miðvikudagur, 24. september 2008

Photoshop!

Mig vantar að komast á gott námskeið i photoshop!
Þau sem ég hef reynt að skrá mig á hingað til hafa fallið niður vegna ónægrar þátttöku.
Mig vantar fimm aðila sem vilja á námskeið með mér og þá er hægt að keyra námskeiðið.
Anyone?

föstudagur, 19. september 2008

Lítill engill fimm ára í dag

Í dag hefði hún Sigrún Maren englaprinsessa orðið fimm ára gömul.
Ég trúi því að hún sé í heljarpartíi með blöðrum, sápukúlum og gulltertu, dansandi um á gullskóm með dilla dilla í botni.
:)

Lífið er fullt af óvæntum uppákomum

Lífið kemur mér endalaust á óvart þessa dagana.
Ég er umvafin óendanlegri lukku.
Það gerast hlutir sem eru eins og úr ævintýrabókum og ég upplifi og upplifi og brosi, nýt, græt og hlæ.
Það er undarlegt að verða 43 ára og lifa þá drauminn :)

En það besta er að það sýnir svo skýrt að það á aldrei að hætta að láta sig dreyma.

Þá sem dreymir aldrei, þeir sem hætta að trúa á drauminn.
Þeir upplifa aldrei þá mögnuðu tilfinningu þegar hver dagur er eins og að lesa ævintýri.....
....sem endar vel.

Dreymið
upplfið
gleðijst
njótið
og verið til :)

ég elska lífið!

p.s. það sem sýnir kannski best hversu magnað það er að vera heimónörd þessa dagana að ég vann 75 þúsund í happadrætti háskólans og fannst það bara frekar lítið innslag í þá einstaklega yndislegu tilveru það er sem ég lifi í þessa dagana :)

;)

föstudagur, 12. september 2008

I am alive!

Nei, þær eru ekki búnar að éta mig.
Held þær séu dauðar en þori ekki að gá!
Guddi litli er orðinn þýskumælandi framhaldsskólanemi. Eini aðri fjölskyldumeðlimurinn sem talar þýsku er frú Ólafía kaffivél svo þau eiga eftir að mynda náið samband í vetur.
Bifvélavirkinn var settur í að hlýða yfir fyrir munnlegt þýskupróf, ég var ekki viðstödd en skilst að þýskuframburður virkjans hafi verið meira í ætt við Swahili en Deutch ;)
Guddi fékk samt 9.6 á prófinu en það er líklega þessari meðfæddu þýskufærni hans meira að þakka en yfirhlýðninni (getur maður sagt þetta svona?).

Auf wiedersehn!

*þeir sletta skyrinu* :)

fimmtudagur, 21. ágúst 2008

Köngulærnar mínar

Ég sef með varann á mér á næturnar. Mér varð nefnilega á í hreinlætisæðinu, sem helltist yfir mig viku fyrir vinnu, að strádrepa köngulær í hrönnum við gluggaþvott.

Ég veit þær ætla að hefna sín. Það er bara spurning hvenær.

Vefirnir hlaðast upp utan á öllum gluggum og ég sé að hernaðaráætlun helvítis spideranna er að vefja húsið inn í vef og éta svo innihaldið........

MIG og í leiðinni saklausa nágranna mína, köttinn, framhaldsskólanemann, bifvélavirkjann og um það bil hálft tonn af hrossaflugum sem halda til hér ásamt öðrum heimilismeðlimum í friði og spekt.

Það er hættulegt að koma í heimsókn þessa dagana nema hafa flugbeittan hníf í vasanum til að skera sig lausan í neyðartilfelli!
Viltu kaffi væna/væni? ;)


þriðjudagur, 19. ágúst 2008

Voru þeir fullir??

Í heita pottinum á Costa del Yrsufelli áttu sér stað, fyrr í sumar, umræður um bræðurnar frægu, Gísla, Eirík og Helga. "Þeir byggðu hús og gleymdu að setja glugga og reyndu svo að bera sólarljósið inn með húfunum sínum". "Voru þeir fullir?" spurði yngsti unglingurinn í Yrsufellinu um hæl.

Hann hélt að þetta væru aðrir Gíslingar og sér nærri í tíma og rúmi en blessaðir Bakkabræður :)

mánudagur, 19. maí 2008

London ;)

Ég er að fara til London eftir örfáa tíma. Ragna rúsína ætlar að keyra mig út á völl þar sem ég hitti þrjá nemendur úr 10. bekk í Hvaleyrarskóla sem sigruðu kokkakeppni Grunnskóla Íslands í apríl og kennara þeirra.
Seinni partinn í dag borðum við ostrur í Harrods *jömmí* og á morgun verður borðað á Fifteen, veitingastað Jamie Oliver.
Þegar ég ætlaði að pakka niður, alveg á síðasta snúningi, kom í ljós að engar ferðatöskur finnast á heimilinu.
Handfarangurstaskan reddar þessu og ég kaupi svo bara tösku úti ;)
Lifði heil og njótið lífsins, það þýðir ekkert að sitja og gráta horfin tækifæri á elliheimilinu!

fimmtudagur, 15. maí 2008

Sumarið er KOMIÐ!

Ég sver það. Allt að verða fallega grænt og ég orðin fallega rauð ;)
Í gær var nefnilega Costa Del Yrsufell dagur.
Það var eins og það væri komið hásumar og deja vu tilfinningin var ótrúleg. Við sátum úti á palli og grilluðum okkur og feitar býflugur suðuðu í kring.
Prentarinn myndaði býflugur, við lágum eins og klessur, strípalingurinn og kanarískvísan, prentsmiðjan og ég.
Mikið verður geggjað þegar stóri pallurinn verður kominn upp og potturinn í gang.
Þá flytjum við Strípó lögheimilið okkar í Costa Del Yrsufell og tökum bikiníið með ásamt 10 kg lime, hrásykur og sódavatn.
;)
Gleðilegt sumar gott fólk ;)

föstudagur, 9. maí 2008

Víkingar og samræmdu prófs lok :)

Stærðfræði prófið var síðasta prófið af 6 samræmdum og var í gær.
Guddi litli var nokkuð sáttur, það voru nokkur almenn dæmi sem hann skildi lítið í en afgangurinn var víst ekki svo flókinn. Nú er bara að bíða og sjá hvernig pilti tókst til. Hann tók ensku prófið í fyrra og tók svo öll hin núna nema samfélagsfræðina.
Strax eftir prófið var brunað af staða með krakkana í óvissuferð.
Rútan mætti svo með hópinn klukkan sex á Argentínu þar sem þau nutu frábærs kvöldverðar að hætti yfirmatreiðslumeistarans en þá hafði þeim verið skipti í 7 víkingalið með mislitum buffum.
Eftir Argentínu var farið í Heiðmörk.
Þar var hlaupið, sungið, dansað, hlegið, smíðað, egg borin um í skeiðum, kraftarnir reyndir og að lokum keppt í ógeðsdrykkju.
Guddi heldur því fram að ég hafi ætlað að drepa einhvern með ógeðsdrykknum sem ég blandaði en hann var svo hræðilegur að bara tveir keppendur komu honum niður en hinir tveir köstuðu upp.
Guddi sagðist örugglega muna æla í rútunni en hann var fyrst að svæla óþverranum í sig.
Ekki dugði það hóp hans, Terroristunum, til sigurs því bleikur sykur hirti þann titil frekar auðveldlega.
Eitt af því sem víkingahóparnir áttu að gera var að semja á 15 mínútum lag með bakgrunnshljóðum um liðið sitt. Þessir krakkar úr Borgaskóla eru ekkert smá frjó og lifandi. Liðin fjögur gjörsamlega brilleruðu og kom hvert tónlistaratriðið af öðru betur út.
Það er ekkert smá skemmtilegt að fá að vera með svona skemmtilegum krökkum!
Nú eru þau í river rafting í rigningu og seint í kvöld koma þau svo heim eftir paint ball leik, líklega með töluvert af blautum fötum í farteskinu.
En öll sæl og glöð því þetta eru bara þannig börn ;)

fimmtudagur, 8. maí 2008

það verður FJÖR!

