ítalíulúðrum) byrjuðu þeir aftur!
Stefanía sem hafði gert enn eina atlöguna við að horfa á og hlusta á despó í tölvunni, með heyrnartólin í botni, varð eitt spurningamerki. "Hvað nú". Hún var með stillt í botni en lúðurdósirnar ítölsku yfirgnæfðu samt Bree Hodgins!
"FORTUNE COOKIES! FORTUNE COOKIES" Nú stóð til boða að kaupa pakka með 3 spákökum með ofboðslega flottum flugvinningum með "flugfélaginu ofanskráða" nú eða fá einhverja fádæma álitlega forspá (eins og til dæmis, þú kemst lífs af úr þessu snarbrjálaða flugi)! Þeir náðu bókstaflega að tala/öskra flugvalla á milli eða í nákvæmlega 65 mínútur! Og þeir töluðu ekki lítið hátt!
Fleiri ákaflega áhugaverðir atburðir bíða frásagnar eftir að komið var til Brindisi en ég er að fara með Managernum á hótelinu í vínskoðunarferð svo more later!
EN man! það er ekki atburðalaust í þessari ferð og Ítalir eru verrrí spesíal male animals my friends!
ARRIVIDERCI!

sunnudagur, 27. september 2009

Ohh, var búin að gleyma Ikea!

Átti yndislegt kvöld í gær með vinum, sushi, Tom Yum súpu og himneskri súkkulaðitertu.
Sofnaði þrjú eftir Law and Order gláp með strípó.
Matsveinninn var í dyravörslu og skreið inn um sjö.
Ég er pikkföst og beygluð af gigt og ætla að skríða upp í sófa undir teppi og horfa á meira law and order!
Kem hingað til að slá um mig sælunni af gærkvöldinu og rólegheita degi framundan og þá!
IKEA!
úfffffffffffffff en það er opið til sjö og ég plata matsveininn bara í bíltúr með mér seinni partinn ;) Hleyp inn, target on, upp rúllustigannn, niður stigann, gegnum eldhúsdótið og inn mottumegin og þaðan í lampadeildina, til baka, gegnum kerti og skrautdót og beint að kassa með fenginn!
Ætti ekki að taka langan tíma og ekki að vera alltof þreytandi.

Málið er að fyrir mína vefjagigt eru ferðir í moll og verslanir eins og Ikea algjört eitur og heilsan gjörsamlega hrynur við stystu ferðir á þessa erfiðu staði!
Ég get unnið heilan vinnudag og orðið minna þreytt og minna verkjuð en eftir hálfrar klst. ferð í verslanir og moll!

Ætli Ikea sendi heim þrjá skerma?

laugardagur, 26. september 2009

Ikea seinna...

það er opið í Ikea á sunnudögum, fer þangað á morgun.....endar með því að ég fer ekki neitt!

Ætli þeir sendi heim á höfuðborgarsvæðinu þrjá lampaskerma?

Stórhættuleg sport og verstu verslanir í Rvík!

Doktorinn er með 6 skrúfur í handleggnum eftir að handleggsbrotna við spark á æfingu í TaekWondo!

Guddi er farinn að æfa Marshall Arts! box og tilheyrandi spörk og læti!

Ég ét tíu róandi á dag!

Þarf í Ikea af öllum stöðum í dag, sá auglýsingu og í auglýsingunni ljósaskerma á eldhúsljósið sem ég hef beðið eftir í 4 ár svo ég verð!

Annar tíu töflu skammtur af róandi til að hafa það af.

Ikea er sú verslun í Rvík sem mér finnst næst erfiðast að fara í. Fylgir bara streita og vanlíðan að lokast inni í þessu bákni sem búðin er og ólíkt gamla Ikea eru ENGAR útkomuleiðir eftir að maður er kominn inn í gímaldið!

Versta verslun allra tíma er samt Ilva! Hef einu sinni farið og fékk alvarlegt innilokunar og kvíðakast þegar ég endaði í dimmri og lokaðri blindgötu í botni verslunarinnar og engin leið út nema fara upp á efri hæð eftir þröngum dimmum stiga og uppi, allan hringinn til baka, niður og svo út!

Þvílíkt EVIl hönnun á verslunarhúsnæði!!!! Neðri hæðin lokast í aflokuðum gangi, dimmum og þröngum og það er ENGIN útgönguleið! Í myrkri bak við vegg má finna þröngan stiga upp á loft og það er eina útgönguleiðin!

Crap!

Ég hélt það væri falskur renni veggur sem staffið opnaði bara ef þú verslaðir vörur fyrir yfir 100.000 kall!

Never again!

sunnudagur, 13. september 2009

Sætur sunnudagur :)

Mmmm það er svo notalegt að vakna snemma á sunnudagsmorgnum, skríða fram úr, NAKIN, elda morgunmat og skríða svo upp í aftur og horfa á lögguþætti!

Ró og friður!

Svo sækjum við Gudda og förum í æfinga-akstursferð niður í Skeifu þar sem Guddi ætlar að versla leik fyrir vin sinn og það á líka að kaupa Law and Order seríu, criminal intent númer tvö!
Wúhú!
Dagurinn í dag verður góður dagur :)

fimmtudagur, 10. september 2009

Early bird

Vaknaði í stresskasti hálfsex!
Bjó til heimasíðu á wiki fyrir Evrópuverkefnið.
Upphalaði mynd sem er alltof stór!
Verð að komast á myndvinnslunámskeið prontó!
Þyrfti helst í HR til að læra meira um vefsíðugerð og notkun vefsins og innri viði tölva!
Þar sem ég þekki sjálfa mig veit ég að ég á líklega eftir að ná þessu ansi vel á næstu tveimur árum og verða algjört netnörd!
Ítölskunámskeið og myndvinnsla sem sagt á dagskrá vetrarins!
Eins gott ég er hætt að reykja og nánast hætt að djama at all og hef nógan aukatíma!
It will be needed!
Greetings from the coordinater of "A taste of Europe" the project about food, culture and traditions in European Countries!

miðvikudagur, 9. september 2009

Vitfirring !

Nikótínlyf sem fólk notar til að hætta að reykja eru margfalt dýrari en sígaretturnar!!!
Tyggjópakkinn með 4 mgr. kostar rétt um fimmþúsundkall!
Nefúðinn kostar hátt á sjöttaþúsundið!
Lítill pakki af munnsogstöflum kostar 1000 kall pakkinn!

Ég tygg 2-5 tyggjó á dag.
Bifvélavirkinn sama.
Ég nota munnsogstöflu annanhvern dag sirka.
Bifvélavirkinn stútar nefúðanum á 3-4 dögum max ef hann er ægilega harður við sig!

Hér var hætt að reykja vegna kreppu og sparnaðar!

Je ræt!

þriðjudagur, 8. september 2009

Kaffilögun suma daga

gengur með ósköpum.
Hendurnar eru stundum svo stífar og fastar að ég missi allt úr höndunum.
Enda lagar matsveinaneminn oftast kaffi fyrir mig.
Ég er að verða að kryppildi!
Óþolandi!
URRRR

p.s. mig langar svo í sígó!
p.s.p.s. munnskolið sem ég kaupi hækkaði um 300 kr. milli skammta. Síðast kostaði það 1410 og núna 1710!!! Hvar endar þetta allt saman!

mánudagur, 7. september 2009

Spilahús!!!

Alla laugardaga í vetur frá kl. 14:00-18:30 verður opið hús hjá mér ti spilamennsku!
Þeir sem vilja spila mæta!
Taka með sér það sem þeir vilja drekka og borða (snakk, gos, nammi, köku, osta oþh.)
Flest spil til: Scrabble, Risk, Monopoly, Partý og co, Nýja Partý og co, Sequence, Hættuspilið, Trivial, Scotland Yard, Bændaspilið, Friends, Kreppuspiliið, Uno ofl. ofl. Mr and Mrs. væntanlegt í hús!!!

KOMA SVO!
Nördið!

Mig vantar áhugamál!!!

Ég hef viðbjóðslega mikinn tíma!
Þótt ég elski að lesa þá vil ég ekki leggjast í það eingöngu.
Reyklaus hefur maður uþb. 2.5 tíma aukalega í vöku til að gera eitthvað á hverjum degi!!!
Sjitttt!!!
Ég er á leið í ítölskunám og þarf að skipuleggja "a Taste of Europe" verkefnið, ferðir ofl. en það geri ég á virkum dögum, Held ég sé með vinnuvikuna alveg troðna af dagskrá.
En svo koma helgar!!!
OMG!
Ég held ég deyi ef ég á fleiri svona "nothing to do helgar"
Mig vantar sem sagt áhugamál til að sinna um helgar, má ekki kosta eiginlega neitt, þarf að taka helst nánast alla helgina, má ekki involvera áfengisneyslu, þarf að vera gaman og hægt að byrja strax!
Já og allra helst involvera annað fólk líka!
Any suggestions?

sunnudagur, 6. september 2009

FARIN!

Vaknaði með heljarinnar þörf fyrir að æða áfram fótgangandi um hverfið!
Svona "út við endimörk alheimsins" tilfinningu!
og gerði það!
í buxur (blindandi) og haldara (held hann snúi öfugt) og bol yfir.
Berfætt í Ecco sandölum með skítugt úfið hár og stírur í augum æddi ég áfram.
Endimörk alheimsins eru bak við Borgarholtsskóla!
Það tók 23 mínútur að fá þessa útrás og ég er sveitt og með táfýlu!

Nú er ég með kaffi og tyggjó og á líklega eftir að skríða upp í og sofna aftur.
Getur verið að kaffidrykkja valdi bjúg? Ég hef aldrei safnað bjúg hér heima en þeim mun meira erlendis í hitanum en nú eftir að ég hætti að reykja er ég bólgnari en sláturkeppur í bullandi suðu!

Pirrrrrrrrrrr og aftur Pirrrrrrrrrrr

Kvíði deginum því ég er sálarlega í lamasessi eins og fyrridaginn.
Sígarettan sem var minn besti vinur og fjölskyldumeðlimur sem alltaf var til staðar og aldrei sagði neitt vitlaust eða særði mig á einn eða annan hátt er FARIN!
I am grieving!!!!

laugardagur, 5. september 2009

Bros, tár og rauður kjóll

Skralli litli gisti í nótt
Við mættum eldsnemma á róló í morgun í rigningarúða og komum grútskítug og hálfblaut heim. Ég var trú sjálfri mér og skellti honum í rauðan, síðan, flauelskjól af doktornum sem hangir inni í skáp og þannig tók hann á móti foreldrum sínum með perluband um hárið!
Sló ekki í gegn hjá pabba gamla en Skralla sjálfum fannst hann heldur betur fínn og pósaði villt og galið fyrir myndatökur .....hahahhahahahhahahaha :)

Guddi fór svo með mömmu fataráðgjafa í mollið og kom heim með 3 buxur, belti og jakka! Þessi leiðangur tók bara 1.5 tíma sem er met tími miðað við árangur!!

Nemendur mínir eru með hljómsveit, Hardcore Monkeys, og tróðu upp í tilefni Grafarvogsdagsins. Við bifvélavirkinn fórum að hlusta og horfa.
Ég veit þeir eiga eftir að verða heimsfrægir! Þeir eru ótrúlega góðir þrátt fyrir ungan aldur og fáar æfingastundir! Þeir þurfa bara að spýta í lófana og vera duglegir að æfa til að sigra músíktilraunir 2010!! Ég er viss um að þeir geta það!!! Þetta eru einstaklega gæfulegir og töff unglingspiltar og ég fíla þá í strimla og ræmur!

Nú er það slökun og terta sem keypt var á kökumarkaði til styrktar handboltadeild stúlkna hjá Fjölni í dag. "GUBB"
I am sad tonight eftir samskipti mín við afleggjara í dag en það er örugglega bara vegna þess að ég er svefnlaus og þá verð ég alltaf eins og aumingi á sálinni.
Vonandi bjartari dagur og betri á morgun.

föstudagur, 4. september 2009

Hálfvitar og Fávitar ;)

Á miðvikudagskvöldið komu doktorarnir í mat.
Ég eldaði einhverja tyrkneska hálfmána sem var uppskrift af á er.is.
Þetta átti að vera auðvelt, fljótlegt og ódýrt. Já og voða gott!
Je ræt!
Ég gerði mína eigin útgáfu fyrr grimmitisdoktorinn og hún var mega góð!
Með linsubaunum og gulrótum!
Hin var svo sem ok en þetta var major mál og tók heljar tíma og samt er ég eldsnögg að vinna allt matartengt!
Ég breytti nafninu á þessum rétti, hér með heita þetta Tyrkneskir hálfvitar (original uppskriftin) og Tyrkneskir fávitar (grænmetisútgáfan).

Það var svooooo gaman að fá þær!!!
Við flissuðum og fífluðumst til hálf níu en þá urðu þær að mæta í afmæli til vinkonu rétt hjá!
Stína og ég eigum við sama fyrirlestra - dotta/umla/hrjóta/stynja vandamál að stríða!
Það er svo gott að vera ekki einn í heiminum með vandamál sín!!!!!!
Go Stína!
Og takk fyrir allt gúmmulaðið frá Hollandi el doktores! It was sooooo goooood!
Og þið getið hætt að hafa áhyggjur af mér, ég er komin á lyfin aftur!!!
Feel so so so so much better!
;)

Frábær föstudagur kominn í gang :)

Vaknaði svolítið ringluð í hausnum í dag.
Vel sofin og nánast verkjalaus og liðug því eftir að ég hætti að þvermóðskast við að éta gigtartöflurnar mínar (fær alveg hroll við að sjá þetta á prenti, líður eins og ég sé þrjúhundrað ára gömul, hrukkótt skrugga) er ég bara helv. brött!
Ringlunin jókst við að sjá svolítið skrýtna feisbókarvinabeiðni.
Svo fékk ég símtal frá konu sem náði brosinu fram af fullum krafti!
Námskeiðið gekk eins vel og ég hélt. Þátttakendur eru víst rosalega ánægðir!
Rosalega finnst mér það frábært!
Ég er alveg brosandi út að eyrum og hlakka til að fá hópinn minn í dag og njóta þess að eyða með þeim 2 tímum við skemmtileg viðfangsefni og fara svo hress og kát eftir góða viku inn í helgina ;)

Reykleysið er orðið frekar létt en ég er smá hrædd við helgina!
Krossum fingur og sjáum til hvort ég er ekki að losna úr greipum hinnar helvísku sígarettu for good með geðheilsuna í góðu standi!

mánudagur, 31. ágúst 2009

Aldrei að gera í dag það sem þú getur gert á morgun!

Ég þarf að fara að skoða og velja eldavélar á morgun.
Fer í Ikea í leiðinni.
Sinni nokkrum öðrum verkefnum samhliða.
Ég er sveitakona og fer ekki út úr hverfinu mínu nema brýna nauðsyn beri til og er þá búin að safna verkefnum.
Ikeaferðin sem varð að gerast í dag gat færst til morguns og ég er alsæl á leið í heitt bað, svo ökutíma með Gudda mínum, kitchen Nightmares og the bachelorett og svo borðum við súpu og samlokur um tíu!
Það er svo undarlegur tími á öllu hérna vegna skólavistar bifvélavirkjans verðandi matreiðslumannsins ;)

Það er heitt

og mig langar í sígó!
bilaður dagur í dag bjargar sálinni en Ikeaferð sem er óhjákvæmileg rústar henni örugglega í lok dagsins!
Ikea is an Evil place!

mánudagur

og ég ýtti 3svar á snooze takkann.
Þetta geri ég aldrei.
En ég er ofboðslega mikið þreytt þótt ég hafi ekki sofnað neitt sérlega seint í gærkvöldi.

Undarlegt að bæði húðin á mér og hárið lítur verr út en ever og þetta á allt saman að vera betra og fallegra í reykleysinu!
Hárið á mér hefur bara aldrei verið eins líflaust og ljótt og núna.
Það er allt í lagi, ég er þá bara jafn ljót að utan og innan þessa dagana!
URRRRR

sunnudagur, 30. ágúst 2009

Yndislegir nágrannar

Ég á yndislega nágranna :)

21 dagur af skelfingum að baki

hversu margir eru framundan?
Ég var við það að tapa glórunni í gær.
Eirði ekki við neitt.
Endaði í brjáluðum hjólatúr, kom heim kófsveitt og másandi og þreif allt sem fyrir mér varð þangað til ég varð svo þreytt að ég valt út af.

Í dag tókst mér að eyða nánast hverri waking moment í að vinna. Búa til fullkomnar áætlanir, uppskriftir, plön, matseðla, námsbækur, nýtt efni ofl. í tölvunni meðan sólin skein úti.

Þorði ekki að stoppa því þá tók vanlíðanin yfir um leið.

Nú er klukkan korter í níu og á morgun er vinnudagur!!!!!!!!!!! JESSSSSSSS ég get fljótlega sofnað!

Guði sé lof fyrir að þessi helgi er næstum búin.

Ég er uppfull af reiði, hatri og sársauka.
það rífur upp gamla vonda hluti í sálinni að takast á við þetta.

Mig langar ekki að hætta að reykja en ég verð að gera það.
Næst kýs ég hvern þann flokk sem lofar að lækka verð á tóbaki!!!

laugardagur, 29. ágúst 2009

Sótsvartar pælingar

BARNIÐ BORGAR
1. ) Ef foreldri þarf að velja milli þess að kaupa sígarettur eða mat fyrir barnið/börnin sín reyna 99% allra foreldra að sleppa sígarettunum og kaupa mat í staðinn.
Útkoman er að foreldrinu líður skelfileg í fráhvörfum og á erfitt með að sinna krefjandi foreldrahlutverkinu = barnið fær að borga brúsann.

2.) Foreldrið fellur, meikar ekki vanlíðunina og horrorinn sem fylgir fráhvörfunum og þeirri undarlegu líðan sem SUMIR virðast eiga við að stríða við að berja sig frá reykingunum (með og án lyfja). Foreldrið á ekki fyrir mat ofan í barnið og hrynur andlega að auki yfir að bregðast barninu og klikka á reykleysinu = barnið borgar brúsann tvöfalt.