Uppáhalds frænkan mín hún Halla babe er í heimsókn á landinu frá Toronto þar sem hún býr ásamt sonum sínum þremur. Þau verða hér fram á sunnudag.
Í gærkvöldi fórum við ásamt einni annarri á Hornið og það var ótrúlega gaman. Rifja upp gamlar minningar (mörg prakkarastrik) og finna hvað við erum alltaf einstaklega nánar um leið og við hittumst.
Í fjölskyldunni minni er nefnilega fullt af góðu fólki en fáir sem ég næ að smella svona við eins og hana Höllu.
Við erum búnar að plana humarát, hvítvín og ýmislegt sprell á laugardagskvöldið og ég hlakka mikið mikið til! Vitandi hversu miklir grallaraspóar við erum báðar efast ég ekki um að það verður kvöld sem verður lengi munað.
Strípalingurinn ætlar að vera guide um næturlífið því það er varla hægt að segja að ég rati um miðbæinn lengur, hvað þá viti hvaða staðir eru skemmtilegir.
Svo varúð á laugardaginn, Nördinn og frænkubeibíið undir leiðsögn Strípó munu mála bæinn rauðann!
Eða, mætið á svæðið og sjáið fjörið óbeislað ;)

þriðjudagur, 6. maí 2008

Hvað verður um dagana eiginlega?

Ég sver að í gær var mars!
Það er einhver sem rænir dögum og heilu vikunum!
Það góða við þetta er samt að þá verður alltaf styttra og styttra þangað til sumarfríið byrjar!
12. júní byrja ég í 2ja mánaða löngu sumarfríi og ég er ekki búin að plana NEITT!
Það er samt ekki mjög líklegt að ég geri ekkert í sumar, ég á eftir að troða mér í einhverja vitleysuna.
Til dæmis núna, í tímaskortinum og brjálæðinu datt mér í hug að skrá mig á þriggja vikna ljósmyndanámskeið! Rétt eins og ég hafi endalausan tíma til að drepa.
Er líka á leið til London með hóp og að fara að skrifa og elda fyrir grillþátt fyrir Húsfreyjuna og þarf því að finna mér tíma til að kaupa mér nýtt grill. Hitt fauk til fjandans í óveðri vetrarins ásamt skjólveggjum, útihúsgögnum og öllu sem Kára tókst að slíta af húsinu!

Got to run!
Lifið og lifið og lifið ....... Á SPRETTI! ;)

þriðjudagur, 29. apríl 2008

Gleðilegt sumar og álfelgur!

Það er komið sumar.
Sólin hefur skinið linnulaust í 3 daga.......minnir mig ;)
Og sumt fólk fer og kaupir sér álfelgur!

Ég er frekar sátt við að ég er ekki felgufólk ;)

Lifið heil og njótið sumarsins léttklædd!

föstudagur, 11. apríl 2008

Dagurinn fyrir D day ;)

Í dag er síðasti undirbúningsdagur fyrir kokkakeppni grunnskóla Íslands.
Á morgun kl.9:30 verður þetta byrjað og vonandi geng ég út úr Mk sæl og sátt kl.14:00.
Ég á eftir að leggja lokahönd á nokkur atriði, senda fréttatilkynningar og sit hér með expresso til að komast almennilega í gang.
Ég er ekki með pro ljósmyndara eins og verið hefur en við skrifstofustjórinn ætlum að leggja saman krafta okkar og beita til þess Canon 400 sem hvorug okkar kann mikið á. Þetta hlýtur að reddast en ég hefði gjarnan viljað fá örnámskeið um birtustjórnun við kaup á vélinni.

Ég fékk svæðanudd heima í sófa í gærkvöldi og tókst að sofa alla nóttina í einum rykk án þess að stressið næði í gegn og rifi mig á fætur um miðja nótt en ég man að í fyrra átti ég mjög erfitt með svefn þessar síðustu nætur fyrir keppni.
Ætli ég sé ekki bara orðin vön þessu álagsástandi.
Um leið og dagskrá lýkur í dag í MK, það er opið hús fyrir alla þátttökuskólana, þarf ég að hitta fermingarbarnaföður í Bónus en á sunnudaginn sé ég um mat ofan í 90 fermingargesti.
Helgin verður sem sagt stórskemmtileg ;)
Krossiði fingur fyrir mig og sendið smá bros og orkustrauma!
Lifið heil!

sunnudagur, 6. apríl 2008

Æði gæði ;)

Helgin er búin að vera algjör frítími.
Við Guddi eyddum laugardeginum í algjörri slökun og pöntuðum svo pizzu frá Rizzo með Árdísi sem kom í heimsókn um kvöldið.
Kvöldið var æðislegt og versnaði ekkert þegar leið á ;)
Merkilegt hvað það er margt skemmtilegt til.
Morguninn var svo ljómandi fínn því homminn og verkalýðsfrömuðurinn mættu með hálft bakarí í morgunkaffi til okkar Gudda og við áttum yndislega stund saman :)
16 skólar hafa skráð sig til keppni í kokkakeppni grunnskóla Íslands á laugardaginn og allt er að verða klárt. Það er athyglisvert að af þessum 16 skólum koma 8 úr sama hverfi. Það er Grafarvogi og Kjalarnesi.
Kraftur í kennurum í þessu hverfi!
Ég hlakka mikið til að ganga frá þessu verkefni, hitta hina kennarana og ekki síst nemendur sem margir hverjir hafa verið duglegir að hafa samband og eru greinilega mjög efnilegir og áhugasamir matreiðslumenn og konur.
Lífið er yndislegt og njótið þess í botn!

fimmtudagur, 3. apríl 2008

Örblogg um bilað fjör ;)

Ég er ekki flutt til Timbuktú í algjört netsambandsleysi.
Það er bara mikið að gera hjá mér ;)
Vinna, vinna, vinna og gífurlega öflugt félagslíf hefur algjörlega komið í veg fyrir að ég eyddi mínútu í blogg. Og þótt ég vilji bæta úr þessu þá er bera ekkert að gerast í mínu lífi sem ég get talað um á opnum vef.
Þetta er sem sagt blogg um ekki neitt!
Þeir sem þekkja mig geta bara fyllt í eyðurnar en mikið ofboðslega er gaman að vera til þessa dagana ;)
Munið svo að lifa lífinu lifandi !

þriðjudagur, 25. mars 2008

Páskafríið búið

Nú er páskafríið að baki og í morgun var starfsdagur.
Ég gafst upp rétt fyrir hádegi. Var með þvílíka Fríðu frænku verki að ég meikaði hvorki að sitja né standa.
Skjálfandi af kulda og helslöpp skreið ég upp í sófann með þykka sæng og 2 íbúfen innbyrðis.
Steinsofnaði yfir criminal minds þætti og svaf eins og steinn til hálfsex.
Ég er ennþá þreytt og slöpp en frænkan er á undanhaldi með sitt vesen!
Hells Kitchen er að byrja og ég ætla sko að fylgjast með þessari seríu sem er víst major skemmtilegt efni fyrir heimónörd eins og mig!
Við Guddi steiktum afang af nautalund frá páskadegi í kvöldmatinn og þúsund bjartar sólir barst mér í pósti í dag svo ég er í góðum málum undir sæng á eftir :9
Lifið heil og njótið hvers dags eins og hann sé sá síðasti!

sunnudagur, 23. mars 2008

Gleðilega páska

Ég vaknaði á undan afkvæmum og faldi páskaeggin samkvæmt pöntun þessara hálffullorðnu unga minn sem neita að vaxa úr grasi og halda hefðum lifandi út í hið óendanlega.
Annað eggið var í leðurpullu sem situr á stofugólfinu og hitt var inni í eldhúsviftunni.
Guddi litli fann eggið sitt þegar hann tók sér smá pásu eftir rúmlega hálftíma leit. Hann kom hoppandi inn í stofu og tók svo sitt hefðbundna tveggja fóta stökk upp á pulluna. Það skrjáfaði í pokanum þegar hann kramdi eggið sem var mitt í fyllingunni á pullunni.
Doktorsneminn var áður búin að strjúka og klappa pulluna en hafði yfirsést eggið.
Leið nú og beið og eftir drykklanga stund og ítarlega rannsókn á öllum vistarverum heimilisins fann doktorinn eggið í viftunni.
Við erum svo búin að liggja uppi í sófa og horfa á Death at a funeral í nýju græjunum, éta páskaegg og grænmeti með ídýfu síðan.
Þetta eru náttfatapáskar en í kvöld ætlum við að borða humar í forrétt, nautalundir í aðalrétt og heita súkkulaðiköku með hvítum súkkulaðibitum í eftirrétt. Spila svo hættuspilið og horfa svo í myrkrinu á The orphanage sem litla systir setti í nýja flakkarann fyrir mig í gær :)
Lifið heil og ekki éta yfir ykkur af páskaeggjum!

laugardagur, 22. mars 2008

Hættulegar tröppur og hættulega fyndið hættuspil!

Lokakvöld blúshátíðar var frábært eins og hin kvöldin tvö. Andrea Gylfa var æði, böndin frábær og Deitra Farr algjörlega yndisleg!

Á eftir var ég bílstjóri fyrir vinina og haldið var í partý til blúsdrottningarinnar þar sem ég og aðrir þurftu að standa í áhættuatriðum til að komast inn.
Blúsdrottingin og spúsi hennar eru að skipta um tröppur og það var bara einn hár og riðandi trékassi í stað tröppu. Kassinn náði sirka miðja vegu upp að hurðinni sem var hátt uppi á húsvegg og eftir að gestum tókst að koma sér upp á kassann tók styrk hendi trommuleikara við og hífði gesti restina ef leiðinni.
Ef engin önnur leið hefði verið út hefðu húsráðendur setið uppi með mig (hefði aldrei þorað sömu leið niður aftur) framyfir páska en það var svo hægt að fara niður í kjallara og komast þar tiltölulega hættulaust út. Ferlega sætt og krúttlegt hús ;)
Framhaldsskólakennarinn var víst í partínu framundir morgun í miklu fjöri en ég kom mér heim í bælið um þrjú leitið.

Í morgun fórum við Guddi litli svo í bílferð á skagann að heimsækja litlu systir með flakkara í farteskinu sem hún er að hlaða á endalausu magni af skemmtiefni fyrir okkur. Við erum í góðum málum með svona tæknifræðing í familíunni ;)

Kvöldið er svo búið að vera stórkostlegt svo ekki sé meira sagt.
Við Guddi minn fórum í mat til Kiddu jesúbarns, litla jesústráksins hennar og Stóra Palla og Strípó og sonur, hennar kvennaljóminn mættu líka. Ég eldaði villisveppasúpu og brauð með trufflukeim, Jesúbarnið gerði hamborgarhrygg með brjálæðislega góðri sósu og Strípó gerði hrikalega góðan toblerone ís. Við átum á okkur gat og byrjuðum svo að spila hættuspilið rétt fyrir átta.

Þvílíkt fjör og þvílík læti! Nú halda allir nágrannar Jesúbarnsins að hún sé dottin í það með stæl. Öskrin í okkur heyrðust örugglega um allt hverfi! Ég NEITA að detta í það AFTUR og HVENÆR KEMST ÉG EIGINLEGA Á VOG!" var hrópað hástöfum reglulega í spilinu. "ÞEGI ÞÚ, ÞÚ ERT SVO FULLUR AÐ ÞÚ VEIST EKKERT HVAÐ ÞÚ ERT AÐ GERA!"

Sumir svindluðu meira en aðrir og bundust svívirðilegum vináttuböndum í spilinu og lögðu allt undir til að hjálpa hverju öðrum og lúskra á hinum (jafnvel eigin fjölskyldumeðlimum) og aðrir FÖLDU stigin sín og höfðu svo sigur fyrir rest!

Hlátursköstin voru ófá og við Jesúbarnið grétum hreinlega af hlátri þegar litla jeúsbarnið lenti á "smáratorgsreitnum" og spurði í sakleysi sínu, "hvað get ég gert á þessum reit?" og Kvennaljóminn hrópaði svarið í æsingi, þrisvar í röð á bilaðri fart án þess að draga andann á milli "þúgeturkeypthvaðsemþúviltþúgeturkeypthvaðsemþúviltþúgeturkeypthvaðsemþúvilt!!!"
-Þótt litlu hafi munað að sum afkvæmi skiptu um heimilisföng og mæður við önnur afkvæmi, vegna svívirðilegra bandalaga út fyrir fjölskyldur, fóru öll börn á réttan stað rétt undir miðnætti eftir að hin lúmska Kidda Jesúbarn hafði náð að sigra með því að fela eina gullstigaplötu undir persónuspjaldinu sínu! Það tók nefnilega enginn eftir því fyrr en það var of seint að hún væri næstum komin með 25 stigin sem þarf til að sigra!

Þetta verður endurtekið og þá verða nánari gætur hafðar á útsmogna Jesúbarninu og gullplötunum hennar!

fimmtudagur, 20. mars 2008

Lífið í nýju ljósi :)

Nú er ég búin að fara á tvö blúskvöld í röð.
EDRÚ!
Og komin að þeirri niðurstöðu að það er meira gaman að upplifa tilveruna bláedrú en í glasi :)
Framhaldsskólakennarinn segir að ég sé ofsalega hress og skemmtileg edrú en það sé samt pínulítið undarlegt að vera með mig í bílstjórahlutverkinu í biluðu stuði.
Enda ekki skrítið. Þetta er í fyrsta skipti í 14 ár sem hún upplifir það!
Kvöldið byrjað á Nordic All Stars bandinu og það var meira en lítið líf og fjör. KK, Östlund, Jolly Jumper, Big Moe og Christo, maðurinn hennar Deitru Farr spiluðu og spiluðu og hoppuðu og hlógu og sungu og voru hrikalega öflugir og litríkir.
KK hoppaði á borðum og sami fílingur og ríkti kvöldið áður hjá Magic Slim var uppvakinn. GEEEEÐVEIKT band!
Svo komu bláir skuggar sem eru ofsalega færir en full mikið djassaðir fyrir minn smekk.
Svo komu aðalstjörnur kvöldsins the Yardbirds.
Góðir, kröftugir og ég sá fyrir mér að prentsmiðurinn og prentsmiðjan hefðu misst sig þarna en ég hefði, þótt þeir væru góðir, viljað fá annan skammt af Magic Slim.
Hinsvegar var ákveðið í gærkvöldi að við framhaldsskólakennarinn vinnum að því ásamt blúsmeistaranum að setja upp hópferð blúsfélagsins á Chicago blúshátíðina 2009 og nú hef ég sko eitthvað að hlakka til því ég fíla algjörlega í tætlur svona rythma, sálarhristandi Chicagostyleblues!

Ég mæli svo eindregið með þessum diski með Magic Slim and the teardrops ef þið þurfið að rífa upp sálartetrið og dilla ykkur í smá fíling! Fjör, fjör og brjálaður fílingur!

Svo er bara meiri blús í kvöld og ég hef trú á að það verði ekki slæmt þar sem Deitra Farr og Andrea eru báðar að syngja og þær eru snillingar ;)

miðvikudagur, 19. mars 2008

Brjáluð gleði!

Eftir setningu blúshátíðar í dag þar sem Ásgeir trommuleikari var valinn blúsmaður ársins spilaði Margrét Guðrúnardóttir og bandið hans pabba. Svaka söngkona og ekki síðri lagahöfundur.
Svo tróðu Jolly Jumper og Big Moe upp og það var alveg sérkapítuli af norrænum blús í ótrúlega skemmtilegri og lifandi útfærslu. Frábærir sprellarar og þvílíkt skemmtilegir tónlistarmenn.
Svo kom að toppi kvöldsins sem varð svo magnaður að það sló allt út sem ég hef upplifað í tónlist.
Ég var gjörsamlega búin að gleyma umhverfinu og brosti eins og alsæll fáráðlingur, bláedrú og dillaði mér í hreinu algleymi!
Þvílíkt band og þvílík endasessjón!!!
Magic Slim and the Teardrops eru svo skemmtilegt og litríkt band að dauður maður myndi brosa og dilla sér.
Í restina voru Deitra Farr (syngjandi), Jolly jumper (munnharpa og syngjandi líka), Dóri Braga (gítar og syngjandi líka) komin öll á sviðið með Magic og tárdropunum og þau tóku lokaatriði sem skilaði mér skælbrosandi og alsælli heim og nú er annar diskurinn með þeim í tækinu og ég brosi ennþá út að eyrum!
Ég hlakka ekkert smá til á morgun en helst vildi ég bara fá sömu flytjendur aftur. Ef næsta kvöld toppar þetta þá ét ég hattinn minn!
Thats´s blues my friends!

þriðjudagur, 18. mars 2008

Iðnaðarmaður í óskilum!

Við Guddi minn erum að þrífa!
Sængurnar hanga úti í viðringu með öllum koddum og þvottavélin gengur á yfirsnúningi.
Ég vona að það sé ekki einhver forspá um bilun í henni að í mig hringdi maður áðan og sagðist vera að koma að laga þvottavélina!
Ég sagði að hún væri nú í fullum gangi, óbiluð og yrði það vonandi áfram.
Sá sem sendi mér þennan viðgerðarmann ætti frekar að senda mér pípara til að koma handklæðaofninum á baðinu upp. Ofninn hefur beðið í kassanum eftir því að komast á vegginn í 2 ár en ég skal koma honum í notkun fyrir sumarið svo ég geti hengt upp bikiní og sundboli eftir endalaus sólböð og sundferðir sem bíða mín í sól og sumaryl!
Áfram með smjörið, við Guddi verðum að halda áfram páskaþrifunum því ég er að fara á setningu blúshátíðar klukkan fimm og þá verður allt að vera spikk og span!
Njótið lífsins!