3.) Foreldri notar nikótíntyggjó, úða, munnsogstöflur, munnstykki eða fer á lyfjakúra (champix ofl.) til að hætta. Það kostar alla peningana sem á að spara við að hætta, barnið fær engan mat og foreldrið hrynur = sama og í dæmi 2 BBB2 (barnið borgar brúsann 2falt)

Reykingar eru heilsufarsvandamál sem kosta ríkið voða mikla peninga sem ríkið reynir að borga með álagningu á sígarettur.
Well! Ef ég ætti lítil börn þá þyrftu þau aðstoð sérfræðinga því móðir þeirra er við það að tapa geðheilsunni alfarið. Hefur enga þolinmæði í neitt, grenjar heilu klukkustundirnar, getur ekki hugsað, finnst ALLT gjörsamlega ömurlegt og er með öllu algjörlega óhæf til allra verka og samskipta fyrir utan vinnu!

Þeir sem ég hef talað við sem hafa hætt að reykja skiptast í 5 flokka:

1. flokkur: Hættu að reykja á hnefanum og fannst það bara SKÍTLÉTT og hafa aldrei átt neitt erfitt eða langað í sígarettu. Til hvers í fjandanum var það að reykja í upphafi? for show or some? Það hefur amk ekki verið neitt sérlega háð því greinilega og hefði því bara átt að sleppa því með öllu! Forheimskt pakk sem áttaði sig ekki á því að það gat vel sleppt þessum óholla og RÁNDÝRA viðbjóði.

2. flokkur: Þeir sem hættu að reykja með tyggjóinu og fannst það ekkert svo erfitt. Éta enn tuttugu tyggjó á dag tuttugu árum síðar en langar EKKERT í sígó!

2.flokkur: hættu að reykja one way or the other og fannst það bilað erfitt, eru reyklausir en berjast við fráhvörf og vanlíðan allt að 5 -15 árum eftir að þeir hættu. Árafjöldinn virðist ekki skipta máli, þig langar bara alltaf að reykja! Þótt það komi fleiri dagar án stöðugrar löngunar!

3. flokkur: þeir sem hættu með einhverjum hætti, börðust og berjast baráttunni af öllum kröftum, falla á fylleríum en halda baráttunni samt áfram.

4.flokkur: þeir sem reyna stöðugt að hætta en ráða ekki við meira en max 2-5 daga í hverri tilraun.


Mér finnst:
Lækkið verðið á tóbaki svo foreldrar þurfi ekki að velja milli fíknarinnar og þess að fæða börnin sín!!!!!!!!!! Rökstuðningur: dæmi 1. 2. og 3!
EÐA
Bannið hreinlega innflutning og sölu á öllu tóbaki! Marijúana er ólöglegt og fjandinn má eiga mig ef það er eitthvað óhollara en tóbak og áfengi sem er löglegt en rústar og hefur rústað heilu fjölskyldunum frá upphafi mannkyns! Og er ekki síst að gera það núna á krepputímum!

Ég er enn reyklaus helvítis helvíti og ég er það af því að ég neyðist til þess vegna þess að sígarettur eru svo dýrar!
Ef ég ætti skítnóg af peningum myndi ég reykja non stopp!
Mér finnst áhugaverðara að lifa lífinu hamingjusöm en að lifa því sulking and suffering 24/7 þótt það kosti að ég lifi því einhverjum árum styttra!

Bara ef ég hefði aldrei byrjað!!!!

Ég ELSKA SÍGARETTUR!!!! OG MÉR FINNST LÍFIÐ VIÐBJÓÐSLEGT ÁN ÞEIRRA!


Gæti ég ekki orðið helv. góð forvörn gegn reykingum? Hey, langar þér að líða ALLTAF illa? Kveiktu þér þá í!!!! GO for it! Ef þú drepst ekki úr reykingunum sjálfum þá drepstu úr vanlíðan yfir því að reyna að hætta!

Jeyyyy!!!

föstudagur, 28. ágúst 2009

klukkan er sex

og ég er að borða agnarlítinn morgunverð.
Dagurinn er búinn að vera svo svakalega strekktur að það hefur enginn alvöru tími verið fyrr.
Hefði getað étið eitthvað í morgun en var of geðvond af reykleysi.

Í dag kenndi ég fullorðnu fólki að elda í fyrsta skipti (ég að kenna, ekki þau að elda) og það var alveg ógisslega skemmtilegt!
Massa karakterar í safninu og það heppnaðist allt frábærlega nema 2 brauð urðu aðeins of sölt!
Það verður áhugavert að sjá hvernig mæting og viðmót verður næstu 7 vikurnar hjá "óskabörnunum" mínum en þetta námskeið er í 8 vikur ;)

Ætli mar verði mjór af að éta ekkert?

Góðan helv. daginn

Opnaði augun um sex.
Leið fáránlega illa.
Eins og ég hefði ekkert sofið.
Þýðir ekkert að reyna að sofa.
Næ ekki andanum af vanlíðan og löngun í sígarettu.
Er svo pirruð, sár, svekkt, örg, aum og ónýt að ég vildi að ég gæti skotið mér með rakettu til hvergilands og haldið til þar.
En ég neyðist til að vera innan um fólk því ég vinn með fólki!

Við alla sem ekki reykja hef ég eitt að segja. Sleppið þessu helvítis helvíti alveg. Frá því að þið takið fyrsta smókinn eyðileggur sígarettan líf ykkar algjörlega SAMA ÞÓTT ÞIÐ HÆTTIÐ!.

H. h. H. h. H. URRRRRRRRRRRRRRRRRRRRRRRRRRRRRRRRRRRR

fimmtudagur, 27. ágúst 2009

Annað fólk!

gerir mig glaða!
Eins og þessi elska sem kennir með mér.
Hún var búin að setja kaffi á vélina og vatnið í "haddna" dótið sem vatnið er sett í þegar maður lagar kaffi og líma gulan miða á "bara ýta á takkann"!!!

Ég ýtti og fékk ilmandi, sterkt og gott kaffi og tár í augun yfir gæskunni!


Það var ekki fyrr en töluvert seinna um daginn sem ég varð pirruð og ofbeldishneygðin rauk upp úr öllu valdi (sjá fyrri færslu)!

SUMT FÓLK!

Sumt fólk gerir mig brjálaða!
Fólk sem er svo upptekið af því að hafa einhvern tíma gert eitthvað sem því fannst ekki sérlega erfitt og piffar og puffar yfir þeim sem finnst eitthvað mál að gera það sama!

Fólkinu (sérstaklega helvítis kéllingartuðrum) sem hlussa út úr sér með yfirlætistón "hva! þetta er nú ekkert mál"

Lenti í svona helvítis kellingarpakki í dag sem fluðraði út úr sér, af eindæma kirtlakreistandi besserwissera, ég er best og veit allt og get allt best - betur - og langmest hroka og drullumallstón !"það er ekkert mál að hætta að reykja"!!!

(ég gubba næstum við að rifja upp tóninn og svipinn)

Ég hef gert margt og lent í mörgu um æfina sem mér fannst ekkert ægilegt mál sem öðru fólki hefði jafnvel þótt óyfirstíganlegt eða ógerlegt.

Ég er ekki sú manneskja sem geri ráð fyrir því að þótt ég hafi auðveldlega getað dílað við eitthvað erfitt eða framkvæmt einhver stórvirki að þá eigi sama við um alla.

Við erum jú öll fólk og allt fólk er mannlegt og engum líður eins.

Ég myndi aldrei óvirða aðra manneskju með því að TROÐA minni upplifun á einhverju upp á hana eða hann sem einu réttu eða mögulegu upplifuninni.

Eða sýna viðkomandi aðila þá óvirðingu að hrauna yfir hann/hana þegar viðkomandi tjáir sig um eitthvað sem því/þeim/henni/honum finnst erfitt, með tilsvarinu (og með attitjúdi takk) "hvað, þetta er ekkert mál"!

URRRRRR BARASTA!

Drullist til að halda því fyrir ykkur hversu auðvelt ykkur fannst að hætta að reykja!

Mér finnst til dæmis skítlétt að skipuleggja og elda veislu ofan í 200 manns en það er ekki þar með sagt að mér finnist að það ætti öllum að finnast það skítlétt!

Mér finnst sumt fólk ekki fallegt að innan!

föstudagur, 21. ágúst 2009

Grummmmpf










ég er í fýlu með bólu á túr!








Reyklaus!

miðvikudagur, 19. ágúst 2009

Púffff

Það er kalt
Það er blautt
Það er rautt
Mig langar djöfullega í sígarettu

þriðjudagur, 18. ágúst 2009

TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ....

GIRMA MÍN!
;)
Hlakka til að heyra í þér þegar þú kemur heim!
Njóttu dagsins!
Knús og klemm!

Lífið er svo spennandi!

Ég fékk símtal.
Boðið að koma að ákveðnu verkefni.
Finnst það alveg óheyrilega spennandi.
Þetta gerist af og til og frekar reglulega í lífi mínu.
Að eitthvað ákaflega áhugavert kemur til mín og ég er svoooooo glöð yfir því!
Jey!
Jibbí!
Jahú!
;)

mánudagur, 17. ágúst 2009

1. vinnudagurinn

Margar spurningar sem þarf að fá svör við.
Verður vonandi árangursríkur dagur.

sunnudagur, 16. ágúst 2009

P.s.

Þú mátt gera það sama fyrir bifvélavirkjann!
Kv.
Nördinn

Kæri Guð þetta er ...

nördinn!
Viltu vera svo góður að láta mig hætta að þrá sígarettuna aðra hverja mínútu dagsins.
Ég skal hætta að bölva, vera góð við dýr og menn, brosa allan sólarhringinn og vera ægilega ægilega góð!
Kv.
Nördinn!