Elskan hún amma mín

Amma mín kom til okkar í dag og litli ömmustrákurinn minn, langa-langömmustrákurinn hennar kom í heimsókn með foreldrum sínum.
Þau voru svo sæt saman að það var ótrúlegt.
Amma mín er nefnilega ein sú allra fallegasta kona sem ég þekki og líka ein sú besta og skemmtilegasta.
Við horfðum svo saman á Idolið undir teppi í sófanum áður en ég keyrði hana heim til sonar síns þar sem hún gisti í nótt.
Það er nefnilega slegist um hana ömmu þegar hún heimsækir höfuðborgina.
Ammar orðin ansi flink með gemsann sinn og alveg farin að átta sig á að hann er að hringja þegar hringt er í hana.......................... svona um það bil í tíundu hringingu.
Þá byrjar hún að leita í töskunni sinni.
Leita að gleraugnahulstrinu sem hún geymir símann í.
DJÚPU, aflöngu gleraugnahulstri!
Lexía dagsins er, ef þið hringið í hana ömmu mína þá verðið þið að minnsta kosti að láta hringja út einu sinni.
Og haldið símanum svolítið langt frá eyranu því amma svarar HÁTT og snjallt!
;)

laugardagur, 15. mars 2008

Páskafrí :)

Ég er komin í páskafrí í 10 daga!
Var að senda frá mér fullan bíl af tertum og nýbökuðu brauði í fermingu hjá frænda mínum og get nú notið frídaganna að fullu.
Kokkakeppni Rimaskóla er að baki og gekk rosalega vel. Krakkarnir voru frábærir og allir sem komu að keppninni gerðu daginn ógleymanlegan. Dómararnir mínir, þeir Egill, Jón Snorra og Daníel sem fulltrúi Argentínu Steikhúss, ásamt fulltrúum Rimaskóla, Gunna kokki og Helga stjóra, eiga þakkir skilið fyrir að fylgja mér svona ár eftir ár.
Þegar ég las umræðu um nesti barna í skólann áðan á www.er.is poppaði upp minnig um yngsta soninn frá upphafi skólagöngu hans. Það var ekki mötuneyti í skólanum svo krakkarnir þurftu að taka með sér nesti bæði fyrir morgunkaffið og hádegið.
Einn daginn segir kennarinn börnunum að taka upp nestið og spyr svo "eru ekki allir með tvö nesti?" svona til að árétta að nú eigi að nota morgunnestið.
Allir rétta upp hönd nema sonur minn sem situr með sorgarsvip á andlitinu.
Henni fannst nú ekki líklegt að pilturinn væri ekki sæmilega vel útbúinn og spurði hann hvort hann væri ekki með tvö nesti.
"NEI", var svarið, "ég er bara með eitt RISASTÓRT!"
Njótið lífsins!

föstudagur, 7. mars 2008

Hjartalaga rass EÐA KÚLULAGA!

Við strípó eigum okkur uppáhalds umræðuefni þessa dagana.
"þegar við verðum mjóar"
Hún er reyndar tiltölulega mjó mega skutla eins og allir lesendur pappírsfjölmiðla vita en ég á töluvert lengra í land.
EN! Strípó heldur því fram að hún sé með flottari rass en ég "mjóar báðar í samanburðinum" og ég er staðföst í því að minn sé flottari "þegar við verðum báðar rosalega mjóar sem er alveg bak við næsta horn".
Það tilkynnist hér með að eftir 1.5 ár verður rassfegurðarsamkeppni í Borgunum og durgurinn og froskurinn fá hvorugur að sitja í dómarasæti.
Elsti sonurinn hefur hinsvegar lýst því yfir að hann sé mótttækilegur fyrir mútum svo nú einbeiti ég mér að því að vinna hans atkvæði með fádæma dekri og dekstri næsta 1.5 árið!
Strípó er með hjartalaga rass en ég með kúlurass (þegar við erum mjóar altso)
RassPass!

þriðjudagur, 4. mars 2008

Jeg er lidt doven i hovedet!

Ég man aldrei eftir einni einustu auglýsingu í sjónvarpi eða dagblaði þegar Gallup hringir í mig.
Eða yfirleitt.

Ég heyri aldrei textann í lögum í útvarpinu nema orð og orð á stangli.
Ekki nema sitja með hrukkað ennið og einbeita mér algjörlega að því að hlusta.
Þetta þekkja vinir mínir og afkvæmi sem finnst ferlega fyndið hvernig ég kann oftast fyrstu línuna í öllum lögum sem mér finnst skemmtileg og svo ekki orð meir.

Ég get ekki hlustað á veðurfréttir í útvarpinu. Einbeitingin dettur út eftir 0.5 og ég er engu nær um veðrið þótt ég hafi kveikt á útvarpi gagngert til að taka veðrið.

Ég man hinsvegar það sem ég les.
Ef ég man eftir að lesa það.

Ég er gjörsamlega glötuð í að muna afmælisdaga annarra en barnanna minna.

Ég gleymdi að mæta í starfsmannaviðtal í morgun.
Fór að heiman vitandi að ég ætti að mæta í mitt árlega viðtal og gleymdi því á leiðinni í vinnuna.
Sat svo í vinnustofu kennara í tölvu og vann og vann.
Skrifstofustjórinn leitað að mér en ég var víst bak við vegg að ljósrita nýsmíðað, ægilega flott verkefni þegar hún þaut um vinnustofuna að leita. Síminn minn (sem hún hringdi í) var í töskunni á kaffistofunni svo allir aðrir en ég heyrðu prúðuleikaralagið mitt hljóma LENGI!

Fór í kaffi kl.11:00 og sá þá "one missed call" og tautaði, "hva? er einhver í skólanum að reyna að ná í mig, hvaða vitleysa er nú það". Þetta datt ekki inn hjá mér fyrr en ég mætti skrifstofusstjóranum sem spurði mig hvar ég væri eiginlega búin að vera.
Spurning hvort ég haldi vinnunni, sauðurinn sem ég er ;)

Ég man hinsvegar uppskriftir fram í rauðan dauðann í smáatriðum, grömmum og teskeiðum og flest annað sem tengist mat, veitingahúsum, matseðlum og næringafræði.
ÁT!

sunnudagur, 2. mars 2008

Sonur minn þjónninn og vökustaurinn!


Ömmustrákur gisti hjá okkur á föstudagskvöldið.
Ég söng hann í svefn með "dvel ég í draumahöll" úr dýrunum í Hálsaskóli klukkan hálftvö um nóttina. Ruggaði vagninum á fullu og söng HÁTT!!!
Ég held að nágrannarnir hafi haldið að ég væri að syngja í partí en ekki að svæfa lítinn pilt.
Hann svaf svo mjög óvært alla nóttina og það var ansi rangeygð amma sem afhenti hann móður sinni um tíu leitið. Á myndinni er mesta krútt í heimi að borða graut hjá ömmu.

Ég datt svo upp í rúm og svaf þangað til tími var kominn að mæta í Borgaskóla og dekka upp borð fyrir yngsta soninn en bekkurinn hans var með fjáröflunarkvöldverð til að safna fyrir vorferðinni sinni.
Vegagerðarmaðurinn, framhaldsskólakennarinn og börnin þeirra tvö komu með okkur durgnum í matinn og unglingurinn þjónaði okkur til borðs.


Þetta var frábærlega vel heppnað kvöld og ungmennin í 10.EG Borgaskóla stóðu sig frábærlega.


Eitt foreldrasettið eru bæði kokkar og sáu um að útvega hráefni og elda matinn sem var stórkostlega góður og svakalega vel útilátinn.


Eftir mat var fjölskyldustund heima og kepptu strákar á móti stelpum í Trivial. Stelpurnar unnu að sjálfsögðu og það þótt Daníel hinn ungi sýndi fádæma þekkingu í ótrúlegustu spurningum og karlarnir hefðu varla roð við honum í viskunni.
Ótrúlega vel upplýstur ungur maður og sem dæmi má nefna að hann vissi að Tony Blair vildi hitta páfa við lok embættis síns því hann vildi verða kaþólskur.
Þetta vissi enginn nema Daníel og hann er í 7. bekk í grunnskóla takk fyrir!
Á sunnudaginn bakað ég svo perutertuna hennar mömmu milli þess sem ég lagði mig og hélt mig svo í gamaldags sunnudagsstíl með því að gera lærisneiðar í raspi (geri það einu sinni á ári).
Nú á að leggjast undir feld og horfa á hvorki meira né minna en tvær dvd myndir. No reservations og licence to wed.
Sénsinn að ég hafi af að halda mér vakandi yfir þeim báðum.