MÓTÓHÓL!

Ótrúlega krúttið, ömmustrákurinn minn gisti í nótt.
Hann fékk smápakka með Legó löggumótorhjóli þegar hann kom.
Mikil gleði!
Við fórum inn að lesa Latabæ um ellefu og hann sofnaði á núll komma fimm. Á mínum kodda. Fannst pardusmunstrið flottara en myndin á sínum kodda sem hann var með með sér.
Svaf eins og engill, opnaði svo augun klukkan átta, leit á bifvélavirkjann og tilkynnti "Lita" Hefur greinilega verið að dreyma.
Vaknaði betur, sneri sér að mér, brosti og sagði "MÓTÓHÓL!"
Við erum svo búin að mótóhólast, fótboltast, körfuboltast og spila og syngja á hljóðfærasafnið í körfunni.
Það er með eindæmum hvað þessi drengur er glaðlyndur og þægilegur alltaf hreint.
Pabbi hans var svona líka.

Bifvélavirkinn segir að hann hrjóti eins og amma sín!
Furðulega há hljóð sem komu úr þessum litla búk þar sem hann lá steinsofandi í miðjunni.
;)

laugardagur, 15. ágúst 2009

Á að vera að....

að klára grein fyrir Húsfreyjuna.
EN heilinn er upptekin við að ÞRÁ langan hvítan staut með glóð á endanum.
Engin einbeiting, ekkert hugarflug annað en að sjá fyrir mér þennan hvíta staut milli fingra minna, glóðina lifna og reykinn leggjast í kringum mig.
Ég sé fyrir mér RISA sígarettur á stærð við meðalsendibíl!
Ég sem elska að lesa og týna mér í sjónvarpsglápi hef eirð í hvorugt.
En mér líkar ágætlega að þrífa, þvo skápa, loft, veggi, glugga, gólf og bara eiginlega allt sem fyrir mér verður.
Það er ekki mikið eftir óþrifið á heimilinu og ég sé orðið fram á að þurfa að færa út kvíarnar inn á annarra heimili ef þetta ástand fer ekki að skána.

Ég held að besta forvörn allra tíma í baráttu gegn reykingum gæti falist í að búa til stutta, mjög skarpa og vel klippta heimildamynd um nokkra einstaklinga á misjöfnum aldri í því ferli að hætta að reykja.
The pain, pirringurinn, sorgin, söknuðurinn og örvæntingin.
Svo texti "**** byrjaði að reykja í fikti *** ára" Vilt þú lenda í þessu?"
Ekki BYRJA og ef þú ert nýbyrjuð (aður) hættu þá strax!!

föstudagur, 14. ágúst 2009

Örvænting á undanhaldi!

Svaf eins og steinn! Jibbbbbbý!
Kaffibolli og jórturgúmmí björguðu nikótínþörf morgunsins án þess að örvæntingin tæki yfir.
Stundatafla bifvélavirkjans er spennandi og ég á eftir að leggjast yfir bækurnar hans í örverufræði og næringarfræði.
Mig langar líka í nám!
Framhaldsskólakennarinn ætlar að læra ítölsku með mér í vetur og ég verð vonandi fær um að nota mjög einfaldar setningar þegar ég fer, reyklaus of kors, til Brindisi á Ítalíu í nóvember ;)
Sólin skín með köflum svo ég stefni að því að ná smá sólbaði í dag, smá eldhúsþrif í kvöld og svo ætlum við að skoða bændamarkað frú Laugu í Laugarnesinu í þeirri von að hægt sé að fá þar bláskel frá Hrísey!
Nommnommnommm!

Já og eina setningin í ítölsku sem ég kann "Catso fai" (kannski vitlaust stafsett en þetta er blótsyrði og bein þýðing "TYPPIÐ ÞITT/MITT"

Þeir sletta........

fimmtudagur, 13. ágúst 2009

Lots of time!

Ég er búin að reikna það út að ég hef eytt sirka 2 klst. í að sinna reykingum á dag.
Sem sagt á frídögum.
Nú hef ég FÁRÁNLEGA mikinn tíma.

Dagurinn í dag fór reyndar í eintóma steypu!
Svefngalsinn var orðinn svo mikill að ég hefði "EISAÐ" "fyndnasta mann Íslands"
Meira að segja Guddi hló og hló!
Þegar við fórum yfir besta og versta dagsins yfir Akrnsísku kjötfarsi með fagurgrænu ísslensku hvítkáli sagði bifvélavirkinn að svefngalsinn í mér hefði verið toppur dagsins hjá honum!
Það er ekki slæmt að týna sér stundarkorn í flissi og fíflagangi meðan hörmungarnar ganga yfir!

Sofnaði reyndar í 2 tíma. Fékk sys í kaffi og fílaði það, mig langar nefnilega alls ekki að hafa fólk nálægt mér þessa dagana. Nema örfáa útvalda sem eru nægilega ruglaðir fyrir steypustuðið sem er á mér.

Hey!!!! Við bifvélavirkinn tókumum part af eldhúsinu og þrifum í ræmur! Allt að verða komið í toppreglu, tandurhreint og fansí í íbúðinni!
Lovitt!
Hann skipti líka um bremsuklossa fyrir stóra strákinn minn og hitti ömmustrákinn sem þurfti mikið að spjalla við hann. Öfunda hann, ég lá heima í móki, örmagna, á róandi!

Hell að ég gangi í gegnum þennan vibba aftur! This is for good and it will last!

Vona samt að þetta verði auðveldara einhverntíma í náinni framtíð.

Still no sleep!

Life is hell!
Ég þrauka það er ekki spurning. Ég mun aldrei taka smók aftur en ég gæt hinsvegar endað á geðvistun sem sækó killer!
Pirringurinn ólgar og sýður.
Ég rugla, blæs, fnæsi og æði um íbúðina með úfið hár ósofin í 2 f. sólarhringa!
Blundaði í 35 mínútur klukkan rúmlega sjö í morgun!
Hef áhyggjur af heimilisfræðinni í vetur en það er ekkert nýtt. Málin eru alltaf rather shaky í upphafi skólaárs en eftir 2ja-3ja vikna ströggl hefur þetta yfirleitt orðið nokkurn veginn ók!
Viðtekin hefði síðustu tíu árin svo no surprises.
Mun samt örugglega ganga betur að koma þessu öllu á koppinn ef mér tekst að sofa eitthvað!
Farin að þrífa borðkrókinn!

Sumarferðalagið og nokkur orð um þann gjörning að hætta að reykja!

Ég fór upp í sveit á laugardaginn.
Alla leið í Reykjaskóg í sumarbústað með heitum potti og gufu ífylltum einu stykki vegagerðarmanni, framhaldsskólakennara og afkvæmum þeirra.
Bifvélavirkinn var með mér.
Við gistum í fellihýsinu og komum ekki heim fyrr en á miðvikudagskvöldi, rétt til að ná Britains Next top model! MY favourite menningarþáttur á my favourite TV channel!

Ég neitaði að sofa fyrir innan (lesist ytri/útbrún fellihýsis), stífnaði upp af skelfingu við að húka þar því ég sá og hreinlega FANN hýsið sporðreisast við minnstu hreyfingu. Hefði það gerst hefði fellihýsi vina minna skemmst og um leið KRAMIÐ nýstandsettu fínu toyotu bifvélavirkjans (og mína)!

Það var soldið gaman í þessari ferð svona fyrir utan fj. svefnraunirnar.......prinsessan á bauninni getur helst bara sofið heima í sínu ýkt mjúka, upphitaða, risavaxna king size amríska rúmi!

Við spiluðum hættuspilið af grimmd, öll nema vegagerðarmaðurinn sem átti ógurlega bágt með að vera VONDUR! Skinnið, hann er svo góður í sér að það er raun að pína hann í svona kvikindislegt spil. Í hvert sinn sem hann NEYDDIST til að beita örlagaspjaldi í slæmum tilgangi á einhvern (hann notaði þau yfirleitt til að hjálpa) baðst hann innilega afsökunar og engdist allur!
Við hin vorum öll grimm og glöð yfir grimmdinni!

Við horfðum á og ræddum um ákaflega efnismikla ammrítska og bretska afþreyingu fyrir "konur" að sögn karlrembu númer eitt (bifvélavirkinn) svona eins og The bachelorette og Britains next topmodel en tókum svo smá skammta af kjaftæði frá Penn og Teller inn á milli til. að bifvélavirkinn missti ekki meðvitund af væmni.

Við átum, fórum á bændamarkaði, lágum í pottinum, héngum í gufunni, hentumst í sólabað þegar færi gafst og átum svo einn meira.

Gullstelpan og orðsnillingurinn áttu afspyrnu skemmtilegar syrpur. Þau eru 11 og 14 ára og ófeimin og áhugasöm um ýmsa hluti og málefni.

Ég fékk óteljandi hlátursköst og þau tvö ekki færri í þessu spjalli okkar sem var svona viðloðandi í gangi þá 5 daga sem við eyddum með þeim í bústaðnum.
Lengst og best var þó spjallið sem við áttum á síðasta degi okkar í bústaðnum þegar litlu skinnin voru skilin eftir óvarin í félagsskap mínum í marga tíma.
Við lágum í sólinni og því miður er eiginlega ekki prenthæft það snjallasta og fyndnasta en til að tryggja að ég gleymi því ekki snerist það um fjölskylduhagi mína, hvernig þeir eru tilkomnir og mögulega tengingu þeirra við íturfagran líkamsvöxt minn *óviðráðanlegt fliss*!

Þau, alin upp af báðum (ákaflega ástríkum og samheldnum, nánast laus við alla vafasama hegðun) foreldrum, í sameiningu, spurðu mikið um "mennina mína".
Orðsnillingurinn vildi mest vita hvað hefði eiginlega verið að þeim öllum en Gullstelpan vildi vita hver hefði verið sætastur!
Önnur málefni sem bar á góma voru td. Fellihýsi sem eru EKKI hjálpartæki ástarlífsins (tek fram að þessi þáttur umræðunnar tengdist á engan hátt neinu ósæmilegu framferði mínu eða minna), Durex, klósettpappír, vaxtarlag, frekja, uppeldishættir og fleira skemmtilegt og um margt óvanalegt umræðuefni fyrir svona ungt fólk!


Við bifvélavirkinn hættum að reykja í þessari ferð og líðanin var með köflum óbærileg!ÓBÆRILEG; HRYLLILEG; SKELFILEG: VOND; FERLEG; SVAKALEG;ÖMURLEG; ÁIIIIIIIIIII.................. og er enn en við þraukum svona rétt barely!

"viltu knús" spurði Orðsnillingurinn á degi 1 og rétti út hlýju armana sína og fékk eitrað hvæs í staðinn! Ég bað hann strax fyrirgefningar og lofaði að vera ekki vond við hann eða meiða hann alvarlega í hættuspilinu sem við vorum að starta! "Will do u no harm"!!!
"mentally too" spurði hann, greinlega ekki viss um að mér væri alveg treystandi í þessum erfiðu kringumstæðum.

Hann sagði reyndar að það væri alveg frábært að fá að hafa okkur svona (lesist mig, bifvélavirkinn var prúður, það var ég sem reif í hár mitt og skegg (ef ég hefði það), hvæsti og fnæsti) því nú fengi hann bæði að kynnast okkur sem VENJULEGU fólki og líka taugahrúgum og vitfirringum!

HAHAHHAHAHAHHAHHAH

Klukkan er hálfsex að morgni og ég hef lítið sofið í 2 sólarhringa svo vitfirringur á ekki svo illa við!
Svona er að hætta að reykja eftir non stop 31 árs reykingar!

Elskulegu vinir, takk fyrir alveg frábæra daga og ótrúlega magnaðar samræður! Þið eruð svo miklir snillingar að það ætti að framleiða stand up comedian þætti með ykkur tveim!
Ég myndi amk. pissa í mig af hlátri!
Sjáumst fljótlega aftur!

fimmtudagur, 6. ágúst 2009

Gulur 29 29!

Við grilluðum og spiluðum við frumburðinn, frúna hans og ömmustrák á laugardagskvöldið!
Ömmustrákur tók virkan þátt í hættuspilinu.
Hann kastaði teningunum fyrir foreldra sína og hrópaði é e gulurrr é e gulurr 29 29 hástöfum.
Hann var mjög leiður þegar hann var settur í háttinn í miðri spilamennsku.
Kom fram um morguninn galvaskur og tilkynnti "ég spila, ég spila" og var mjög svekktur þegar hann sá að spilafélagarnir voru horfnir á braut.
Hann var svo með afmælispartí í gær.
Sviðaveisla með meiru eins og siður er orðinn í öllum hans veislum!
Almennilegt!

föstudagur, 31. júlí 2009

Það er sól!

Það er föstudagur!
Það er sól!
Bifvélavirkinn er búinn að vinna klukkan fjögur!
Það verður grillað í góða veðrinu í kvöld! Svínahnakkinn er að marinerast í Mama Sita´s barbecuesósu!
Ég er í fríi!
Ég er með geggjaðar bækur til að lesa! Náði í 12 stykki á skiptimarkaðnum í gær og er bara búin með eina!
Ég er í brjálæðislega góðu skapi og ætla að njóta dagsins í ræmur!
Farin út!
Lifið heil með bros á vör!

fimmtudagur, 30. júlí 2009

Bæjarferð, bækur og tilveran!

Ég er hálfgerður sveitavargur hérna í Grafarvoginum.
Það þykir til tíðinda ef ég fer út fyrir voginn enda geri ég það eins sjaldan og hægt er og ekki nema eiga brýn uppsöfnuð erindi.
Í dag þarf bifvélavirkinn í miðbæinn í myndatökur svo ég ætla að nota ferðina og sinna erindum.
Brýnum!
Ég er nefnilega búin með allar kiljurnar sem ég fékk á skiptimarkaðnum í Eymundsson og þarf að skipta út aftur.
Sumar voru betri en aðrar og bókin "petit anglaise" sem ég hafði séð einhverja tala um á netinu sem ómótstæðilega olli sérstökum vonbrigðum.
Hún er um konu í París sem lendir í ástarsambandi og skilnaði.
Konan er svo leiðinleg að ég skil ekki hvernig hún komst á séns yfirleitt!
Mæli alls ekki með þessari kellingu, hvorki sem kærustu né höfundi!

Auðnin eftir Yrsu var hinsvegar fín og ýmsir aðrir krimmar sem ég sporðrenndi á dagparti.

Skyggður máni eftir Seabold fannst mér hinsvegar full þunglyndisleg lýsing á eymdarlegri móður/dótturflækju þar sem dóttir hefur eytt ævinni í bilað samband við móður sína og endar ævina föst í sömu flækju!

Þoli ekki þegar fólk er getulaust um að taka stjórn á eigin lífi þrátt fyrir erfiða og bilaða foreldra og brotna barnæsku!
Það kemur sá tími í lífi allra að hafa val um að móta sitt eigið líf eða eyða því áfram í fársjúkt fjölskyldusamband sem aldrei skilar neinni vellíðan.
Svolítið eins og hjá alkólista sem ákveður að slíta vonlausu og niðurbrjótandi sambandi sínu við flöskuna!
Það er ekkert auðvelt en það er hægt!

laugardagur, 25. júlí 2009

Ruslatunnur og rómans ;)

Doktorinn var hjá mér í gærkvöldi og við horfðum á "The Notebook".
Hefur lengi verið á plani að horfa á hana saman en okkur tókst ekki að finna tíma fyrr.
Yndisleg mynd og við snöktum báðar örlítið.


Bifvélavirkinn er búinn að lofa að segja mér sögur af okkur ef ég gleymi öllu í ellinni.
Sagan byrjar á ruslatunnunum hérna úti!
Svo að ef sagan virkar ekki þá mun ég líklega halda að hann sé ruslakall hverfisins!

sunnudagur, 19. júlí 2009

Unglingar eru líka krútt!

Framhaldsskólakennarinn, vegagerðarmaðurinn og 2 yngstu afkvæmi þeirra voru hjá okkur í gær.


Við elduðum saman kebab bollur á teini borin fram í pítubrauðum með jógúrtsósu, chilisósu og grænmeti.


Við borðuðum úti í garði því veðrið var svo gott. Reyndar var farið að kólna töluvert þegar við borðuðum svo framhaldsskólakennarinn fékk magnaða gæsahúð og leit út eins og krókódíll í lok máltíðar.


Orðsnillingurinn og gullstelpan eru einhver þau yndislegustu börn sem ég þekki.
Ég og mínir hafa eytt áramótunum með þessum vinum mínum síðustu 10 árin eða svo.

Síðustu áramótum eyddu þau reyndar í Bandaríkjunum á heimaslóðum framhaldsskólakennarans.

Undir borðum spurði Orðsnillingurinn hvort það væri ekki öruggt að við myndum halda áfram með áramótasiðinn núna og bætti svo við alveg innilega skelfdur "erum við nokkuð búin að eyðileggja áramótin með þessu"???
Þetta er að eiga alvöru fjölskyldu!

Ég elska þessa fjölskyldu, einstakt hjartalag þeirra, bjartsýni, hlýjuna og ómælda jákvæðnina sem fylgir þeim alltaf!

Og mun alltaf gera því þau eru jú fjölskyldan mín!

laugardagur, 18. júlí 2009

Homeblest!

Við bifvélavirkinn vorum að rabba saman snemma í morgun.

"vei, það er sól í dag líka" sagði ég ánægð með tilveruna og benti út um gluggann þar sem sólin skein af ákafa!

"sko, þú ert orðin svakaleg" sagði hann og horfði einkennilega á mig. " Í gær varstu nánast jöfn allstaðar en núna ertu eiginlega eins og *hik* HOMEBLEST"!!!

Ég sprakk úr hlátri!

Það er samt nokkuð til í þessu, undir handleggjunum er ég nánast hvít en ofan á eru þeir dökkrauðbrúnir!

Ég er núna að reyna að finna út hvernig ég get synt, hjólað og legið í sólbaði með handleggina öfuga svo ég geti orðið eins og sagt er um homeblest "best báðum megin"!

föstudagur, 17. júlí 2009

Letikast!