Árbæjarfamilían mín, takk innilega fyrir yndislega "fjölskyldusamveru" eins og Daníel félagi minn kallaði laugardaginn okkar.

miðvikudagur, 27. febrúar 2008

Súkkulaðisæla!

Jæja, búið að mynda mig og matinn. Held að maturinn hafi myndast betur en ég samt :)
Kakan, Ó mæ! KAKAN!!

Algjör tilraun og ábyggilega ein sú best heppnaða sem ég hef gert.
90 g suðusúkkulaði
80 g smjör
4 msk. sykur
2 egg
3 msk. möndlumjöl (möndlur malaðar í matvinnsluvél)
70 g hvítt súkkulaði grófsaxað
Bræða súkkulaðið og smjörið í potti við vægan hita.
Léttpíska egg og sykur saman.
Blanda öllu varlega og hella í lítil mót (sílíkonmót eru fín, passar í sirka 5-6 svoleiðis) og baka í 170°C heitum ofni í 25 mínútur.
Durgurinn bölvar hástöfum í stofunni. Þetta er svo Dj...... góð kaka ;)

Stanslaust fjör ;)

Í kvöld ætla ég að elda þriggja rétta fiskmáltíð og verður hægt að skoða afraksturinn á síðum 24Stundum, á laugardaginn.
Það verður risahörpuskel á salsabeði í forrétt og ótrúlega einfaldur og góður fiskréttur í aðalrétt og svo heit súkkulaðikaka með hvítum súkkulaðibitum í eftirrétt. Amminamminamm :)
Á morgun ætlar svo Námsgagnastofnun að heimsækja mig og taka myndir því þeir ætla að vera svo frábærir að birta umfjöllun um kokkakeppnina og síðuna á sinni síðu "í dagsins önn". Mér hefur ekki tekist enn að fá netföng allra grunnskóla landsins og liggur á að allir grunnskólar viti af þátttökurétt sínum í keppninni. Þetta framtak námsgagnastofnunar er stórt framlag til þess.

Svo er blúshátíðin framundan og páskafrí og við durgurinn ætlum að mæta á alla tónleikana og meira að segja fara út að borða á skírdag með vegagerðarmanninum og framhaldsskólakennaranum fyrir tónleika.
í sumar mætir svo meistari Clapton og heldur tónleika í Egilshöll og þá mætum við öll á heimilinu. Guddi litli ætlar sko ekki að missa af þessum tónleikum.
Það skal tekið fram að Guddi er nýja viðurnefni yngsta sonarins og er notað í tíma og ótíma af móður hans, honum til algjörrar skelfingar!
Hann verður ekkert svakalega spenntur þegar mamma gamla kemur þjótandi og skrækir á hann "Guddi minn, Guddi litli hennar mömmu, koddu nú og knúsaðu mig". þetta er sko skrækt í sérlega Guddulegum tón sem er einstaklega anti unglingavænn ;)
*hnégghnégghnégg*

þriðjudagur, 26. febrúar 2008

Fimmfalt húrra fyrir Argentínu Steikhúsi!!!

Höfðingjarnir á Argentínu Steikhúsi tóku á móti mér ásamt nemendum mínum í glæsilega veislu í kvöld. Þetta er fjórða árið í röð sem við valhóparnir í heimilsfræði mætum í svona veislu!
Við vorum 63 talsins og maturinn og þjónustan var framúrskarandi á allan hátt.
Ég gekk á milli borða þegar forrétturinn, carameliseruð önd á klettasalatbeði í matshuhisadressingu með grantaeplafræjum hvarf ofan í liðið. Allir voru brosandi og glaðir.
Á eftir fylgdi grilltvenna, lamba og nauta með wok steiktu grænmeti, bakaðri kartöflu og hvítlaukssósu og chimi churri sósu (argentísk steikarsósa).
Heit Valhrona súkkulaðikaka með heimalöguðum ís rak svo lestina og það voru ALLIR algjörlega alsælir!
Nemendur voru spariklæddir og hreint ótrúlega sætir og þjónarnir og matreiðslusnillingarnir á Argentínu eiga óendanlega mikið hrós skilið fyrir hversu höfðinglegir þeir eru við okkur á hverju ári.
Argentína Steikhús mun eiga sérstað í mínu hjarta alla tíð og það er með eindæmum hversu yndislegir starfsmenn safnast að þessum stað.
Þessi staður hefur líka staðið við bakið á kokkakeppninni minni frá upphafi og það af lífi og sál!
Takk, takk, takk, TAkk fyrir mig og mína skælbrosandi og ánægðu nemendur!

mánudagur, 25. febrúar 2008

Slökunardagur :)

Konudagurinn var sæll slökunardagur.
Lingurinn (yfirmaður durgsins) bauð mér út að borða, það var æðislegt.
Svona yfirmenn eru til sóma og allir ættu að taka þá sér til fyrirmyndar ;)
Svo kíkti strípó með froskinn í snittuafganga og litla sys og elsti sonur hennar ásamt kærasta kíktu líka við.
Lokaþátturinn af Batchelornum var æsi spennandi en ég missti af honum á föstudagskvöldið því þá var ég að elda brúðargjöfina hennar Túrillu handa henni og manninum sem hún giftist á brúðkaupsdeginum SÍNUM í desember. Ég gaf HENNI rómó dinner fyrir tvo í brúðargjöf ;)

Durgurinn bauð svo upp á brjálæðislega notalegt heilnudd með olíu og ég var nánast meðvitundarlaus eftir það en hafði samt af að klára að lesa bók (breska ástarsögu) og horfa á myndina 300 eftir það.
mmmm, góðir svona dagar ;9

sunnudagur, 24. febrúar 2008

Lingurinn ;)

Ég var í afmælispartýi í gærkvöldi og fram á nótt.
Flyerinn og bjútíbeibið on the hill voru með partíið og það var skýrt tekið fram að það ættu allir að pilla sér út klukkan 2 því annars kæmi löggan alveg brjáluð.
Um fjögur leitið í nótt rembdist ungi barþjónninn, sem gerir besta gin í tónik í heimi, við að koma fólki í skilning um að nú væri klukkan orðin margt og kominn tími til að koma sér út. Það tókst fyrir rest........... held ég. Það voru nokkrir eftir þegar við "fýlustrumpur" fórum.
Það var alveg ægilega gaman.
Flyerinn fékk ROLLU í afmælisgjöf frá samstarfsfólki sínu og leiðbeiningar um hvernig á að sinna slíkri gersemi. Þetta er sko rennilegasta rolla!
Ég var hinsvegar sjálfri mér samkvæm og gaf afmælisbarninu afsteypu af sjálfum sér.
Besta líkamshlutanum í raunverulegri stærð (þótt sumir efuðust um að málin væru alveg hundrað prósent rétt).
Kidda jesúbarn hefði fílað þessa gjöf eins klámfengin og hún er orðin í seinni tíð!
Til hamingju með afmælið Flyer T_ _ P A _ _ _ G U R!
Það skal sko enginn segja að ég sé með dónaskap á mínu bloggi en Jesúbarnið getur örugglega fyllt í eyðurnar ;)

miðvikudagur, 20. febrúar 2008

Jesúbarnið uppgötvar orðið!