Ég er í algjöru letikasti!
Alskýjað svo ég hangi inni, þvælist um á netinu, les, blaðra í símann og er bara rosalega dugleg við að gera ekki neitt!
Enda kannski bara gott að það er ekki sól og sund á dagskránni í dag því ég er ansi vel grilluð eftir gærdaginn!
Varð arfahneyksluð í gær þegar framhaldsskólakennarinn lýsti því yfir á fjórða klukkutímanum í Álftaneslaug að hún væri búin að fá nóg og farin upp úr!
ÉG var sko ekki tilbúin að yfirgefa sundlaugina og sólina þótt ég væri eldrauð og bökuð eins og örlítið ofbakað brauð í ofni!
Læknaneminn minn er að koma í mat í kvöld og við ætlum að kúra okkur í sófanum og horfa á "The Notebook". Hlakka mikið til að fá sætu og kláru stelpuna mína til mín og gefa henni grimmiti að eta!

fimmtudagur, 16. júlí 2009

Og sólin skín ;)

Endalaust sólskin og ég er alsæl!
Fékk pakka frá USA í vikunni frá móður framhaldsskólakennarans og er very well dressed now!
Eyddi gærdeginum í sundi með framhaldsskólakennaranum og grísunum hennar, gullstelpunni og orðsnillingnum.
Ég og gullstelpan syntum í gríð og erg og bárum svo saman ferðafjöldann í pottinum.
"ég synti sko 16 ferðir og ætla 14 í viðbót" tilkynnti ég gullstelpunni hróðug!
"voru það 16 framogtilbakaferðir eða 16 FRAMMMMMMMM OG TILBAAAAAAAAAKA ferðir?" spurði orðsnillingurinn.
Málið er sko að framogtilbakaferðir eru einfaldar ferðir eða 16 my style og FRAMMMMMMM OG TILBAAAAAAAAKA ferðir eru tvöfaldar ferðir eða 8 my style!
Munurinn liggur í framburðinum og þetta fannst orðsnillingnum nú frekar aulalegt að við gætum ekki skilið án skýringa!
Einstaklega skemmtilegur þessi ungi maður!
Hann tilkynnti mér svo að hann væri alveg til í að koma heim til mín eftir sund í BRUNCH!
Ég held hann hafi töluverða matarást á mér enda ákvað hann ungur að ég ætti að elda matinn í fermingunni og ENGINN ANNAR!
Sem ég að sjálfsögðu gerði fyrir þennan ágæta vin minn sem ég hef þekkt frá því hann kúrði nýfæddur í fangi móður sinnar þegar ég mætti til hennar í fyrsta sinn, óboðin (ja nema af dóttur minni) í kaffi því hún "reykti"!!
Við erum samt báðar í því að hætta að reykja ;)
Og, sólin skín í dag líka og á dagskrá er önnur sundferð og nú í nýju laugina á Álftanesi!

mánudagur, 13. júlí 2009

A taste of Europe og geggjuð sólarhelgi!

Fékk netpóst á föstudag um að verkefnið "A taste of Europe" hefði fengið samþykki frá Alþjóðaskrifstofunni um styrk.
Næstu 2 árin verð ég þá töluvert á flakki.
Englendingar, hollendingar, ítalir og Íslendingarnir eru samþykktir, við bíðum eftir Írlandi og færeyingum en það mun örugglega ganga.
Eftir að þau 2 ár sem þessi lönd starfa að matar-menningar-sögu projektinu eru liðin ætla ég að sækja um styrk til Evrópusambandsins og vonandi halda verkefninu áfram. Það fer eftir hversu vel gengur að keyra prógrammið þessi 2 ár sem komið er samþykki fyrir.
Bara spennandi enda var ég svo heppin að fá algjörlega frábæra einstaklinga með mér í þetta!

Helgin var mögnuð! Sólin skein non stop og við bifvélavirkinn eyddum laugardeginum í sólbaði í garðinum með nágrönnunum. Húsfélagið bauð upp á grillaða hammara um miðjan daginn og um kvöldið horfðum við svo á Borat og City of Amber.

Sunnudagurinn tók á móti okkur með steikjandi sól klukkan SJÖ um morguninn!!
Magga samkennari og bróðir hennar komu í sólbað, strípalingurinn, Jón Þór töffarinn litli og foreldrar hans líka og þau tóku með sér vöfflujárn og allar græjur!
Garðurinn var fullur af dýnum, sólstólum, fótboltum, hálfnöktum kroppum, KÓNGULÓM, púðum og FJÖRI fram undir kvöldmat!!!

Jón Þór var á fullu í fótbolta við bifvélavirkjann sem var berfættur og ákvað að hann vildi prófa þetta tásustripl líka. Reif sig úr skónum og sat svo á rassinum í grasinu með fæturnar lyftar hátt upp. Lagði ekki í að setja litlu tásurnar á grasið. Bifvélavirkinn ætlaði að aðstoða hann við að yfirstíga þessa feimni við grasi og lyfti honum upp til að labba en Jón Þór hélt fótunum beint út í loftið til að sleppa við grasið. Það var alveg kostulegt að fylgjast með þessu!
Í enda dagsins var hann samt farinn að hlaupa um berfættur, smá óöruggur fyrst en svo vappaði hann um á fullu á tásunum!

Við stofugluggan er RISAVAXIN krosskönguló í vefnum sínum. Hún er næstum á stærð við HÚSBÍL!!! Jón Þór labbar að köngulónni, stendur íhugandi og starir á hana smá stund og segir svo hárri ákveðinni röddu "halló!"
það er alveg spurning um að skíra þetta nýja gæludýr heimilisins, vinkonu Jóns Þórs!
Ótrúlega gaman!

vísdómsorð dagsins komu frá Strípó! "ég skil ekki hvers vegna kona vill breytast í karlmann með LÍTIÐ TYPPI"!!!!!!!!!!!!!

Og omg! Guddi litli sem ALDREI tímir að kaupa sér föt sendi sms, "keypti mér skyrtu á 79 evrur" Skýring fylgdi í kjölfarið "hún er frá Lacoste"!
Hjálp!!! þjóðverjar eru að gera drenginn minn að merkjafríki af dýrustu gerð!!!

þriðjudagur, 7. júlí 2009

Til hamingju með afmælið!

Rétt fyrir fimm í morgun hringdi vekjaraklukkan hans Gudda litla í gríð og erg.
Ég staulaðist fram og slökkti á garganinu.
Held að Guddi hafi ekki vaknað við hana þótt hún sé hávær.
Þegar ég skreið aftur upp í rúm fékk ég hlýtt og innilegt bjarnarfaðmlag frá mjög svefndrukknum bifvélavirkja sem með ákaflega hlýrri og ástríkri röddu sagði "Til hamingju með afmælið ástin mín"!!
Við fengum bæði svæsið hláturskast!
Hann æddi svo hálfa leið á fætur þangað til hann áttaði sig á því að klukkan var bara FIMM!
Mín beið svo sms þegar ég vaknaði rúmlega átta.
"ég er að fara í morgunmat" Frá Gudda the Deutchsman ;)

sunnudagur, 5. júlí 2009

Einn sólardagur á viku er skammturinn sunnanlands í sumar!

Ég fylgist mjög vel með www.vedur.is þessa dagana.
Í gær átti að byrja að sjást til sólar á þriðjudaginn og sólin átti svo að stigmagnast fram eftir viku og veðrið að halda áfram í sama dúr fram yfir helgina. Hitinn á landinu átti að vera mestur hérna sunnanlands og ég hlakkaði þvílík ósköp til!
En í dag hefur þetta breyst. Það á að sjást til sólar stundarkorn á morgun og svo á að rigna fram að helgi og jafnvel lengur!
Hverslags eiginlega rugl er þetta!
Ég fór í smá aðgerð upp á Akranes. Á spítala sem er mannlegur starfsandi á og frábærlega komið fram við sjúklinga. Það var svo hringt í mig daginn eftir til að fylgjast með því að ég væri nú ekkert að vera með nein læti.
Ég má ekki fara í sund og ekki rope yoga svo göngutúrar, léttir hjólatúrar og sólböð eru það eina sem ég má stunda af viti og ég ætlaði þvílíkt að nota mér þessa spáðu sólardaga til að baka mig í nýja sólbekknum mínum!
Sólbaðsdagar hafa verið fjórir alls síðan ég byrjaði í sumarfríinu! FJÓRIR!!! og ég hef sko verið í fríi síðan 13. júní!!! Það gerir rétt rúmlega einn sólardagur á viku!
Argasta!

sunnudagur, 28. júní 2009

Lærislaus sunnudagur og gífurleg ást!

Það er sunnudagur og ég tók klst í rope yoga bekknum í morgun. Hjólaði svo í sund og úfff, það er mun erfiðara að hjóla en að labba.
Ég synti 800 metra og hjólaði svo heim.
Eldrauð í framan og svitinn lak niður andlitið!
"hvað, það er ekkert mál að hjóla" hvein í Gudda. Sæi hann í anda hjóla þessa vegalengd með stórt hlass á vagni á eftir hjólinu og segja svo "ekkert mál að hjóla"¨.

Ást mín á Gudda er að fara með mig. Ég er að deyja úr löngun í læri!
Elska létteldað lambalæri beint úr ofninum sem safinn spýtist úr!
EN nei, GUddi minn elskar Lasagnað mitt jafn mikið og ég elska lærið svo ég bjó til 2faldan skammt af lasagna (báða risastóra) og frysti annað.
Það er sem sagt lærislaus sunnudagur með lasagna og hvítlauksbrauði!
Og ég er að drekkja sorgum mínum yfir lærisskortinum með bjór!
5. bjórnum á þessu ári (var að klára þann fjórða)!
Bjór er góður en læri ekki síðra!
Lifið heil og eldið LÆRI við fyrsta tækifæri!
Jömm!
Skál!

fimmtudagur, 25. júní 2009

Hann á afmæli í dag....