Kidda jesúbarn kom í heimsókn í kvöld.
Hún fékk nokkra góða bolla frá frú Ólafíu, reyndar kannski fullmarga því hún tilkynnti mér upp úr þurru að ég væri rosalega hress og þar af leiðandi örugglega með einhvern geðsjúkdóm sem hún hefði séð allt um í Opruh. Næs eða þannig "rosalega ertu hress, ertu með geðsjúkdóm"?
Svo missti hún sig algjörlega og æpti titrandi af ofsa "píka! píka! píka! PÍKA!!!!!!!"
Þegar ég missti andlitið þá bætti hún um betur og æpti af enn meiri ofsa "ríða! ríða! ríða! RÍÐA!!"
Ég reif upp símann til að hringja eftir sjúkrabíl því þeir sem þekkja jesúbarnið vita að fyrr lægi hún grafin og signuð en hún færi að klæmast í gríð og erg.
Strípalingurinn hringdi í eyrað á mér og heyrði lætin.
Hún datt af stólnum á hinum endanum þegar hún heyrði hrópin og spurði í forundran "hvað gengur eiginlega á?"
Þá er það málið að jesúbarnið hefur verið að horfa á kvennaspjallið á ÍNN stöðinni og þar hafa þessi orð verið til umræðu og raunveruleg merking þeirra. Píka þýðir í orðabók "lítil stúlka" eða "ung stúlka" og ríða þýðir að "ríða (á baki) hests eða kameldýrs".
Jesúbarnið stúderar nú raunverulega merkingu allra klámorða í bak og fyrir og predikar nýuppgötvuð saklaus og rangtúlkuð orðin af krafti við alla sem vilja og vilja ekki heyra! (til dæmis ungan son sinn og maka sem eru ábyggilega í hálfgerðu taugaáfalli þessa dagana)
Ég og durgurinn og strípó í símaútsendingu hlógum svo mikið að ég er viss um að við verðum með strengi í magavöðvunum á morgun!
Það er allt til undir sólinni!
PPPPPPPPPPPPPPÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍKKKKKKKKKKKKKKKKKKKKKAAAAAAAAAAA

þriðjudagur, 19. febrúar 2008

Hver dagurinn öðrum betri!

Í dag skrifaði ég undir styrktarsamning við Hagkaup vegna kokkakeppni.is næstu þrjú árin.

Í miðjum heimilisfræðitíma, í indverskum kryddmekki og brosti hringinn.
Fulltrúar Hagkaupa og nemendur mínir með steikarspaða í hendi brostu líka.
Ég brosi enn hringinn

Kokkakeppnirnar komnar á borðið

Nú er allt að verða klárt fyrir kokkakeppnirnar mínar.
Rimaskólakeppnin verður 12. mars og kokkakeppni grunnskóla Íslands verður svo haldin í Menntaskólanum í Kópavogi 12. apríl.
Á http://www.kokkakeppni.is/ er hægt að sjá allt um herlegheitin en durgurinn hefur unnið að því hörðum höndum að setja þessa geggjuðu síðu upp.
Fyrstu skólarnir eru búnir að skrá sig og landsbyggðin er að koma mjög sterk inn.
Þetta verður stórkostlega gaman og það er frábært að upplifa hversu mikinn áhuga nemendur hafa á keppninni, bæði í Rimaskóla og öðrum skólum.

sunnudagur, 17. febrúar 2008

Sæta krúttið!

Ég er nývöknuð.

Durgurinn dró mig reyndar fram úr hálftólf í morgunverð sem hann var búinn að taka til en ég skreið bara upp í aftur og hélt áfram að sofa. Yndislegt.

Helgin er bara búin að vera ótrúlega skemmtileg og maturinn í gærkvöldi var æðislegur.


Ömmustrákur fylgdist vel með matargestunum borða og ég veit að ef hann gæti talað hefði hann heimtað að fá að smakka á öllu á borðinu.
Fyrsta myndin er tekin á föstudagskvöldið eftir að hann fékk pelann sinn og sælubrosið límdist á hann.
Hitt eru svo myndir af sundkappanum í ungbarnasundi á laugardaginn ;)

föstudagur, 15. febrúar 2008

Frábær dagur að kvöldi kominn

Ég settist við síma og tölvuvinnslu um leið og ég vaknaði 9:45 í morgun.
Kláraði að ganga frá dómnefndum fyrir báðar kokkakeppnirnar, öllum verðlaunum, hafði samband við alla aðila sem þarf að tala við og sendi loks auglýsingar á alla grunnskóla í Reykjavík.
Ofan á það allt saman gekk ég frá öllum uppskriftum fyrir Húsfreyjuna, verslaði allt hráefnið í boði Nóatúns og bæði verslaði, undirbjó, eldaði og þjónaði í árshátíðarveislu fyrir nokkrar ungar saumaklúbbskonur í Kópavoginum.
Þegar ég kom heim frá Kópavogi beið mín ákaflega kátur lítill ömmustrákur. Durgurinn passaði hann meðan ég var að veislast og svo lékum við saman við hann fram eftir kvöldi.
Hann varð ógurlega þreyttur og lítill í sér um ellefu leitið og þá fékk hann pelann sinn.
Hann lygndi augunum yfir pelanum og leið óskaplega vel og sat svo eins og lítill engill á fjólubláu skýi og brosti framan í heiminn linnulaust þangað til foreldrar hans komu og sóttu hann.
Ohhhh hvað það er yndislegt að eiga svona gullmola og fá að njóta hans í botn.
Frumburðinn færði mömmu sinni sýnishorn af þorrablótinu sem hann var á svo mín bíður geggjaður morgunmatur í fyrramálið.
Ég er hinsvegar svo gjörsamlega búin á því eftir þennan maraþon dag að ég ætla beint undir sæng og sofa eins og grjót til níu í fyrramálið.
Þá þarf ég að búa til Sólskins ostaköku með ástríðuívafi, fyllt hvítlauksbrauð, framandi túnfisksalat, naan brauð og 6 rétta indverska páskaveislu, skreyta borð og gera klárt fyrir ljósmyndara.
Tek mér samt pásu um hádegisbil og kíki á ömmustrákinn í ungbarnasundi.
Góða nótt ;)
Indverska hlaðborðið sem var eldað á laugardaginn.

fimmtudagur, 14. febrúar 2008

Vetrarfrí og fjörugt partí :)

Ég er í vetrarfríi í dag og á morgun.
Vaknaði í morgun við að karldurgurinn var að ljúka við að klæða sig. "hvert ertu eiginlega að fara"? spurði ég alveg undrandi á því að maðurinn væri kominn á fætur og klæddur fyrir allar aldir á "laugardegi". Maður ruglast alveg í vikudögum þegar svona frí eru annars vegar.
Í gærkvöldi var brjálað sjávarréttasúpu og singstar partý unglingadeildarinnar og hæsi og þynnka hefur litað daginn í dag.
Það var rosalega gaman og Haddi leikfimiskennari brilleraði þegar hann söng Creep ekki síður en Magni gerði í Supernova þáttunum. Hann fékk líka hátt í 10.000 stig drengurinn. Það sungu allir nema MARTA! og var hún þó mönuð ákaft, skræfan sú arna.
Súpan heppnaðist mjög vel og fékk þá dóma hjá kvenþjóðinni að hún jafnaðist á við raðfullnægingu.
Í dýrinu í skóginum sáu bæði Auður og Þórhalla úlf enda hefur þeim oft verið líkt við hvora aðra. Greinilega skyldir karakterar og algjörar úlfynjur báðar.
Gaman gaman :)
























Elskulegi unglingurinn minn er svo á árshátíð skólans síns, síðustu árshátíðinni í grunnskóla því á næsta ári verður hann framhaldsskólanemi. Hann er í bandi sem var sett saman í tilefni árshátíðarinnar og spilaði á bassa í laginu My dream/Marilyn Manson.
Ég hefði orðið bálskotin í honum sem unglingsstelpa, hár, herðabreiður gítarleikari með ómótstæðilegt bros.
Sjáiði bara hvað þetta er fallegur og gæfulegur ungur maður!









mánudagur, 11. febrúar 2008

Barnablað Gestgjafans og börnin mín!

Í nýjasta Gestgjafanum, barnablaðinu, eru 9 nemendur mínir að elda á 3 opnum.
Ljúf og brosmild systkini sem elda kjúklingasalat, 5 svakasætar vinkonur sem elda mexíkósúpu, fylltar pönnukökur og búa til salsa og geggjaður ís á eftir og svo 2 yndislegir piltar sem eru algjörir töffarar með þvílíkt yfirborð en ljúfir eins og sætustu heimalingar inn við beinið. Þeir elda tandoori rétt og baka brauð.
Ég er svo stolt af þessum efnilegu ungmennum.

Hér er svo einn aulabrandari af því ég hef ekkert að segja nema það sem má ekki segja á opnum vef.

Strákarnir hétu allir Óli
nema Siggi
hann hét Guðmundur

Mér finnst þetta pissfyndinn brandari!

sunnudagur, 10. febrúar 2008

Hann á afmæli í dag!!