Hann Guddi minn er sautján ára í dag!
Hann fékk uppáhaldsmorgunmatinn sinn áður en hann fór í vinnuna. Amrískar pönnsur, eggjahræru, beikon, bakaðar baunir og ferskan appelsínusafa.
Í kvöld koma svo systkini hans og mágkonur í kaffi ásamt guðsyninum sem er krúnurakaður töffari ;)
Mér tókst í fyrsta skipti síðan í Bárðardal að baka hina fullkomnu marengstertu!!! Kornfleksmarengsinn með súkkulaðikreminu sem Guddi elskar meira en allt annað. Heila skúffu útgáfu, tvöfalda!
Svo er uppáhaldssmurbrauðsterta fjölskyldumeðlima, plain með baunasalati, gúrku, tómötum og eggjum!
Æðislegur dagur og það rignir og rignir.... þoka, súld og kuldi!
En ég hefi fregnað af því að hitabylgja sé væntanleg í Júlí.
Ætla samt ekki að fjárfesta í sólarvörn 20 fyrr en hún er skollin á!
Til hamingju með daginn elsku fallegi drengurinn minn. Það er leitun að jafn yndislegri manneskju og þér :)
Sól í sinni þótt rigni úti ;)

miðvikudagur, 24. júní 2009

Sólarkreppa

Ég veit vel að það er kreppa.

En sólin er farin að taka óþarflega mikinn þátt í henni.

Hlutfall sólardaga hefur lækkað í svipuðu hlutfalli og kaupmáttur heimilanna og það einmitt sumarið sem vér Íslendingar höfum hvað mesta þörf fyrir sólina til að létta okkur lund.

Lúxus sumarfrísins hjá mér eru hjólreiðatúrar, gönguferðir og frítt í sund sem starfsmaður Reykjavíkurborgar. Það er bara svo kalt að gigtin drepur mig ef ég fer út þessa dagana og nýji sólarstóllinn minn sem er stærsta fjárfesting sumarsins liggur ískaldur og ónotaður úti á lóð.

Ég fer með vettlinga og húfu á hjólið!

4 ískaldir dagar í röð og það eru mestar líkur á að amk. næstu 4 verði jafn kaldir.

Möguleiki á smá glætu á morgun og það gæti glitt í sólina augnablik í dag. En það er bara möguleiki, engin vissa!

Max 13 stiga hiti alla daga en það eru sko 19 stig að lágmarki á Akureyrir dag eftir dag!

Ég enda með því að fara á puttanum norður til ömmu þegar Guddi minn fer til Þýskalands!

Það er of dýrt að keyra norður á þessum síðustu og verstu!

Það er líka eiginlega of dýrt að þrífa! Brúsinn af Cilit Bang kostar yfir þúsund kall !

Hreingerningar eru mér dýrt hobbí í sólarleysinu!

Sól óskast snarlega!


p.s. ég kíkti á veður.is just about now og þessi mögulegi sólardagur á morgun, fimmtudag 25. júní, 17 ára afmælisdag Gudda míns ER NÚNA ORÐINN ALSKÝJAÐUR RIGNINGARDAGUR!
Had to be to good to be true!

Fargan!

sunnudagur, 14. júní 2009

Sól og haglél!

Jájá!
vaknaði við sólina á glugganum og flýtti mér á fætur.
Ætlaði út í sólbað!
Þá kom rigning og svo haglél!
Sólbaðið bíður betri tíma!
Framhaldsskólakennarinn og vegagerðarmaðurinn komu í sushi og skyrtertu í gærkvöldi og við spiluðum kana fram eftir nóttu.
Ég fékk rosalega góð spil hvað eftir annað en féll trekk í trekk vegna algjörs getuleysis bifvélavirkjans og vegagerðarmannsins.
Framhaldsskólakennarinn vann vegna frammistöðuskorts karlpeningsins og ég endaði réttu megin við mínusinn en bara rétt svo ;)
Hefni harma minna næst!
Frábært kvöld og ég ætla að eiga frábæran dag þrátt fyrir regn og haglél!

laugardagur, 13. júní 2009

Heimilisfræðinördinn á tíu ára starfsafmæli!

Í gær var síðasti vinnudagurinn fyrir sumarfrí.

Ég hef nú starfað í 10 ár við skólann minn og fékk afhentan RISAstóran blómvönd með ræðuhöldum og tilheyrandi.

Ég byrjaði að kenna heimilisfræði fyrir algjöra tilviljun. Hef alltaf haft mikinn áhuga á matargerð og kennarastarfið hafði líka alltaf heillað mig.

Ég átti eftir rúman mánuð af uppsagnarfresti mínum sem deildarstjóri hjá Félagsþjónustunni og sá auglýst eftir heimilisfræðikennara í Rimaskóla.

"þetta er örugglega rosa skemmtilegt" hugsaði ég með mér og hringdi.

Þeir réðu mig óséða í gegnum síma og ég hef verið þarna síðan.

OG! það hefur verið eins skemmtilegt og ég hélt í upphafi. Nemendur í heimilisfræði í skólanum MÍNUM eru nefnilega alveg ótrúlegir snillingar, hver á sinn hátt.

Ég byrjaði sem leiðbeinandi en í dag er ég með full kennararéttindi og síðasta vetur var ég með SEX kennaranema sem allir eru að læra að verða heimilisfræðinördar ;)


Mér finnst það ætti að gera svona "hall of fame" flís í gólfið á heimilisfræðistofunni þegar ég verð borin þaðan út á börum á hundraðasta árinu!

"hér kenndi heimilisfræðinördinn fram á síðasta dag"


Það má líka hengja upp mynd af mér úfinni í slettóttum fötum með trésleif í hendi því andi minn verður í þessari kennslustofu eins lengi og hún stendur!

úúúúúúúíííííííí og sleifarnar hristast í næstefstu skúffunni til hægri!

mánudagur, 1. júní 2009

Klæjar í nefið!

í síðustu viku fékk ég svaðalegt kvef. Í einn sólarhring og svo var það farið.
En nefið, ó nefið mitt!
Það er flagnað, bólgið og aumt eftir látlausar snýtingar og nú klæjar mig svo í nefið að ef mark er takandi á þeirri kellingabók að kláði í nefi þýði að maður eigi eftir að reiðast illa þá verð ég ofboðslega mikið reið í dag!
Veit bara ekki við hvern ég ætti að verða svona reið því þrátt fyrir bólgið nef er ég í mega góðu skapi, sólin skín og ég borðaði óviðjafnanlega góða skyrtertu í morgunmat með Gudda mínum ;)

sunnudagur, 31. maí 2009

Gleðilega hvítasunnu

Fyrir 30 árum á Hvítasunnudegi fermdist ég.
Ég var frekar nett, 169 cm há ef ég teygði mig og fermingarpilsið mitt var 40 cm í mittið.
í dag er ég 173 cm há og aðeins fleiri cm í mittið ;)
í dag er ég hamingjusamari en ég hef nokkurn tíma verið áður í lífinu að örfáum einstökum atburðum undanskildum.

Þegar rauðhausinn minn kom í heiminn að morgni 10. febrúar 1982. Nú er hann myndarlegur fjölskyldufaðir og áhugamaður um póker, veiðar og eldamennsku.

Þegar yndisfagra stúlkan mín opnaði augun og leit á mig snemma dags 18. ágúst 1988. Nú er hún farin að búa, er að fara að taka svarta beltið í taek wondo og hefur þriðja árið í læknisfræði í haust.

Þegar smágerði unginn minn var lagður í fangið á mér að morgni 25. júní 1992. Hann er ekki sérlega smágerður lengur :) Nú er hann á leið til Þýskalands með 2 skólasystkinum í námsferð á vegum skólans síns og hefur fimmta árið í gítarnámi við Gítarskóla Íslands í haust og fer á annað ár í Borgarholtsskóla á málabraut.

Þegar ég fékk inngöngu í Sálfræði í Háskóla Íslands í maí 1994 og flutti til Reykjavíkur frá Akureyri með þrjú börn, 2ja ára, 6 ára og 12 ára. Nú er ég með BA próf í sálfræði og kennsluréttindi og hef kennt heimilsfræði í Rimaskóla í 10 ár.

Þegar kennsluefni eftir mig var gefið út hjá Námsgagnastofnun í ágúst 2006.

Sú ólýsanlega stund að líta ömmustrákinn fyrsta skipti augum í fangi föðurs síns (rauðhaussins) klst. gamlan þann 3. ágúst 2007.

Þegar ég fékk Fjöreggið, verðlaun matvæla og næringafræðafélags Íslands 16. október 2007 fyrir að vera duglegur heimilisfræðinörd.

Þetta voru allt einstakir atburðir sem einstök sæla og gleði fylgdi.

Í dag eru allir dagar einstakir, friðsælir, hamingjuríkir og svo ótrúlegir að ég brosi hringinn og er alltaf jafn hamingjusöm, glöð og ánægð.

Á mínu daglega hamingjuskýi vappaði ég um í þögninni í morgun og úrbeinaði svínabóg, skar niður lambainnralæri og lagði svo ásamt sveppum í þrjá ólíka kryddlegi.
Það er nefnilega grillveisla með góðum vinum í kvöld á þessu heimilinu.
Svo á að spila Kana og hlægja hátt!
En nú þarf ég að búa til tvöfaldan skammt af skyrtertu með jarðaberjahlaupi og sítrónukeim!
Þetta er yndislegt líf :)

laugardagur, 30. maí 2009

Hahahhahahahahhahahah!