Elskulegur frumburður minn á afmæli í dag.
Hann er 26 ára.
Ég var sextán ára kjánaprik sem hafði ekki hundsvit á anatomíu líkamans þegar hann fæddist (ekki hægt að útskýra þetta nánar nema yfir kaffibolla frá frú Ólafíu) og var alsæl með rauðhausinn minn.
Ég fékk reyndar ekki að sjá hann fyrr en ég var komin af gjörgæslu eftir bráðakeisara.
Ég var vöruð við því að þótt höfuðlagið á honum væri undarlegt þá myndi það ganga til baka. Hann fæddist nefnilega með myndarlegt keiluhöfuð (conehead) því það þurfti að toga hann upp að hluta því hann var byrjaður að ganga niður þegar keisaraskurðurinn var gerður.
Ég sá enga keiluhaus.
Ég sá bara fallegasta rauðhærða barn sem ég hef séð um æfina.
Hann var yndislegur og ég sveif á hamingjuskýi.
Hann var svo 12 daga gamall þegar við fengum að fara heim af spítalanum og hann hafði þyngst um nokkur hundruð grömm.
Þá var búið að kenna mér að ganga upp á nýtt og ég komin í það gott lag að ég mátti fara hálfa leiðina heim með hann (þurftum að vera hjá mömmu í nokkra daga því ég var enn mjög heilsulítil og með gat á saumnum sem gréri í).
Hann var alltaf ótrúlega gott barn og hamingjusamur fyrir utan erfið gelgjuár sem gengur fljótt yfir.

Í dag er hann hár, myndarlegur og vel gerður maður, faðir yndislegasta drengs í heimi og á frábæra konu og fallegt heimili.

Til hamingju rauðhausinn minn!

laugardagur, 9. febrúar 2008

Á einhver aukaklósett??

Vara fólk við heimilinu.
Durgurinn er lagstur í upp- og niðurpestina og hann æjar og óar meira að segja í svefni.
Unglingurinn heldur því fram að hann verði sko ekkert svona veikur þótt hann fái þetta því hann muni bara HARKA af sér!
Je ræt.
Þessi pest er eins og dýrsleg og grimm risaeðla sem nær í kjöt eftir margra mánaða hungursneyð.
Maður getur sér enga björg veitt.
Staðan á heimilinu er dálítið svört. Það er bara eitt salerni og ég er enn með niðurpestina þótt upphlutinn hafi látið undan seinni partinn í gær og ef unglingurinn (þessi sem ætlar að harka af sér) fær pestina líka þá flyt ég út í næsta skafl!

þið finnið lyktina út á næsta horn svo STAY AWAY!

We are contaminated en ef þið getið ekið hægt framhjá og skutlað klósetti fyrir framan húsið þá væri það mikil hjálp!

föstudagur, 8. febrúar 2008

Sófus á netinu!

Sófus er kominn á netið.
Doktorarnir framleiddu video með meistaranum og nú má sjá hann í harðfisk áti á youtube.
Endilega kíkið "Sófus borðar harðfisk með stæl"

Ég rétt lafi uppi. Búin að vera með svæsnustu upp og niðurpest sögunnar í hátt á annan sólahring, lítið sofið, ekkert borðað og er eins og afturganga.
það er eins og ég sé með segul á allar magapestar og ég fæ hreinlega eina af annarri.
Jökkk!

miðvikudagur, 6. febrúar 2008

Kvenfélögin


Í gamla daga þegar börn þurftu næstum að passa sig á risaeðlunum á leiðinni í skólann var ég í kvenfélagi.
Þá var ég bóndakona í sveit.
Kvenfélagið í sveitinni heimsótti aldraða, skemmti og bauð upp á veitingar meðal annars.
Vann að góðum málefnum og hélt úti saumaklúbb.
Ég var "litla barnið" í kvenfélaginu enda bara 17 ára gömul þegar þátttaka mín hófst.

Í gærkvöldi hringdi síminn.
Ritstjóri Húsfreyjunnar bað mig um að taka að mér að sjá um uppskriftasíður tímaritsins næsta árið.

Ég hvet ykkur til að gerst hið snarasta áskrifendur af Húsfreyjunni því þetta var beiðni sem mér fannst alltof skemmtileg til að hafna.
Þið megið gjarnan skrá ykkur í kvenfélag ykkar svæðis líka!

Og elda svo eftir uppskriftasíðunum og segja mér hvernig ykkur fannst!

Fyrsta blaðið "mitt" kemur út fyrir páska og á vissan hátt finnst mér þetta þýða að ég sé loksins orðin "stór" :)

mánudagur, 4. febrúar 2008

Andleg eyðimörk


Eyðimerkur ástand í huga mínum þessa dagana.
Það gerist eitt og annað en ég les bara annarra blogg og skrifa ekki orð sjálf.
Ég er orkulaus, andlaus og flöt.
Fæ martraðir aðra hverja nótt, vakna upp af þeim, sofna aftur og þær halda áfram eins og framhaldssaga.
Ekki gaman.

Það var hinsvegar mjög gaman að elda með froskinum og strípó um síðustu helgi og maturinn tókst frábærlega.
Við vorum öll þreytt eftir vikuna og slitum samvistum snemma þótt froggy og strípó færu ekki heim af sófanum fyrr en undir hádegi daginn eftir.

Vikan hófst með líkamlegu eyðimerkuástandi og óþolandi magasveiki en endaði með yndislegum nemendum mínum sem eru eiginlega upp til hópa alveg gjörsamlega æðislegir og ofsalega gaman að steikja, baka, hræra og skera með þeim.

Helgin hófst svo með mjög skemmtilegri heimsókn vinnufélaga durgsins en konan hans er heimónörd eins og ég. Ég hefi ákveðið að ættleiða þau í nördagengið. Hvort þau vilja eða ekki skiptir ekki, ég hef samt ákveðið þetta og mun beita öllum mínum ísmeygilegustu tólum og tækjum til.

www.kokkakeppni.is er svona á brúninni með að verða tilbúin og allt í gangi vegna keppnanna. Það sem vantar aðallega upp á er andleg orka mín en hún er ásamt líkamlegu atgerfi í sögulegu lágmarki þessa dagana.

Vonandi fer það að skána.

Í orkuleysi helgarinnar tók ég á móti litla frænda mínum í sparidinner á laugardagskvöldið og eyddi svo sunnudeginum langt fram á kvöld í að horfa á Lost, fyrstu seríu. Frábærir þættir.

Vikan er framundan og ég ætla að skreiðast undir sturtuna!

fimmtudagur, 24. janúar 2008

2 tönnslur !

Ömmustrákur er kominn frá Kanarí með tvær snjóhvítar tönnslur í neðri góm.
Hann er svo sætur að ég þarf hreinlega að stilla mig um að narta í hann!

Hann er sko mesta krútt í heimi og alltaf jafn kátur og sáttur við lífið og tilveruna :)

miðvikudagur, 23. janúar 2008

Til hamingju með afmælið!



Strípó á afmæli í dag!!!
Þversumman af aldrei hennar getur aldrei orðið hærri en hún er í dag nema verða tveggja stafa tala :)

Hversu gömul er hún þá??


Ég er orðlaus af undrun yfir þessari furðulegu stærðfræðigáfu sem skyndilega lét á sér kræla.


TIL HAMINGJU STRÍPÓ!!


Og sko, hann Keli er kysstur kvölds og morgna núna svo þetta er allt að koma.
Svona lítur hann út í dag!

þriðjudagur, 22. janúar 2008

Köttur og fugladans

Í gærkvöldi eldaði ég franska lauksúpu með beikoni og kartöflum.
Strípó, froskurinn, homminn og verkalýðsfrömuðurinn komu að borða.
Eftir matinn spiluðum við nýja partíspilið.
Hláturinn lengir lífið og með reglulegum spilasamkomum verðum við öll eldgömul.

Það vakti gífurlegan hlátur þegar strípó átti að teikna "að hengja bakara fyrir smið" og teiknaði kött með sprautu!
Sonur hennar ætlar að spila í liði með annarri familíu næst! "sáuði köttinn"!!!

Verkalýðsfrömuðurin brilleraði svo þegar hann átti að humma fugladansinn með Ómari Ragnarsyni.
Viðstaddir góluðu úr hlátri.

Þetta verður endurtekið við fyrsta tækifæri!

mánudagur, 21. janúar 2008

Herra borgarstjórar......

þið komið orðið og farið svo hratt að gamall heimilisfræðinörd á fullt í fangi með að halda því hverjir þið eruð, hverja stundina, í sínum alsheimerveika kolli.
Enda skiptir það ekki svo miklu máli þótt ég muni það ekki, það kemur jú alltaf nýr á morgun!

Það er aldeilis vit í íslenskri höfuðborgarpólitík og eftir höfðinu dansa jú limirnir!

Assgotass vitleysa!

Sleppum kosningunum bara næst. Þær virðast ekki vera annað en sýningar og -uppistandsþurft, óákveðinna. samskiptafatlaðra einstaklinga og gefum alla sjóðina og tilstandið til góðs málefnis!

sunnudagur, 20. janúar 2008

MMmmmmm *sleikjútum*

Við fórum í mat til Gunna frænda og Siggu Snjólaugar í gærkvöldi.
Grillaðir humarhalar í forrétt voru sjúklega góðir og bleikjurétturinn var svo góður að vaknaði í morgun og langaði í hann í morgunmat.

Þegar ég fæ uppskriftina ætla ég að setja hana hérna inn því þetta var gjörsamlega geggjað gott.

Svo var hlustað á tónlist, eða durgurinn og Gunni hlustuðu meðan við Sigga Snjólaug spjölluðum.
það var mikið gaman og ég hlakka til næsta boðs en þá ætlar Gunni að elda sitt víðfræga snitsel sem er víst engu líkt.

Í dag er legið í leti. Baðherbergið er enn óþrifið og pappírarnir í hrúgu og Nissaninn er niðri í bæ en ég er sko enn að lesa tvíburana svo það er allt annað á hold.

Farin aftur undir sæng að lesa ;)

laugardagur, 19. janúar 2008

úbartsviðtal og fleiri skemmtileg rangmæli

Elsti sonur minn sagði alltaf slétt (stétt)og simmet (sinnep) þegar hann var lítill
Doktorsneminn skoðaði myndir af þrettándabrennu Þórs á Akureyri þegar hún var þriggja ára og spurði upprifin um fígúru á einni myndinni "Er þetta Sveppalúður?".
Sá yngsti bað um snuss muss í stað swiss miss og svona frameftir götunum og hann kallaði útvarp, úbart.

Ég er einmitt að fara í úbartsviðtal fyrir barnatímann á rás 1 á eftir.

Reyni að passa mig á rangmælunum samt :)

Annars er ég að lesa. Ligg inni undir teppi á meðan snjónum kyngir niður úti og les Tvíburana eftir Tessa de Loo.
Þetta er heillandi bók. Ég er á blaðsíðu 219 og nýt hverrar síðu, hvers orðs.

Í gærkvöldi komu litla sys og börnin hennar í mat. Við spiluðum nýja partý spilið eftir matinn og það var svakalega gaman.
Börnin hennar kalla mig alltaf "frænku" og ég verð að segja að mér finnst ekkert smá notalegt að heyra "frænka, má ég eða frænka veistu hvað". Þetta er skemmtilegur titill og þau eru uppáhalds frænkan mín og frændur :)

Ég þarf að ganga frá pappírum í möppu og loka þannig árinu 2007 og þrífa baðherbergið en ég held ég lesi samt dálítið lengur.
Það er bara of notalegt til að gera nokkuð annað.

fimmtudagur, 17. janúar 2008

Undarlegur tími

Ég er undarlega djúpt hugsandi.
Um lífið og tilveruna.
Ég hef töluverðar áhyggjur af ýmsu í tilveru minni og mig langar mest til að sofa, vinna og sofa.
Stundum er bölvanlegt að hugsa.

þriðjudagur, 15. janúar 2008

Frábæra fólkið mitt :)

Unglingurinn minn hringdi í mig um helgina að heiman þar sem ég var stödd hjá mojito meisturunum í Costa del Yrsufelli og tilkynnti að hann ætlaði að kaupa sér nýjan magnara.
Ég sagði að við skyldum ræða þetta um helgina.
Við ræddum málin frá ýmsum hliðum.
Ræddum meðal annars um vexti á innlánsreikningum og hvernig hægt er að safna sér fyrir nýjum græjum á einu ári án þess að eyða til þess krónu.
Honum fannst þetta vaxtadæmi það sniðugt að hann hefur frestað þessum innkaupum um ár og ætlar í staðinn að leggja grimmmt inn á sérreikninginn sinn og láta svo vexti ársins borga bæði gítar og magnara.
Hann kynntist nefnilega vaxtagróðanum beint í æð um áramótin þegar innistæðan á sérreikningnum hans óx um nokkra tugi þúsunda!

Doktorsneminn minn náði öllum prófunum og fylgidoktorinn öllum nema einu en var eins stutt frá því og hægt er að vera með 4.5.
Ég veit hún rúllar þessu upp í ágúst.
Þær ræddu við sína menn hjá LÍN og þrátt fyrir þessa snurðu fær fylgidoktorinn 75% námslán svo þær eru í góðum málum þessir dugnaðarforkar.
Sófus hefðarköttur er fluttur að heiman eftir 9 ár en hann flutti sig um bæjarfélag til doktorsnemanna og plumar sig þar fínt!

Yngri stjúpdóttir mín ætlar svo í læknisfræðina næsta sumar svo það verður nóg af doktorum í familíen.

Stóri og tengdadóttirin eru á Kanarí ásamt ömmustrák og lentu í ælupest öll þrjú en eru orðin hress og hafa það vonandi sem allra best í ylnum (amk. ekki snjór og ískuldi eins og hér heima).

Eldri stjúpdóttirin er 25 ára í dag, kúlan hennar er orðin eins og sætur fótbolti og fer stækkandi enda verður fröken Ólafía örugglega kröftug kella þegar hún mætir á svæðið :)

TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ STEFFÝ KRÚTTUBUMBA!

miðvikudagur, 9. janúar 2008

Þagnarbindindi!

Allt er nú til!
Hálsbólgan lagðist á raddböndin, ég er stokkbólgin og helaum, með bjúg á raddböndunum og á samkvæmt læknisráði að STEINÞEGJA næstu fjóra daga svo ég missi ekki röddina til frambúðar!!

Afi vinar míns sagði einu sinni við mig að það væri hlutverk konunnar að halda kjafti og vera sæt. Þannig væru konur fullkomnar!
Ég er sem sagt hin fullkomna kona og ég hef grun um að karldurgurinn sé ekkert eins leiður yfir þessu og hann þykist vera!

Annars er það helst merkilegt í fréttum að Strípalingurinn er hætt að kyssa froska og er yfir sig ástfangin af honum Kela sem breyttist víst í prins við fyrsta koss!


Þetta er Keli áður en Strípó kysstann!

föstudagur, 4. janúar 2008

Skrýtnir skór :)

Í jólafríinu kom homminn í heimsókn ásamt verkalýðsfrömuðinum.
Frömuðurinn fór snemma heim en homminn fór undir morgunn.
Þegar hann mætti var hann í þessum líka fínu blankskóm, stærð 45 og hálft, glansandi með langri mjórri tá.

Daginn eftir rek ég augun í umrædda blankskó í forstofunni og hringdi um hæl í hommann.
"hvernig má það vera að þú ert þar, en skórnir þínir eru hér?"

Homminn kom af fjöllum, rölti fram í forstofu og svo kom skýringin "Það er bara einn skór hjá þér, ég hef farið heim í einum mínum og einum af durginum"

Ég rúllaði um í hláturskasti!

Karldurgurinn notar nebblega 42 EXTRA breiða svo homminn hefur verið eins og L þegar hann fór heim, annar fóturinn á þverveginn og hinn á langveginn!

Flottur!

Nýtt ár

Gleðilegt 2008.

Jólin voru yndisleg þrátt fyrir kvef, hálsbólgu og magaveiki sem enn er að hrjá mig.

Við fengum fullt af góðum gestum og jólaboðið á annan í jólum heppnaðist mjög vel þótt mér tækist með kvefdofinn heilann að brenna baunajafninginn.
Gestirnir (börnin okkar, tengdabörn, barnabörn og tengdamamma) svældu honum í sig og héldu því fram að þau finndu næstum ekkert brunabragð :)
Þetta er í fyrsta skipti í minni búskapartíð sem annað eins og þvílíkt klúður í eldamennsku hefur átt sér stað!

Áramótunum eyddum við eins og vaninn er hjá framhaldsskólakennaranum og vegagerðarmanninum.
Þegar ég mætti fyrst með humarsúpuna mína fyrir sjö árum voru Daníel og Karen (börnin á heimilinu) ekkert mikið spennt. Fengust til að smakka súpuna en hún fékk ekki háa dóma hjá þeim.
Það hefur heldur betur breyst á þessum sjö árum.
Núna stóðu þau systkinin yfir pottinum og smökkuðu non stopping þangað til súpan var borin fram og borðuðu þá bæði tvöfaldan skammt.

Ég er á því að við eigum að bjóða börnunum allt sem á borðum er, fá þau til að prófa og smakka því þannig þroskast bragðlaukarnir best og með tímanum hverfur öll matvendni.

Áramótakalkúnninn stóð undir væntingum að venju og nú hef ég heilt ár til að hlakka til næstu áramóta.

Lifið heil og passið ykkur á flensunni!