Mér hefur hingað til ekki þótt sérlega gaman að fara með Gudda mínum að versla föt en í dag skemmti ég mér konunglega og hló allan tímann!
Hann og bifvélavirkinn fóru saman inn í alla mátunarklefa, gerðu grín að hverjum öðrum, kommentuðu á hvorn annan og hlógu grimmt á hvors annars kostnað!
Ég og aðrir sem biðu eftir klefunum hlógu jafnmikið. Þeir voru óborganlegir.
Við komum heim ansi mörgum þiðsundköllum fátækari með ansi marga poka!
Vá hvað þeir eru flottir! og það þótt þeir hafi prófað ýmislegt sem orsakaði fáránlegt látbragð og leikræna tilburði mér og öðrum til skemmtunar :)

Nýtt rúm með þingeysku ívafi!

Ég er stoltur eigandi stærsta rúms sem ég (á það reyndar ekki ein) hef átt um tíðina.
Rúmið var keypt í gegnum er.is.
Systir mín fylgdist með fyrir mig og hringdi inn númer sem ég hafði samband við. Ég geystist á staðinn ásamt bifvélavirkjanum og eftir að hafa við bifvélavirkinni höfðum flatmagað í rúminu stutta stund spurði ég seljandann hvort hann væri að norðan.
"Já" var svarið. Þá spurði ég hvort hann væri kannski þingeyingur. Það var einhver sérstök áhersla í röddinni sem passaði eingöngu við þingeyjarsýslu.
Þá fékk ég spurningu á móti "varst þú ekki í Bárðardal"!
Heimurinn er smár á Íslandi. Þetta var þá mætur Bárðdælingur sem mundi eftir mér enda reyndist þessi aðili mér einstaklega vel á þeim tíma sem ég bjó í Bárðardal (í gamla daga sko). Hann reyndist mér aftur vel í þetta skiptið!
Rúmið fyllir núna nánast út í herbergið og það fylgir því einstaklega góð tilfinning að leggjast í rúm með svona skemmtilegan bakgrunn.
Sérkennilegur fiðringur líka því þessi tiltekni Bárðdælingur var og er sá sætasti af öllum Bárðdælingum fyrr og síðar, bæði á sál og líkama!
Úlallalla :) Ég reyndi að setja inn mynd af dýrgripnum en rúmið er of stórt til að passa á bloggið!!!



Síðustu viku voru gleðidagar í unglingadeildinni og í sálu minni eins og alla daga nú orðið. Þessi hamingja sem ríkir í lífi mínu tekur engan endi en bara vex og vex.
Smurningsilmur og blíðu brúnu augun sem ég horfi í alla morgna þegar ég vakna eiga sinn þátt í því.
Það er yndislegt að vera svona hamingjusamur. Tilfinning sem ég hef ekki upplifað í þessu magni síðan ég var ung og óreynd og trúði virkilega á hið góða í heiminum. Trú sem ég týndi í alltof mörg ár en hefur nú snúið til baka af ótrúlegum krafti!
Lífið er æðislegt og nú er þriggja daga frí með grillveislu í góðra vina félagsskap, spilamennska og svo endar fríið með heimsókn frá ömmu minni sem er mesti snillingur í heimi og gala dinner henni til handa.
Hún er áttræður unglingur sem kann að lifa lífinu!
Ég hlakka ferlega til!

mánudagur, 18. maí 2009

Veðursældin ótrúleg

Þriðji dagurinn sem sólin sleikir gluggann eldsnemma!
Eurovision kvöldið var alveg frábært. Ég fæ sæta unglingsdömu lánaða reglulega og hún gisti hjá mér á laugardagskvöldið og tók virkan þátt í dómarastörfum á heimilinu svo við vorum 4 sem fylgdumst með keppninni.
Mest allan tímann, Guddi minn hafði ekki alveg úthald í að fylgjast með allan tímann. Tölvan hans varð nefnilega svo einmana að hann varð aðeins að sinna henni og missti því af Rúmenska laginu og því Breska.
Lögin sem voru stigahæst á heimilinu voru:
Eistland, Ísland, Finnland, Svíþjóð, Grikkland, Malta, Tyrkland og Portúgal.
Þegar Ísland fékk mörg stig og toppbaráttan í algleymi öskruðum við lánsbarnið svo hátt að bifvélavirkinn kvartaði. Við öskruðum enn hærra og hann kvartaði ekkert í restina þegar Jóhanna tók annað sætið!
Ótrúlega gaman.
Það lá töluverð hestalykt yfir vötnum því lánsbarnið og ég eyddum deginum í hesthúsinu hjá vegagerðarmanninum og framhaldsskólakennaranum. Lánsbarnið fór á hestbak og var alveg ótrúlega flott á hestbaki þrátt fyrir að hafa bara einu sinni farið á hestbak áður og það á leikskólaaldri. Þá datt hún af baki og þetta var fyrsta ferðin hennar síðan þá.
Nú er hún hooked!
Já og Guddi hringdi inn stig fyrir Þýskaland. Það hefði verið alveg sama hvað þjóðverjarnir hefðu gert á sviðinu því hann er einstaklega hliðhollur öllu þýsku þessa dagana enda á leið í námsferð til Dusseldorf á vegum Borgarholtsskóla fyrir frábæra frammistöðu í Þýsku í vetur!
Já og annað, alveg gjörsamlega brjálæðislega geggjað og frábært!
Hann fékk 8 og 9 í stærðfræði!
Stærðfræðihæfileikar hans og doktorsnemans eru algjörlega arfur frá föður þeirra.
Ég get ekki pantað pizzu ofan í 20 barna bekkinn minn og pantað réttan fjölda, tel alltaf vitlaust og sama á við með ís. Keypti ísbox með 6 ísum í um daginn, tók fjögur box úr SEM VORU UMFRAM og mætti með 14 stk!
Ég get ekki lagt saman 2 og 2, ég ruglast einhverstaðar á leiðinni, það er alveg bókað.
Þegar ég tel hóp þrisvar fæ ég þrjár mismunandi tölur.
En ég kann að elda og ég reddaði þessu með ísinn!

laugardagur, 16. maí 2009

júróvísjón!




































Ég á mér langa sögu sem mikill júróvisjón fan.
Allt frá þeim tíma þegar júró var sýnt löngu eftir að keppnin var haldin í ríkissjónvarpi sem "lokaði" á fimmtudögum og var svarthvítt!


Ég dansaði og hoppaði og dáðist þvílíkt að flytjendum og tónlistinni!


Það var erfitt að fá mig til að sofna svo hátt uppi var ég eftir að hafa horft á júróið í betri stofunni hennar ömmu.


Framan af árum, meðan börnin mín voru börn, gáfum við hverju lagi atkvæði og spennan á heimilinu var mikil.


Síðustu árin hefur þeim sið að fylgjast með og gefa atkvæði ekki verið verið viðhaldið en nú sit ég og útbý atkvæðalista fyrir mig, gudda og bifvélavirkjann.


það er nefnilega áberandi hvað gamlir siðir sem ég elska eru að rísa upp í tilverunni hjá mér og öll tilveran að gírast niður um leið.
Mér finnst það harla gott mál :)

Og lögin sem mér finnst best eru lag Eistanna, ofboðslega fallegt lag og fallegur flytjandi, Svíþjóð með poppóperulagið og svo Jóhanna með sína mögnuðu rödd. Ég vona að þessum lögum gangi vel og ég veðja á að Is it true verði í topp 5!

föstudagur, 15. maí 2009

HJÁLP!!!

Friðsæld já já einmitt!
Póstaði síðasta bloggi og um leið og ég horfði ánægjulega á afraksturinn flaug randafluga inn um gluggann til mín!
Friðurinn úti!
Farin, þotin, horfin!
Ég er skíthrædd við randaflugur!!

Bloggþörf og fuglasöngur árla dags :)

Ég þurfti að skoða bloggið mitt til að leita að uppskrift um daginn og viti menn. Vaknaði ekki bloggþörfin aftur.
Ég hló nefnilega af og til, flissaði á stundum og brosti út í annað af og til við lesturinn.
Ég er nefnilega töluverður sjálfsdýrkandi :9

Sólin skín í dag og ég heyri fuglasöng, sérstaklega þegar ég sit á salerninu í ró og friði með opinn gluggann. Stundum heyri ég reyndar í nágrönnunum rétt við gluggann, spjalla við vini og vandamenn en oftar er það fuglasöngurinn.
Það er eitthvað sérdeils friðsældarlegt við að heyra fuglasöng við þessi morgunverk og fá svona bernskufíling beint í æð.
Þegar ég var lítil stelpa á Hofsós var þessi dodoooooooooo dodoooooooo fuglasöngur nefnilega alltaf til staðar frá því snemma á vorin og ég elska allt sem tengist Hofsós, besta bæ á Íslandi :)
Það er ekki slæmt að fá þessa sælu bernskuminningu svona beint í æð eldsnemma á morgnana en mikið þætti mér gaman að vita hvaða fugl það er sem syngur svona fallega DoDoooooooo DoDooooooo hér í Grafarvoginum :)